Eingyðis- og algyðistrú
Heimspekingurinn Spinoza var einhyggjumaður og algyðissinni. Sköpunarverkið væri ekki aðskilið frá Guði því að náttúran og allt líf innan hennar teldust til einnar frumverundar. Andinn og efnið væru birtingarmyndir Guðs. Það sé náttúran sem hugsi hugsanir manna og hreyfir sig í þeim. Allt er á sínum stað innan heildarinnar. Guð sem er innri orsök alls ákvarði allt með náttúrulögmálunum. Hann sagði að alheimurinn væri í Guði og vitnaði í Pál postula sem sagði: "Í honum lifum, hrærumst og erum vér. (P 17.28)
Kristin guðfræði greinir á milli eingyðistrúar og fjölgyðistrúar. Samkvæmt þeim skilningi kom eingyðistrúin fram þegar Móse spámaður Gyðinga boðaði trú á hinn eina sanna Guð sem væri öllum hjáguðum annarra þjóða æðri. Einingarhyggjumenn meta að verðleikum fjölda guðlegra vera sem eru að verki í margbreytileika sköpunarverksins en leggja jafn mikla áherslu á að á baki tilverunnar standi einn og ódeilanlegur andi og vitund. Það vottar fyrir slíkri einingarsýn hjá kirkjunni þar sem heilög þrenning á í hlut, þ.e. trú á þríeinan Guð.
Til hjáguða, sem kirkjuyfirvöld fordæma sem leifar heiðins átrúnaðar, má nefna höfuðskepnurnar, frumgervisverur, álfa, tröll og tíva, samanber ræða biskups á Hólahátíð í fyrra (sjá Mbl. 18.08.98). Að sögn algyðistrúarmanna gera menn vættunum oft lífið leitt með brölti sínu og náttúruspljöllum sem geri þeim örðugt um vik að þjóna þróun lífsins og viðhalda jafnvægi náttúrunnar. Heillavænlegra væri að virða vættina að verðleikum og styðja náttúruöflin með fyrirbænum í anda ásatrúarmanna. Sögur um álagabletti og steina vitni um helgi þeirra. Vættirnar eigi í vændum að verða háþroskaðar englaverur og tívar líkt og fullnuma menn sem rísa upp til eilífs lífs. Þó benda algyðistrúarmenn á að til séu vættar sem hafi snúið gegn vilja Guðs líkt og sagt er um fallna engla og menn í Biblíunni.
Tvíhyggja og heildarhyggja
Farið er að bera brigður á ríkjandi tvíhyggjustefnu innan vestrænnar menningar og kristinnar trúar á kostnað einingarsýnar sem hér á eftir verður gert skil á. Það sem bindur saman hin sundurleytu viðhorf nýja tímans er vitundarvakning sem nefnist einingar- og heildarhyggja. Þessi stefna lítur á alla tilveruna sem eina heildstæða, samverkandi og samþættandi einingu. Skoða verði hvert mál út frá innbyrðis samhengi þáttanna.
Heildarhyggjan kemur glöggt fram í síauknum alþjóðasamskiptum og bandalagamyndunum, eins og EES, EFTA, WTO, NAFTA, NATO, UN, sem eru beinlínis byggð á hagkvæmni slíkra heildarsamtaka. Umhverfisverndarsamtök, mannréttinda- og friðarhreyfingar láta sig núorðið málefni allrar jarðarinnar skipta. Vegna ört vaxandi gagnkvæmra stjórnmála, efnahags- og menningatengsla eru hagsmunir þjóðanna orðnir svo samtvinnaðir og samháðir að kreppa eða illdeilur í einu landi eða heimshluta bitnar á öðrum þjóðum. Mengun í suðurhöfum kemur jafnvel fram sem ógnun við lífsafkomu frumbyggja í N-Íshafi. Mönnum er að verða betur ljóst að mannkynið er ein fjölskylda á sama báti.
