Inngangur

Í greininni “Þöglu árin í ævi Jesú”, greindi ég frá handriti sem bendir eindregið til þess að Jesú hafi dvalið á Indlandi áður en hann hóf boðun fagnaðarerindisins í landinu helga. Ég birti hér með þýðingu á Issa handritinu í heild sinni eins og það er kallað. Ég mæli með að lesendur renni áður yfir fyrri greinina til upprifjunar.



ÆVI DÝRLINGSINS ISSA – BESTUR MANNSSONA


1. Kafli

1 Jörðin hefur skolfið og himnarnir hafa grátið vegna hræðilegs illverknaðar sem hefur verið framinn í landi Ísraela. 2 Þar hafa þeir pyntað og líflátið hinn mikla og réttsýna Issa sem alheimssálin hefur tekið sér bólstað í – 3 sem líkamnaðist í látlausum, dauðlegum manni til að gera vel við mennina og útrýma illu hugarfari þeirra – 4 og til að færa manninn frá niðurlægingu synda sinna til kærleiksríks lífs, friðsældar og hamingju – og til að minna mennina á einan og óskiptan skapara sem er gæddur óendanlegri og takmarkalausri náð.
5 Hlýðið á hvað kaupmenn frá Ísrael hafa að segja oss um þessi mál.


2. Kafli

1 Ísraelsþjóð, sem býr í frjósömu landi, er gefur af sér tvær uppskerur á ári og sem á stórar hjarðir, reitti Guð til reiði vegna synda sinna – 2 sem tyfti þá rækilega með því að taka af þeim land þeirra, nautgripi og aðrar eignir. Hinir voldugu og auðugu faraóar sem ríktu þá í Egyptalandi hnepptu Ísraela í þrældóm. 3 Þeir komu verr fram við Ísraela en skepnur, íþyngdu þeim með erfiðisverkum og hlekkjum. Þeir hlóðu þá kaunum og svipusárum, sveltu þá og meinuðu þeim að hafa þak yfir höfuðið – 4 héldu þeim í heljargreipum og sviptu þá öllu sem mönnum er sæmandi. 5 Í neyð sinni mundi Ísraelsþjóð eftir himneskum verndara sínum og sneru sér til hans og sárbændu hann um náð og miskunn. 6 Rómaður faraó hafði getið sér orðstírs með mörgum sigrum, auðævum sem hann hafði sankað að sér og stórkostlegum höllum sem þrælar hans höfðu reist honum.
7 Faraó þessi átti tvo sonu, sá yngri nefndist Mossa. Lærðir Ísraelar kenndu honum ýmis fræði. 8 Þeir unnu Mossa í Egyptalandi fyrir góðmennsku hans og samúðar sem hann auðsýndi öllum sem þjáðust. 9 Hann varð vitni að því að Ísraelar yfirgáfu ekki Guð sinn, þrátt fyrir óþolandi þjáningar sem þeir máttu líða, neituðu þeir að tilbiðja guði Egypta sem gerðir voru af mannahöndum. 10 Mossa trúði á ósýnilegan Guð sem þeir vildu ekki yfirgefa þrátt fyrir aukið mótlæti. 11 Spámenn Ísraelsmann tendruðu eldmóð Mossa og gátu leitað á náðir hans, báðu hann um að tala máli þeirra við faraóinn föður sinn í þágu trúbræðra sinna. 12 Það varð til þess að prinsinn Mossa gekk að máli við föður sinn og beiddi hann um að hlutast til um ill örlög hinna ógæfusömu. En faraóinn fyrtist við og jók enn á þjáningar þræla sinna. 13 Skömmu síðar gerðist það að fár mikið lagðist á Egypta. Plágan útrýmdi bæði ungum sem öldnum, veikum sem sterkum; og faraóinn trúði á að guðir hans væru gramir honum. 14 En prinsinn Mossa sagði föður sínum að það væri Guð þræla hans sem hefði hlaupið undir bagga með þessum ógæfumönnum með því að refsa Egyptum. 15 Faraóinn skipaði þá Mossa syni sínum að taka alla þræla af kynþætti Gyðinga og leiða þá út fyrir borgina og stofna aðra borg víðs fjarri þar sem hann átti að dveljast á meðal þeirra. 16 Mossa gaf þá hebresku þrælunum til kynna að hann hafði leyst þá úr ánauð í nafni guðs þeirra, guðs Ísraela, og hann fór út úr borginni með þeim og frá landi Egypta.
17 Hann leiddi þá til landsins sem þeir höfðu glatað vegna alvarlegra synda sinna, hann gaf þeim lög og fyrirskipaði þeim að biðja ávallt til hins ósýnilega skapara sem ber ótakmarkaðan kærleika til mannanna. 18 Eftir lát Mossa héldu Ísraelar fast við lögin, þar af leiðandi linaði harðindunum sem hann hafði leitt yfir þá í Egyptalandi. 19 Konungsríki þeirra varð hið voldugasta á jörðu, konungar þeirra voru rómaðir fyrir ríkidæmi sitt, og friðsæld ríkti um langt skeið á meðal Ísraelsþjóðarinnar.


