Þó að tvíhyggjan sé rót meinsins sem skilningstré góðs og ills gat af sér, finnst mér hafa verið gert of mikið úr annmörkum hennar hjá þeim sem látið hafa skoðanir sínar í ljós þar að lútandi á þessum vef.
Tvíhyggjan hefur einnig sitt hvað til síns ágætis. Til að mynda liggur hún til grundvallar rökhyggjunni, sem vísindi og tækni og önnur gæði efnishyggjunnar eru leidd af. Þetta á við þegar tvíhyggjunni er haldið innan sinna marka.
Vandinn er sá að tvíhyggjan er svo yfirþyrmandi að hún gerir tilkall til þess að setja allt undir himni og jörðu undir sína mælistiku. Allt sem ekki fellur inn í það ferkantaða módel er annað hvort óvisindalegt rugl eða frumstæð hindurvitni. Það kastar svo úr kekkjunum þegar trúarbrögðin nota tvíhyggjuna sem mælikvarða á óendanleikann eins og glöggt kemur fram í semitískum trúarbrögðum (þ.e. gyðingdómi, kristni og íslam). Þarna undanskil ég dulhyggjuhefðir innan þessara trúarbragða sem eru í grundvallaratriðum með sitt á hreinu hvað þetta áhrærir eins og ég hef vikið að í greinum mínum.
Einnig má við þetta bæta að við getum þurft á því að halda að aðgreina okkur og heiminn í svart hvítar andstæður þó sú skipting sé “blekking” (maya) út frá kosmísku sjónarmiði. Mergur málsins er að við gerum okkur grein fyrir blekkingunni og kunnum að lifa við hana.
Listamenn eru orðlagðir fyrir að hafa þróað heildarskyn, sem einkum flokkast undir starfsemi hægra heilahvelisins. Hafi þeir einnig þroskað “vinstra heilahvelið”, þ.e. rökhyggjuvitið (tvíhyggjuskilning sinn) geta þeir orðið frábærir í sinni grein, sbr. Leonardo da Vinci sem var framúrskarandi vísinda- og listamaður. Takmarkið er að bæði heilahvelin séu vel samhæfð og rétthá en ekki að vinstra heilahvelið (tvíhyggjan) undiroki það hægra (heildarhyggjan) í bókstaflegum skilningi.
Mér finnst einnig vera of mikið gert af því að mála skrattann á vegginn með því að leita sökudólgsins hjá semitískum trúarbrögð allt aftur til Zaraþústra-trúarinnar. Frekar að þessi trúarbrögð hafi réttlætt og klætt í búning tilhneigingu sem þegar var til staðar. Þá varð fyrst fjandinn laus. Zaraþústra til vorkunnar má segja að fylgismenn hans virðast hafa misskilið hann því hann kvað nú vera upprisinn meistari þó hann standi ekki jafnfætis trúarleiðtogum á borð við Búddha og Jesú. Það er gömul saga og ný að byltingin borðar börnin sín.