Vestræn menning hefur hlotið ákúrur fyrir að byggja hefðbundna heimssýn sína um of á sundurgreiningu og einleitri (línulegri) hugsun. Hún birti brotakennda og ósamstæða mynd af heiminum og andstæðum sem hafi lítil eða óljós tengsl innbyrðis. Það komi meðal annars fram í tæknivæddri læknisfræði sem einblíni að mestu leyti á líkamleg einkenni sjúkdómsins en vanræki sálræna og félagslega orsakavalda. Hún noti tilbúin lyfjaefni sem valdi aukaverkunum og bæli niður orsakir meinsins sem geti komið fram í alvarlegri sjúkdómum síðar meir. Iðkendur óhefðbundinna læknaaðferða, eins og hómópatar, telja sig taka heildrænna mið af einstaklingnum og aðstæðum hans við greiningu sjúkdóma, samanber hugtakið heilun eða græðing. Þeir leggi áherslu á ábyrgð einstaklingsins fyrir eigin heilsu og eflingu mótstöðuafls í líkamans gegn sjúkdómum.
Póstmódernismann má telja dæmigerðan fyrir þróun heildarhyggjunnar. Hann vinnur að samþjöppun fræðigreinanna og leitast við að rannsaka ýmsa þætti menningar frá ólíkum sjónarhornum mannlegra (húmanískra) fræða. Hann vinnur gegn síaukinni sérhæfingu fræðigreinanna. Aðferð hans byggja fremur á innsýn en rökgreiningu. Hann hefur stuðlað að því að færa fræðin nær almenningi þó að mörgum rökfræðingnum þyki hann vera ómerkilegt þvaður og lýðskrum um allt og ekki neitt.
Skynheildarsálfræðin (Gestalt) sem upprunnin er í Þýskalandi á fyrri hluta þessarar aldar kom fram sem mótvægi við smættunarhyggju (reductionism) ríkjandi sálfræðistefna sem “búti og skeri sálarlífið niður við trog”. Þeir “uppgötvuðu” að heildin er meiri en summa eininganna, samanber tónverk er meira en tónarnir sem það er samsett úr.
Sameingnarstefna Karl Marx sem byggir á heildstæðri þjóðfélagskenningu dagaði uppi sællar minningar. Ef til vill hefði farið betur ef Marx hefði ekki snúið hinni díalektísku hughyggju Hegels á hvolf sem gerði efnið æðra andanum? Kenning Hegels gerði ráð fyrir að framþróunin fælist í að andstæð öfl hefðust upp í æðra veldi og mynduðu nýjar andstæður og svo koll af kolli.
Roger Sperry og félagar fengu nóbelsverðlaun á áttunda áratugnum fyrir rannsóknir í lífeðlislegri sálfræði varðandi starfskiptingu heilahvelanna. Nýaldarsinnar gripu þær á lofti og hampa því að vestræn menning sé “vinstra heilahvelssinnuð”, þ.e. leggur áherslu á sundurgreinandi, línulega rökhugsun á kostnað heildarhyggju. Þeim þykir brýnt að Vesturlönd “mennti betur hægra heilahvelið og geri báðum heilahvelunum jafnt hátt undir höfði”. Hægra heilahvelið er talið tengjast meir heildrænni skynjun og skapandi innsæi..
Tvíhyggja innan kristninnar á rætur að rekja til menningararfleifðar Gyðinga frá því þeir voru í útlegð í Babylóníu á sjöundu öld f.Kr. Tvíhyggjan lítur á andstæður eins og anda og efni, ljós og myrkur, gott og illt sem stríðandi og ósættanleg öfl þar sem einn þáttur ríkir á kostnað annars. Einingarhyggjan lítur hins vegar á andstæðurnar sem gagnstæða en samverkandi póla eins og tvær hliðar á sama peningi þar sem önnur hliðin bætir upp hina. Ljósið hljóti merkingu sína í afstöðu til myrkursins sem það lýsi upp og hið góða fær gildi sitt sem andstæða hins illa og öfugt. Ef gengið er út frá því að sannleikur mannanna sé afstæður en Guðs algildur þá hlýtur stóri sannleikurinn að vera handan góðs og ills.