3. Kafli

1 Dýrð ríkidæmis Ísraela barst út um allar jarðir og nágrannaþjóðir þeirra báru öfundarhug til þeirra. 2 Hinn æðsti leiddi sjálfur sigursælar hersveitir Gyðinga og heiðingjarnir dirfðust ekki að veita þeim aðför. 3 Illu heilli er maðurinn ekki ávallt sjálfum sér samkvæmur, tryggð Ísraelsmanna við Guð sinn stóð ekki lengi. 4 Þeir fóru að gleyma allan viðurgerning sem hann hafði veitt þeim að rausn sinni, ákölluðu sjaldnar nafn hans og leituðu ásjár hjá töfra- og særingarmönnum. 5 Konungarnir og leiðtogarnir settu á eigin lög í stað þeirra sem Mossa hafði boðið þeim. Musteri Guðs og tilbeiðsluhald var lagt niður. Lýðurinn gaf sig að skemmtunum og glataði upprunalegum hreinleika. 6 Nokkrar aldir höfðu liðið eftir brottförina frá Egyptalandi þegar Guð ákvað að beita þá enn hegningarvaldi sínu. 7 Framandi fólk fór yfir land Ísraela, eyðilagði landið, tortímdi þorpunum og leiddi ibúana í ánauð.
8 Einhverju sinni komu heiðingjar frá landi Rómula, handan við hafið. Þeir undirokuðu Hebreana og settu yfir þá hersveitir skipaðar af keisaranum. 9 Eyðilögðu musterin, þvinguðu íbúana til að láta af dýrkun ósýnilegs Guðs síns og neyddu þá til að færa heiðnum guðum sínum fórnarlömb. 10 Þeir gerðu tiginborna að hermönnum, konur voru numdar á brott frá eiginmönnum sínum og lægri stéttar fólk, sem var hneppt í ánauð, var sent umvörpum handan yfir hafið. 11 Hvað börnunum viðkom var þeim fleygt fyrir sverðsodda. Ekki leið á löngu uns ekkert heyrðist annað en grátur og gnístran tanna í landi Ísraela. 12 Í neyð sinni mundi lýðurinn eftir hinum mikla Guði sínum. Hún grátbað hann um miskunn og fyrirgefningu; og faðir vor, af takmarkalausri náð sinni, heyrði bænir hennar.


4. Kafli

1 Stundin var runnin upp fyrir hinn miskunnsama dómara að holdgerast í mannsmynd. 2 Eilífðarandinn sem hvílir í algjörri kyrrð og alsælu vaknaði til vitundar og greindi sig frá eilífðarverundinni í ótilgreindan tíma. 3 Hann vildi sýna manninum hvernig hann getur samsamað sig guðdómleikanum og öðlast ævarandi sælu – 4 og sýnt með eigin fordæmi hvernig maðurinn getur öðlast hreina siðferðiskennd og losað sál sína úr viðjum hverfulleikans, svo hann geti náð tilskilinni fullkomnun og komist til konungsríkis himnanna sem er óbifanleg, eilíf alsæla.
5 Skömmu síðar fæddist undursamlegt barn í landi Ísraels, Guð sjálfur talaði fyrir munn barnsins um veikleika holdsins og mikilfengleika sálarinnar. 6 Foreldrar hins nýfædda barns voru fátækt fólk, komið af nafntogaðri frómri fjölskyldu. Það lifði ekki á fornri frægð á jörðu heldur lofaði nafn skaparans og þakkaði honum fyrir erfiðleikana sem honum fannst við hæfi að leggja á það til að reyna það. 7 Til að launa þeim fyrir að snúa ekki baki við sannleikanum blessaði Guð frumburð fjölskyldunnar. Hann var útvalinn af Guði og sendur til hjálpar þeim sem höfðu orðið spillingu að bráð og lækna þá sem þjáðust.
8 Hið guðdómlega barn, sem var skírt Issa, talaði frá blautu barnsbeini um hinn eina og óskipta Guð, [hann] brýndi fyrir villuráfandi sálum að gera iðrun og fá fyrirgefningu syndanna sem mennirnir höfðu gert sig seka um. 9 Fólk kom hvaðanæva að til að hlýða á hann og það lofsamaði ræðurnar sem barnið mælti af munni fram. Allir Ísraelar voru sammála um að hinn eilífi andi hefði tekið bólstað í barni þessu. 10 Á þrettán ára aldri var Issa kominn á það skeið að hann skyldi taka sér konu. 11 Húsið, þar sem foreldrarnir sáu sér farborða með látlausri iðju, varð brátt samkunda fyrir ríkt og tigið fólk sem óskaði sér að fá hinn unga Issa fyrir tengdason sem þegar hafði getið sér gott orð fyrir upplýsandi ræður í nafni almættisins. 12 Það varð til þess að Issa yfirgaf föðurhúsin í leynd og hélt frá Jerúsalem ásamt kaupmönnum á leið til Sind [þ.e. Sind hérað í Indlandi] – 13 með það í huga að verða fullnuma í orði Guðs og leggja stund á speki hinna miklu búddha.