Samkvæmt einingarhyggjunni byggir tvíhyggja kristninnar á misskildum og vonlausum rembingi. Ásteytingasteinninn sem hún hnýtur um er nefnilega óhjákvæmilegur fylgifiskur andstæða sinna. Zen-búddhasinninn Allan Watts líkir þess vegna tvíhyggjunni við leit að ímynduðum lengdar- og breiddargráðum á jarðkúlunni sem er aðeins að finna á landakorti. Einnig megi líkja henni við vindmylluslag og hund sem eltir á sér skottið. Til að sýna fram á haldleysi tvíhyggjunnar láta zen búgghameistarar lærlinga sína glíma langtímum saman við fáránleg heilabrot (koan) eins og að skilgreina hvernig klapp með einni hendi hljómar og hvað sé ekkert? Einnig verja þeir miklum tíma í að hlusta á þögnina.
Einingarsinnar telja sjónarmið tvíhyggjunnar geta haft skaðlegar afleiðingar. Dæmi um það eru sálrænir erfiðleikar og sjúkdómar sem spretta upp þegar siðferðislegt mat tvíhyggjunnar er lagt til grundvallar vegna andstæðra langana og hvata sem togast á.
Íslensk þjóðtrú bendir óbeint á skaðsemi tvíhyggjunnar. Hún ber með sér að náttúran leitar út þó að hún sé barin með lurkum. Dæmi: Púkinn á fjóshaugnum fitnaði og færðist allur í aukana eftir því sem vinnumaðurinn bölsótaðist meir gegn honum þar til að púkinn stóð á blístri. Þegar hann lét púkann af afskiptalausan lyppaðist skaufinn niður. Annað dæmi: Þegar fólk gekk til kirkju á jólunum var venjulega einn maður hafður eftir til að gæta bæjarins. Alls konar hulduverur og vættir gerðu sig þá heimakomna. Þá fór heimamaður með eftirfarandi þulu: “Komi þeir sem koma vilja, veri þeir sem vera vilja, fari þeir sem fara vilja, mér og mínum að meinalausu”.
Organistinn í Atómstöðinni, í skáldsögu Halldórs Laxness, var einingarsinni í anda taóspekinnar. Hann vissi hvað þýddi að starfa án strits. Þegar hann var spurður hvers vegna hann skyti skjólshúsi yfir gleðikonur kvaðst hann ekki geta séð muninn á konu sem svæfi tuttugu sinnum hjá sama manni og konu sem svæfi einu sinni hjá tuttugu mönnum. Kínversk menning hefur án efa þrifist og dafnað í nokkur þúsund ár vegna áhrifa tóspeki Lao Tzu og Chuang Tzu ásamt siðavandri hefðastefnu Konfúsíusar.
Skilningur Jesú á lögmálinu var í samræmi við taó: “Þegar Jesús bauð illvirkjunum hinn vangann var hann í raun að kenna mönnum að sporna ekki gegn hinu illa heldur vera opinn, taka á móti tilverunni og öllu því sem henni fylgir” (Mascetti, s. 23). Ræningi sem hitti búddhamunk á förnum vegi kvaðst geta drepið hann með köldu blóði án þess að depla augum. Munkurinn svaraði um hæl að hann gæti fallið fyrir hendi ræningjans án þess að depla augum!
Austurlenskur bardagalistamaður veitir andstæðingnum ekki beina mótspyrnu heldur notar kraft hans gegn honum sjálfum svo að hann falli á eigin bragði, samanber júdó sem þýðir hin mjúka, eftirgefanlega, undanlátsama og kvenlega leið. Víkingarnir og fornkaparnir okkar voru eins og sannir japanskir málaliðar (samúrajar) því þeir sættu lagi þegar færi gafst, færðu sig upp á skaptið og létu kné fylgja kviði.