5. Kafli

1 Á fjórtánda ári kom hinn ungi Issa, blessaður af Guði, að vestanverðu Sind og kom undir sig fótunum á meðal aríanna í landi sem Guð hafði velþóknun á. 2 Orðstír þessa undursamlega barns breiddist út um endilangt Sind norðanvert. Þegar hann fór yfir fljótin fimm og Rajputana [nú Punjab á Indlandi] báðu tilbeiðendur guðsins Jaine hann um að dveljast á meðal þeirra. 3 En hann yfirgaf villuráfandi tilbeiðendur Jaina og fór til Juggernaut í landi Orissa [þe. árdals Indusfljótsins í suðaustanverðu Pakistan] þar sem jarðneskar leifar Vyasa-Krsna hvíla. Þar tóku hinir hvítu brahmínprestar vel á móti honum. 4 Þeir kenndu honum að lesa og skilja vedaritin, lækna með bænum, kenna og útskýra heilagar ritningar fyrir almenningi, reka út illa anda og endurheimta þannig að nýju heilbrigði andans. 5 Hann varði sex árum í Djaggernaut, Radjagriha, í Benares og öðrum helgum borgum. Allir unnu honum og Issa lifði í sátt og samlyndi við vaisya [handiðnaðarmenn og bændur] og súdra [verka- og þjónustufólk] sem hann kenndi hin helgu fræði.
6 Brahmaprestar og kshatriyar [stjórnendur] sögðu honum að Para Brahma [Guð allsherjar] hefði bannað samneyti við lágstéttirnar. 7 Vaisyar mættu aðeins hlýða á upplestur úr vedaritum á hátíðardögum. 8 Súdrum væri ekki einungis óheimilt að hlusta á upplestur úr vedabókum heldur væri einnig refsivert að virða þá viðlits. Hlutskipti þeirra væri að þjóna ánauðugir brahmínprestum og jafnvel einnig hinum stéttunum. 9 “Einvörðungu dauðinn getur leyst þá frá þjónustu, hefur Para Brahma sagt. Látið þá afskiptalausa og fylg oss til að vegsama guðina sem myndu bregðast ókvæða ef þér óhlýðnist þeim.”
10 En Issa virti orð þeirra að vettugi og dvaldist meðal súdranna og boðaði gegn brahmínprestum og kshatriyum. 11 Hann fordæmdi hroka þeirra manna sem áskildu sér vald til að skerða mennréttindi meðbræðra sinna. Hann mælti: “Guð faðir gerir engan greinarmun á börnum sínum. Þau eru honum öll jafnkær.”
12 Issa afneitaði guðlegum uppruna vedaritanna og purananna; “vegna þess að lög hafa þegar verið úthlutuð mönnum til að leiðbeina þeim um vegferð sína,” kenndi hann áhangendum sínum. 13 “Óttist Guð yðar, begið kné yðar fyrir houm einum og færið honu einum fórnir af því sem yður áskotnast.”
14 Issa afneitaði kennisetningunni um Trimurti [þríeiningunni] og að Para Brahma hefði líkamnast sem Vishnú, Shíva og aðrir guðir, heldur mælti: 15 “Hinn eilífi dómari, hinn eilífi andi, er ein og ódeilanleg alheimssál sem alein skapar og viðheldur öllu lífi. 16 Hann einn hefur viljað og skapað, hann einn hefur verið til frá ómunatíð og tilvera hans tekur engan enda. Hann á sér engan líka hvorki á himni né á jörðu. 17 Hinn mikli skapari hefur ekki deilt valdi sínu með nokkurri annarri lifandi veru, enn síður með dauðum hlutum, eins og þeir hafa kennt yður; vegna þess að hann aleinn er almáttugur. 18 Hans vilji skapaði heiminn. Með guðdómlegri hugsun safnaði hann saman vötnunum, greindi þau frá þurrlendi jarðarinnar. Hann er grundvöllurinn að leyndardómsfullri tilveru mannsins, í hann hefur hann blásið neista af veru sinni. 19 Og hann hefur gefið manninum vald yfir vötnum, dýrum og öllu sem hann skapaði og sem hann viðheldur með óbreytanlegum lögum þar sem öllu hefur verið markaður sinn tími. 20 Reiði guðs mun senn ljósta manninn vegna þess að hann hefur gleymt skapara sínum, hann hefur fyllt musterin með viðbjóði og hann tilbiður sæg kvikinda sem Guð hefur gert honum undirgefin. 21 Til að heiðra steina og málma fórna þeir mönnum sem neisti anda hins æðsta býr í. 22 Vegna þess að hann niðurlægir þá sem vinna í sveita síns andlits til að öðlast hylli iðjuleysingja sem sitja að svalli. 23 Þeir sem taka guðlega hamingju frá meðbræðrum sínum verða sjálfir sviptir henni. Brahmínprestarnir og kshatriyarnir munu verða súdrur og eilífðin mun ævarandi dvelja með súdrunum – 24 vegna þess að á síðasta dómsdegi mun súdrum og vaisyum fyrirgefast mikið vegna vanþekkingar þeirra, aftur á móti mun reiði Guðs hegna þeim sem hafa eignað sér rétt hans.”
25 Vaisyarnir og súdrarnir voru fullir aðdáunar og spurðu Issa hvernig þeir skyldu biðja til að glata ekki eilífðarsæluvist sinni: 26 “Ákallið ekki átrúnaðargoð því þau geta ekki bænheyrt yður. Ljáið ekki boðskap vedaritanna eyra því að þau eru ekki sannleikanum samkvæm. Verið auðmjúkir og lítillækkið ekki samferðamenn yðar. 27 Hjálpið fátækum, styðjið sjúka, gerið engum illt og ágirnist ekki eigur annarra.”


6. Kafli

1 Hvítu prestarnir og hermennirnir, sem fregnuðu hvað Issa hafði mælt við súdrana, afréðu að taka hann af lífi og sendu þjóna sína til spámannsins unga með þeim ásetningi. 2 En Issa, sem hafði fengið viðvörun frá súdrunum, yfirgaf Juggernaut að næturlagi, komst til fjalla og settist að í landi Gautamida, fæðingarstað Búddhans mikla, Sakyamuni, á meðal lýðs sem tilbað hinn eina og upphafna Brahma. 3 Eftir að hafa fullnumið sig í palímálinu gaf hinn réttvísi Issa sig að því að læra hin helgu sútrarit. 4 Sex árum síðar varð Issa, sem Búddha hafði útvalið til að breiða út sín heilögu orð, fullkominn talsmaður hinna helgu ritninga. 5 Þá yfirgaf hann Nepal og Himalayafjöll, hélt niður Rajputana-dalinn og boðaði ýmsu fólki æðstu fullkomnun mannsins – 6 þ.e. að gera vel við náungann sem er örugg og skjót leið til að sameinast hinum eilífa anda: “Sá sem hefur endurheimt upprunalegan hreinleika,” sagði Issa, “mun hljóta fyrirgefningu synda sinna við andlátið og honum mun veitast réttur til að íhuga dýrð Guðs.”
7 Á leið sinni um lönd heiðingja boðaði hinn guðdómlegi Issa að tilbeiðsla sýnilegra guða væri andstæð náttúrulögunum. 8 “Því að manninum”, sagði hann, “er ekki heimilt að líta ásjónu Guðs og samt hefur hann gert sæg skurðgoða í mynd hins eilífa. 9 Ennfremur, það er ekki mennskri samvisku bjóðandi að gera minna úr mikilleika guðlegs hreinleika en dýra og hluta sem gerðir hafa verið af manna höndum úr steinum og málmum. 10 Hinn eilífi löggjafi er einn; það er enginn annar Guð en hann. Hann hefur ekki skipt heiminum með neinum, né hefur hann upplýst nokkurn um fyrirætlanir sínar. 11 Eins og faðir kemur fram við börn sín mun Guð dæma menn eftir dauðann samkvæmt sínum miskunnsömu lögum. Hnn mundi aldrei niðra barn sitt með því að senda sál þess inn í líkama skepnu í hreinsunarskyni. 12 Hin himnesku lög,” sagði skaparinn fyrir munn Issa," eru andvíg því að færa menn til brennufórnar frammi fyrir dýralíkneski; því að ég hef helgað mönnum öll dýr og allt sem jörðinni viðkemur. 13 Öllu hef [ég] helgað manninum, [hann] tengist mér föðurnum beint og náið; því mun sá sem stolið hefur frá mér barni mínu verða stranglega dæmdur og refsað eftir mínum guðlegu lögum. 14 Maðurinn er ekki neitt frammi fyrir hinum æðsta dómstóli eins og dýr eru ekki neitt fyrir manninum. 15 Þess vegna segi ég við yður, varpið frá yður skurðgoðunum og stundið ekki helgisiði sem skilja yður frá föður yðar, leggið eigi lag við prestana sem himnarnir hafa snúið baki við. 16 Það eru þeir sem hafa leitt yður frá hinum sanna Guði og hjátrú þeirra og grimmd veldur spillingu sálarinnar og siðblindu."


7. Kafli

1 Orð Issa breiddust út á meðal heiðingjanna í löndunum sem hann fór um og íbúarnir yfirgáfu skurðgoð sín. 2 Hann sá hvernig prestunum varð við er hann lofsöng nafn hins sanna Guðs, að hann ávítaði þá frammi fyrir lýðnum og sýndi fram á fánýti skurðgoða þeirr.
3 Og Issa svaraði þeim: “Ef skurðgoð yðar og dýr eru mögnuð og búa í raun yfir yfirnáttúrlulegum krafti þá látið þau ljósta mig til jarðar.”
4 “Gerið þá kraftaverk,” svöruðu prestarnir, “og láttu guð yðar bölva guðum vorum ef þau vekja fyrirlitningu hans.”
5 En Issa mælti þá: “Kraftaverk Guðs vors hafa starfað frá fyrsta sköpunardegi heimsins; þau gerast á hverjum degi og á sérhverju andartaki. Sá sem sér þau ekki fer á mis við sjálfsögðustu lífsgjafir. 7 Jafnvel eins og steinn og sandkorn, eins lítilfjörleg og þau eru í augu mannsins, bíðið þolinmóðir til þeirrar stundar sem hann mun færa sér þau í nyt. 8 Þannig skyldi maðurinn bíða þeirrar hylli sem Guð mun áskilja honum við hinn síðasta dóm. 9 En vei yður, þér óvinir manna, ef yðar bíður umbun í stað reiði guðdómsins – vei yður ef þér búist við kraftaverkum til vitnis um mátt hans. 10 Það munu ekki verða skurðgoðin sem hann tortímir í reiði sinni heldur þeir sem hafa reist þau. Hjörtu þeirra verða brennd upp í eilífum eldi og sundurrifnir líkamar þeirra skulu seðja hungur villidýra. 11 Guð mun reka út hina óhreinu úr flokki sínum, en hann tekur aftur til sín þá sem hafa villir farið vegar vegna þess að þeir fundu ekki hinn andlega neista innra með sér.”
12 Heiðingjarnir höfðu enn meiri trú á orðum Issa þegar þeir sáu hve lítilsmegnugir prestar þeirra voru. Af ótta við reiði guðdómsins mölbrutu þeir skurðgoð sín. Hvað prestana varðaði flúðu þeir undan hefnd fjöldans. 13 Issa kenndi heiðingjum ennfremur að sækjast ekki eftir því að sjá með opnum augum hinn ósýnilega anda, heldur að leitast við að finna hann í hjarta sér og að gera sig verðuga hylli hans með hreinleika sálarinnar.
14 “Þá mælti hann við þá: ”Haldið yður frá mannfórnum og látið engin dýr verða eldfórnum að bráð sem lífi hafa verið gædd, því að allt sem hrærist hefur verið skapað manninum til ávinnings. 15 Stelið eigi eigum náunga yðar því að það rænir hann því sem hann hefur áunnið sér í sveita síns andlits. 16 Svíkið engan svo að þér munið sjálfir eigi verða sviknir. Leitið réttlætingar fyrir hinn síðasta dóm áður en það verður um seinan. 17 Gefið yður eigi að ólifnaði því að það væri að brjóta guðslög. 18 Sækist eftir eilífri sælu með því að hreinsa ekki einungis sjálfa yður, heldur leiðbeinið einnig öðrum svo að þeim leyfist að öðlast upphaflega fullkomnun."