Líf zen búddhamanna er samfelld og óslitin íhygli. Þeir veita eftirtekt minnstu smáatriðum sem upp koma í huganum og öllum umhverfisáhrifum, gefa áreitum fullan gaum án þess að örva eða letja óviðurkvæmilegar hugsanir og kenndir þar til að þær líða hjá eins og vindur fyrir eyrum. Skynjun þeirra á sjálfum sér og heiminum er óbrengluð og heil en ekki lituð af löngunum, ótta og blekkingum, taka sem sagt lífinu með jafnaðargeði.
Nútíma eðlisfræði og heildarhyggja
Kjarneðlisfræði nútímans hefur varpað nýju ljósi á eilífðar þrætuepli tvíhyggjunnar um mótsögnina á milli frelsi viljans, sem Guð ánafnaði manninum samkvæmt guðfræðinni, og hefðbundinnar nauðhyggju vísindanna. Nauðhyggjan byggir á heimsmynd Newtons um vélræn og fastmótuð orsakatengsl efnisins og þróun heimsins þar sem allt er fyrirfram ákvarðað. Þessi vinnutilgáta hefur reynst rökhyggjunni og raunvísundunum notadrjúgt veganesti en vakið heilabrot innan heimspeki, félagsvísida og húmanískra fræða.
Afstæðiskenning Einsteins og þverstæðukennd skammtakenning Heisenbergs sýna að heimurinn er ekkert einfalt úrverk. Efniseindirnar geti í sömu andrá verið ljósbylgjur, og hugsanlega verið alls staðar en samt hvergi. Nánar tiltekið ákvarðar sjónarhorn vísindamannsins ráðandi eigindir og staðsetningu ljós-/efniseindanna. Hlutlæg efnisvísindi reynast ekki vera til því að vitund vísindamannsins hefur óhjákvæmileg áhrif á viðfangsefnið og niðurstöðurnar – efni og anda er ekki hægt að skilja að í anda heildarhyggjunnar.
Þessar þversagnir kallaði Fritjof Capra fjórðu víddina í viðbót við rúmmál og tíma í riti sínu Taó eðlisfræðinnar. Fjórð víddin feli í sér að allt í alheiminum hafi áhrif hvað á annað. Þetta sýni eininguna í fjölbreytileikanum líkt og speglabrot sem sýna öll sömu upprunalegu spegilmyndina (hólógram). Þess vegna gat Jesús með réttu sagt: “Hárin á höfði yðar eru jafnvel talin” (Lk 12.7), þar sem öll vitund Guðs endurspeglast í einu hári og öfugt. Stjörnuspekin, og önnur spádómsfræði, byggir meðal annars á þessu lögmáli, þ.e. gangur himintunglanna endurspeglar líf manna á jörðu. Capra heldur þvi fram að austræn dulspeki, sem beiti innsæisskoðun á hugarheiminu og vestræn vísindi, sem leiti að reynsluþekkingu á raunheiminum, séu út frá gjörólíkum leiðum farin að nálgast – allar leiðir liggja sem sagt til Rómar.
Einingarvitund og dulhyggja
Menn túlka venjulega dulræna reynslu sína með hliðsjón af trúarlegum bakgrunni. Jóginn íhugar tengsl síns innra manns við veruleikann sem hann skynjar sem órjúfanlega undirliggjandi einingu alls þar sem andstæður renna saman í eina heildræna óskipta mynd. Karmajógar (jógar í verki) finna samhljóminn og taktinn í kraftbirtingu tilverunnar með því að hafa stöðugt hugfast að þeir eru verkfæri í höndum alvitundarinnar, Brahman, sem starfar í gegnum þá og er gerandi verknaðarins. Slík samkennd við “allt sem er” leysir menn úr viðjum tvíhyggjunnar og er undanfari einingarvitundar. Þá hættir iðkandinn að gera greinarmun á sér og tilverugrundvelli sínum. Skilin á milli gerandans, verknaðarins og viðtakandans þurrkast út. Han upphefst í æðra veldi þar til að hann rennur alsæll saman við ástfóstur sitt. Dulspekingurinn kynnist innsta eðli tilverunnar í allri sinni dýrð. Ýmsir einlægir guðstrúarmenn, unnendur fagurra lista og náttúrudýrkendur hafa komist í slíkt algleymi.