8. Kafli

1 Nágrannalöndin endurómuðu af spámælum Issa og þegar hann kom til Persíu urðu prestarnir felmtri slegnir og bönnuðu íbúunum að hlusta á hann. 2 Er þeir sáu að allir þorpsbúarnir buðu hann velkominn með fögnuði og hlustuðu lotningarfullir á ræður hans skipuðu þeir fyrir handtöku hans og létu færa hann fram fyrir æðstaprestinn þar sem hann var látinn ganga undir eftirfarandi yfirheyrslu:
3 “Um hvaða nýja guð talið þér um? Er yður það ekki ljóst, vesæli maður, að dýrlingurinn Zoroaster er sá eini rétti sem leyfist hefur að hafa samneyti við hina æðstu verund? 4 Hver bauð englunum að færa í letur orð guðs til nota fyrir fólk hans, lög sem Zoroastri voru gefin í Paradís? 5 Hver eruð þér sem dirfist að lasta hér guði vora og sá efasemdum í hjarta trúaðra?”
6 Issa mælti til þeirra: “Ég tala ekki um nýjan guð heldur um himneskan föður vor sem hefur verið til frá ómunatíð og sem enn mun ríkja eftir endalok alls. 7 Um hann hef ég rætt við lýðinn sem, eins og saklaus börn, eru enn þess ekki umkomin að skilja Guð með einföldum vitsmunum eða sökkva sér niður í guðdómlegan og andlegan yfirskilvitleika hans. 8 En eins og ungbarn sem finnur móðurbrjóstið í myrkrinu svo að jafnvel lýðurinn, sem villukenningar og helgihald yðar hefur leitt á villigötur, hefur með eðlisávísun þekkt föður sinn í föðurnum sem ég er spámaður fyrir. 9 Eilífðarveran hefur mælt við fólk þitt með mínum munni: ‘Þer skuluð ekki tilbiðja sólina því að hún er einungis hluti af þessum heimi sem ég hef skapað fyrir manninn. 10 Sólin rís til að orna yður við vinnuna; hún sest til að leyfa yður að hvílast sem ég sjálfur hef tilskipað. Það er mér einum, og mér einum, sem þér eigið allt inni hjá, allt sem fyrirfinnst í kringum yður, ofar yður og neðan yðar’”
12 “En,” sögðu prestarnir, “hvernig gæti fólk lifað samkvæmt reglum yðar ef það hefur enga kennimenn?”
13 Þá svaraði Issa á þessa leið: “Þegar lýðurinn hafði enga presta stjórnuðu náttúrulögmálin henni og það varðveitti hreinleika sálarinnar. 14 Sálir fólksins voru með Guði og til að hafa samneyti við föðurinn þurfti það ekki að leita á náðir líkneskja, dýra eða elda eins og hér er ástundað. 15 Þér staðhæfið að það verði að tilbiðja sólina, anda góðs og ills. Jæja, sannlega segi ég yður, kennisetning yðar er röng, sólin bærist ekki af sjálfu sér heldur samkvæmt vilja hins ósýnilega skapara sem skóp hana – 16 og sem hefur viljað að stjarnan skyldi lýsa deginum, verma störf og sáðtíma mannanna. 17 Hinn eilífi andi er sál alls sem hrærist, og þér farið villir vegar ef þér skiptið honum í anda ills og anda góðs, því að enginn er Guð utan góðleikans. 18 Hann, líkt og fjölskyldufaðir sem einungis gerir börnum sínum gott, fyrirgefur þeim öll mistök ef þau aðeins gangast við þeim. 19 Andi ills dvelur á jörðu í hjörtu manna sem afvegaleiða börn Guðs af réttri leið. 20 Sannlega segi ég yður, gætið yðar á dómsdegi, þvi að Guð mun hegna þeim harðlega sem leiða börn hans af réttri braut og hafa fyllt þau hjátrú og fordómum. 21 Þeir sem hafa blindað þá sem sjá, kveikt sóttir í heilbrigðum og kennt tilbeiðslu á fyrirbærum sem Guð hefur gert mönnum undirgefin honum til góðs og til að létta honum starf sitt. 22 Kennisetning er þá ávöxtur villu yðar; því í stað þráar eftir Guði sannleikans hafið þér skapað falska guði fyrir sjálfa yður.”
23 Eftir að hafa hlýtt á hann, ákváðu töframennirnir að gera honum ekkert mein. En að næturlagi, þegar öll borgin lá sofandi, leiddu þeir hann út fyrir múrana og yfirgáfu hann á aðalveginum, í þeirri von að hann yrði senn villidýrum að bráð. 24 En dýrlingurinn Issa hélt undir Drottins vernd áfram för sinni óskaddaður.


9. Kafli

1 Issa, sem skaparinn hafði valið til að minna bágstatt mannkyn á hinn sanna Guð, hafði náð 29 ára aldri þegar hann sneri aftur til Ísraels. 2 Eftir brottför hans höfðu heiðingjarnir lagt enn þá grimmilegri þjáningar á Ísraela sem gáfu sig sárustu örvæntingu á vald. 3 Margir meðal þeirra voru þegar farnir að snúa baki við lögum Guðs og Mossa í von um að sefa hina siðlausu sigurvegara sína. 4 Þegar Issa stóð frammi fyrir þessum illráðum, hvatti hann samlanda sína til að örvænta eigi vegna þess að dagur endurlausnar frá syndum væri í vændum og hann staðfesti þá í trúnni á Guði föður sínum.
5 “Börn, látið ekki undan í örvæntingu,” sagði hinn himneski faðir fyrir munn Issa, “því að ég hef heyrt raddir yðar og kveinstafir yðar hafa náð til mín. 6 Grátið ekki, mínir ástkæru! Sorg yðar hefur snert hjarta föður yðar og hann hefir fyrirgefið yður, eins og hann fyrirgaf forfeðrum yðar. 7 Yfirgefið eigi fjölskyldur yðar til að fleygja yður í siðspillingu, gleymið eigi háleitum tilfinningum yðar og dýrkið ekki skurðgoð sem skella skollaeyrum við raustum yðar. 8 Fyllið musteri mitt vonum yðar og þolgæði og sverjið eigi meinsæri gegn trú feðra yðar; því að ég einn hef leitt þá og veitt þeim ríkulega. 9 Þér skuluð reisa þá við sem fallið hafa, þér skuluð fæða þá sem hungrar og þér skuluð koma þeim til hjálpar sem sjúkir eru, til að verða hreinir og sannir þegar síðasti dómsdagur rennur upp sem ég hef búið fyrir yður.”
10 Ísraelar þyrptust að til að heyra orð Issa og spurðu hann hvar þeir skyldu lofa sinn himneska föður þar sem fjandmennirnir höfðu jafnað musterin þeirra við jörðu og lagt niður hina heilögu kaleika þeirra. 11 Issa sagði þeim að Guð stæði á sama um musteri reist af mönnum. Hann taldi hjarta mannsins vera hið sanna musteri Guðs.
12 “Hverfið inn í musteri yðar, inn í hjarta yðar. Lýsið það upp með góðum hugsunum, biðlund og óbifanlegu trúartrausti sem faðir yðar verðskuldar. 13 Hinir heilögu kaleikar eru hendur yðar og augu. Verið Guði þóknanleg. Góðverk í þágu náungans eru helgisiðir sem skreyta musteri skaparans sem Guð dvelur í, sá sem gæddi yður lífi. 14 Því Guð hefur skapað yður í sinni eigin mynd – saklausa með hreina sál og hjarta, gagntekið kærleika sem eigi hentar illum ráðagerðum heldur sem helgistaður kærleika og réttlætis. 15 Því sannlega segi ég yður; flekkið eigi hjarta yðar, því að hin eilífa æðsta vera dvelst þar ævarandi. 16 Ef þér viljið vinna verk af frómleik og kærleika gerið það með opnu hjarta og látið eigi stýrast af ábatavon – 17 því slíkar gjörðir myndu eigi verða til hjálpræðis við aflausn yðar og þér mynduð falla í siðferðislega niðurlægingu þar sem þjófnaður, lygmæli og morð yrðu álitin rausnarskapur.”


10. Kafli

1 Dýrlingurinn Issa fór frá einni borg til annarrar og hughreysti Ísraela, fyrir styrk Guðs orðs, sem voru að niðurlotum komnir af örvæntingu; og þúsundir manna fylgdu honum til að heyra boðskap hans. 2 En höfðingjar borgarinnar óttuðust hann og tilkynntu landstjóranum sem dvaldi í Jerúsalem að maður að nafni Issa hefði komið til landsins; að hann væri að æsa upp lýðinn gegn yfirvöldunum; að fjöldinn hlustaði grannt á hann, vanrækti störf sín fyrir ríkið og staðhæfði að innan tíðar myndi það losna við kúgandi landstjóra sinn. 3 Þá skipaði Pílatus, landstjóri í Jerúsalem, að þeir skyldu grípa kennimanninn Issa, þeir skyldu færa hann til borgarinnar og leiða hann fram fyrir dómarana. En til að æsa ekki upp reiði lýðsins fól hann prestunum og lærðu öldungunum að dæma hann í musterinu. 4 Á meðan þessu stóð hélt Issa áfram boðunarstarfi sínu á leið til Jerúsalem; og er íbúarnir, sem þekktu þegar til orðstírs hans, fregnuðu komu hans, fóru þeir út til að taka á móti honum. 5 Þeir heilsuðu honum lotningarfullt og luku upp hliðunum að musterum sínum til að heyra af munni hans hvað hann hafði sagt í hinum borgum Ísraels.
6 Og Issa mælti við þá: “Mannkynið ferst sökum trúarskorts, vegna þess að myrkrið og fárviðrið hefir dreift hjörðinni og hún týnt fjárhirðinum. 7 En fárviðrið mun ekki vara að eilífu og myrkrið mun ekki ávallt skyggja á ljósið. Himinninn verður aftur heiður, hið himneska ljós mun breiðast um jörðina og villuráfandi hjörðin mun safnast saman um fjárhirðann. 8 Reynið ekki að finna beinan veg í myrkrinu, þá fallið þér í hyldýpið; en safnist saman því sem þér eigið eftir af kröftum, styðjið hvern annan, felið yður í trúnaði til Guðs yðar og bíðið þar til ljósið birtist. 9 Sá sem sér fyrir meðbróður, sér fyrir sjálfum sér; og hver sá sem verndar fjölskyldu sína, verndar fólkið og ríkið. 10 Sannið til að dagurinn er í nánd að þér munuð frelsast frá myrkrinu; þér munuð safnast saman sem ein fjölskylda; og óvinur yðar, sem lokar augunum fyrir hylli Guðs, mun skjálfa af ótta.”
11 Prestarnir og öldungarnir sem hlustuðu á hann, fullir aðdáunar á ræðu hans, spurðu hann hvort það væri rétt að hann hefði reynt að æsa lýðinn upp gegn yfirvöldum landsins eins og skýrt hefði verið fyrir landshöfðingjanum Pílatusi.
12 “Getur nokkur risið upp gegn villuráfandi mönnum sem finna hvorki veginn né útgönguleiðina vegna formyrkvunar,” svaraði Issa. “Ég hef varað ógæfumennina við, eins og ég geri í þessu musteri, að þeir munu eigi ganga glötunarbrautina til enda því að hyldýpi er framundan. 13 Vald þessa heims er eigi varanlegt og það er ótal breytingum undirorpið. Hvað þýddi fyrir manninn að rísa upp gegn því, vegna þess að eitt vald tekur við af öðru? Þannig mun það verða þar til mannlegt líf líður undir lok. 14 Á móti hverjum? Sjáið þér eigi að hinir voldugu og ríku sá á meðal sona Ísraels uppreisnaranda gegn eilífum mætti himnanna”?
15 Öldungarnir spurðu þá: “Hver eruð þér og frá hvaða landi komið þér? Vér höfum ekki heyrt yðar getið fyrr og vér vitum ekki einu sinni hvað þér heitið?” 16 “Ég er Ísraeli”, svaraði Issa. “Frá því að ég leit fyrst dagsins ljós sá ég múra Jerúsalemborgar og ég heyrði gráthljóð bræðra minna sem hnepptir höfðu verið í ánauð og kveinstafi systra minna sem heiðingjarnir numdu á brott. 17 Og sál mín varð þrungin sorg þegar ég sá að bræður mínir höfðu gleymt hinum sanna Guði. Sem barn yfirgaf ég föðurhúsin og fór út til að dvelja á meðal annars fólks – 18 en eftir að hafa heyrt að bræður mínir liðu enn þá þyngri raunir hef ég snúið aftur til heimalands foreldra minna til að minna bræður mína á trú forfeðra þeirra sem kennir oss þolinmæði á jörðu, til að öðlast fullkomna og upphafna sælu á himninum.” 19 Hinir lærðu öldungar lögðu fyrir hann eftirfarandi spurningu: Það er sagt að þér afneitið lögmáli Mossa og að þér kennið lýðnum að yfirgefa musteri Guðs?“
20 Issa svaraði: ”Það er ekki hægt að brjóta það sem himneskur faðir vor hefur gefið oss né það sem syndarar hafa eyðilagt; en ég hef mælt með hreinsun hjartans frá öllu illu því að það er hið sanna musteri Guðs. 21 “Hvað lögum Mossa viðkemur hef ég leitast við að festa þau í hjarta manna. Sannlega segí ég yður að þér skiljið ekki rétta þýðingu þeirra því að ekki er það hefnd heldur náð sem þau kenna; aðeins skilningur þessara laga hefur verið rangfærður.”