“Hugsunin er sú að það sem við köllum venjulega ”sjálfið" sé ekki okkar raunverulega sjálf. Í eins konar leiftursýn skynjum við að við tilheyrum stærra sjálfi… [guði, heimssálinni]… Við samrunann finnst dulspekingnum að hann tapi sjálfum sér“, hann hverfu í guði eða týnist í guði líkt og vatnsdropi ”tapar sjálfum sér“ þegar hann fellur í hafið… eins og neisti frá bálinu. Kristni dulspekingurinn Sílensíus (1624-1677) orðaði það svona: ”Dropinn verður haf í hafsins djúpa ál, í upphæðum hjá guði veruður guð hver sál“… Indverskur dulspekingur sagði: ”Þegar ég var, var Guð ekki. Nú er guð og ég er ekki lengur til“ (Gaardner, s. 132-4).
Kristnir menn telja sig renna saman við persónulegan guð og er samruninn venjulega ekki eins algjör og tíðkast að ástunda í austrænum trúarbrögðum. Þess vegna segir hindúinn gjarnan: ”Ég er Guð“. Kristni dulhyggjumaðurinn leitast við að verða hluttakandi í guðlegu eðli með því að verða eitt með Guði fyrir meðalgöngu Krists (sbr. 2Pt 1.4). ”Á þeim degi munuð þér skilja, að ég er í föður mínum og þér í mér og ég í yður“ (Jh 14.20).
Merki um einingarhyggju dultrúarinnar finnst víða í Nýja testamentinu: ”Þegar allt hefur verið lagt undir hann… til þess að Guð sé allt í öllu“ (1Kor 15.28). ”Ég er vínviðurinn, þér eruð greinarnar. Sá ber mikinn ávöxt sem er í mér og ég í honum" (Jh 15.5). Páll sagði að Kristur væri höfuð kirkjunnar og söfnuðurinn líkaminn. Limirnir í líkamanum væru náðargáfurnar (sjá 1Kor 12; Ef 1.23; 4.4,11-16,25; 5.29). Náðargáfurnar líkjast dulrænum hæfileikum sem kristnar vakningahreyfingar og ýmsir nýaldarsinnar sækjast eftir. Þar sem ekki er allt gull sem glóir er gott að hafa í huga varnaðarorð Páls gegn fölskum spámönnum (sbr. 1Þ 20-22; 1Jh 4.1).
HEIMILDASKRÁ
Allan W. Watts. The Way of Zen. Penguin Books, N.Y., 1957.
Biblían. Heilög ritning. Gamla testamentið og Nýja testamentið. Ný útgáfa, HÍB, Reykjavík, 1981.
Fritjof Capra. The Tao of Physics. Shambhala Publication. Boulder CO, 1976.
Gunnar Dal. Heimspekingar Vesturlanda. Víkurútgáfan. Reykjavík, 1979.
Gunnar Dal. Grískir heimspekingar. Víkurútgáfan. Reykjavík, 1975.
Halldór Kiljan Laxness. Atómstöðin. Reykjavík: Vaka-Helgafell, 2002.
Haraldur Ólafsson. Trú, töfrar og galdur. Félagsvísindadeild Háskóla Íslands, Örn og Örlygur, 1976.
Heimir Steinsson. Kristinn einingarhyggja. Mbl. 2. nóv., 1997.
Helstu trúarbrögð mannkynsins. AB, Reykjavík, 1962.
Jón Árnason. Íslenskar þjóðsögur og ævintýri. Reykjavík. Þjóðsaga, Hólar, 1993
Lao Tzu. Bókin um veginn. Staðafell, 1971, 2. útg. Í útg. Í þýðingu Jakobs J. Smára og Ingva Jóhannessonar.
Radhakrishnan, Eastern Religions and Western Thought. Oxford University press, Delhi, London, NY, 1989.
Yogi Ramacharaka. Yoga heimspeki. Fjórtán fræðastundir. Vasaútgáfan, Reykjavík, 1987.
Þröstur Helgason. Potað í póstmódernismann. Mbl, 18. nóv. 1997.