11. Kafli

1 Eftir að hafa hlýtt á Issa ákváðu prestarnir og öldungarnir vísu að dæma hann eigi vegna þess að hann olli engum mein. Þeir kynntu komu sína fyrir Pílatusi, landstjóra Jerúsalem, sem hinn heiðni konungur í landi Rómúla hafði sett í embætti, og ávörpuðu hann á þessa leið: 2 “Vér höfum virt manninn sem þér ásakið fyrir að æsa fólk vort til uppþota; vér höfum hlýtt á mál hans og vér þekkjum að hann er samlandi vor.” 3 En höfðingjar borgarinnar hafa borið fyrir yður rangt mál, því að þetta er réttvís maður sem kennir lýðnum Guðs orð. Eftir að hafa yfirheyrt hann leyfðum vér honum að fara í friði.“ 4 Landstjórinn varð ókvæða við, dulbjó þjóna sína og lét þá halda sér í námunda við Issa svo að þeir gætu fylgst með öllu sem hann aðhafðist og skýrt yfirvöldum hvert orð sem hann segði við lýðinn. 5 Meðan á þessu fór fram hélt dýrlingurinn Issa áfram að vitja nærliggjandi borga og boðaði hinn sanna veg skaparans, brýndi fyrir Hebreunum að sýna biðlund og lofaði þeim skjóta aflausn. 6 Allan tímann fylgdi margt fólk honum eftir hvert sem hann fór, nokkrir fóru aldrei frá honum heldur gerðust þjónar hans.
7 Issa mælti: ”Trúið eigi á undur sem menn hafa hrist fram úr erminni, því að sá sem ræður yfir náttúrunni er einn fær um að gera það sem yfirnáttúrulegt er. En maðurinn er aftur á móti vanmegnugur að hemja reiði vindanna eða að dreifa regninu. 8 Samt sem áður, eitt afrek er maðurinn fær um að afreka. Það er þegar maðurinn, fullur einlægrar trúar, ákveður að rífa allar illar hugsanir úr hjarta sínu og yfirgefa veg ranglætisins til að ná marki sínu. 9 Og allt sem gert er án Guðs eru ekki annað en tál og hillingar sem einungis sýnir hversu blygðunarlaus, fölsk og óhrein sál þess er sem hefur þessar gjörðir í frammi. 10 Berið eigi traust til véfrétta; aðeins Guð þekkir framtíðina; sá sem leitar til spásagnaanda vanhelgar musterið sem er í hjarta hans, lætur í ljós vantrausti á skapara sínum. 11 Trú á spásegjendum og véfréttum þeirra eyðileggur meðfæddan einfaldleika mannsins og barnslegan hreinleika hans. Djöfullegt vald nær tökum á manninum sem þvingar hann til að hafa í frammi hvers konar misgjörðir og að tilbiðja skurðgoð; 12 Hins vegar er Drottinn Guð vor, sem á sér engan líka, almáttugur, alvitur og alnálægur. Það er hann sem býr yfir allri visku og öllu ljósi. 13 Það er til hans sem þér verðið að snúa yður til huggunar í sorg yðar, fá hjálp við störf yðar og að lækna mein yðar. Hver sá sem snýr sér til hans mun eigi hafnað verða. 14 Leyndardómur náttúrunnar er í hendi Guðs. Því að heimurinn, áður en hann birtist, var til í dýpi hinnar guðdómlegu hugsunar; hún varð efnisklædd og sýnileg með vilja hins æðsta. 15 Þegar þér snúið yður til hans verðið þá aftur sem börn; því að þér vitið hvorki hið liðna, líðandi stund né framtíðina, og Guð ríkir yfir öllum tímum."


12. Kafli

1 Njósnari landstjóra Jerúsalemborgar ávrpaði hann: “Réttsýni maður, segðið þér oss hvort að vér eigum að láta að vilja keisarans eða leita skjótrar aflausnar.”! 2 Issa, sem vissi að þeir hefðu verið settir til höfuðs honum, svaraði: Ég hef ekki sagt við yður að þér yrðuð frelsaðir frá keisaranum. Það er sálin sem hefur steypt sér í glapræði er mun fá aflausn. 3 Eins og engin fjölskylda getur verið án höfuðs þannig getur enginn haft reglur án keisarans; honum skal fortakslaus hlýðni auðsýnd vera, hann einn er ábyrgur gjörða sinna fyrir hinum æðsta dómstóli“ 4 ”Hefur keisarinn til að bera guðleg réttindi?“, ennfremur spurðu njósnarnir hann, ”og er hann fremstur meðal dauðlegra manna?“ 5 ”Enginn skal öðrum mönnum æðri vera, en til eru harmkvælamenn sem til þess völdum umboðsmönnum hefur verið falið að annast – þeir skyldu nota vald sem heilög lög vors himneska föður hefur veitt þeim. 6 Miskunnsemi og réttlæti eru æðsta eigind keisarans; nafn hans mun vera rómað ef hann fylgir þeim. 7 En sá sem kemur öðru vísi fram, sem fer út fyrir valdasviðið sem hann hefur yfir undirsátum sínum, sem gengur svo langt að stofna lífi þeirra í háska, misbýður hinum mikla dómara og glatar virðingu sinni í augum manna.“
8 Á þessari stundu hafði gömul kona fært sig í áttina að hópnum til að heyra betur til Issa. Einn njósnaranna hrinti henni til hliðar og stillti sér fyrir framan hana. 9 Þá mælti Issa: ”Það er eigi sæmandi fyrir son að hrinda móður sinni úr vegi og taka hennar stöðu. Hver sá sem vanvirðir móður sína, þá veru sem stendur næst Guði að heilagleika, er óverðugur að heita sonur. 10 Hlýðið á mig: Virðið konuna því að hún er móðir alheimsins og allur sannleikur hins guðdómlega sköpunarverks er falinn í henni. 11 Hún er undirstaða alls sem gott er og fagurt auk þess sem hún er vaxtarsproti lífs og dauða. Maðurinn byggir alla tilveru sína á konunni því að hún veitir honum eðlislægan og siðferðislegan stuðning. 12 Með þjáningu fæðir hún yður. Í sveita síns andlits elur hún yður upp. Þér valdið henni sárum áhyggjum allt fram í andlátið. Dásamið og blessið hana því hún er vinur í raun, eina stoð yðar hér á jörðu. 13 Virðið hana og verndið. Þannig vinnið þér hug hennar og hjarta. Náð Guðs mun einnig verða með yður og hennar vegna munu margar syndir verða yður fyrirgefnar. 14 Á sama hátt elskið og virðið eiginkonur yðar, því þær munu verða mæður framtíðarinnar og síðar formæður heilla kynþátta. 15 Verið ljúfir við konur. Ást þeirra göfgar manninn, mýkir harðnað hjarta hans, temur villidýrið í honum og gerir hann ljúfan sem lamb. 16 Eiginkonur og mæður eru ómetanlegar gersemar sem Guð hefur gefið yður. Þær eru fegurstu skreytingar tilverunnar, og þær hafa borið alla íbúa jarðarinnar. 17 Á sama hátt og Drottinn allsherjar greindi ljósið frá myrkrinu og þurrlendi frá vatni býr konan yfir þeirri náðargáfu að geta aðgreint góðan ásetning frá illum hugsunum mannsins. 18 Sannlega segi ég því yður að næst á eftir Guði á móðirin og eiginkonan bestu hugaróskir skildar vegna þess að þæe eru fyrir yður musterið þar sem yður veitist auðveldast fullkomin hamingja. 19 Teygið siðferðismátt úr þessu musteri. Þar munuð þér gleyma raunum yðar og brestum og endurvekja þann mátt sem nauðsynlegur er til að liðsinna öðrum mannverum. 20 Eigi lítillækka hana því að þá lítillækkið þér sjálfa yður og missið kærleiksneistann sem allt á jörðu byggir á. 21 Haldið hlífiskildi yfir eiginkonu yðar svo að hún geti verndað yður og heimili yðar. Allt sem þér gerið fyrir eiginkonu yðar, móður, ekkju eða fyrir hverja raunamædda konu hafið þér gert fyrir Guð."


13. Kafli

1 Dýrlingurinn Issa kenndi Ísraelsþjóð á þessa leið í þrjú ár, í hverri borg, í hverju þorpi, á vegarköntunum og á sléttunum; og allt sem hann sagði fyrir um gerðist. 2 Allan þennan tíma fylgdust hinir dulbúnu þjónar Pílatusar náið með honum án þess að heyra neitt í líkingu við frásagnirnar sem höfðingjar borgarinnar höfðu borið gegn Issa á fyrri árum. 3 En Pílatus landshöfðingi var farinn að skelfast hinar miklu vinsældir dýrlingsins Issa sem, samkvæmt andstæðingum Issa, leitaðist við að espa lýðinn til að lýsa yfir að hann væri konungur. Hann fól því einum njósnurum sínum að ásaka hann.
4 Hermönnunum var þá skipað að gangast fyrir handtöku hans, og þeir fangelsuðu hann í neðanjarðarklefa þar sem þeir pyntuðu hann á ýmsa vegu í von um að þvinga hann til játningar sem myndi gefa tilefni til að lífláta hann. 5 Dýrlingurinn, sem hafði aðeins bestu velferð meðbræðra sinna í huga, þoldi allar áraunirnar í nafni skapara síns. 6 Þjónar Pílatusar héldu áfram að pynta hann þar til hann var að niðurlotum kominn; en Guð var með honum og hélt honum á lífi.
7 Þegar æðstu prestarnir og öldungarnir fregnuðu þjáningarnar og píslirnar sem hann mátti þola fóru þeir á fund landstjórans og báðu um að hann yrði settur laus í tilefni komandi hátíðarhalda. 8 En landshöfðinginn kvað þvert nei við þessu. Þeir báðu hann þá um að leyfa Issa að koma fram fyrir dómstól öldungaráðsins svo að hann gæti orðið sakfelldur eða sýknaður fyrir hátíðarhöldin og gekkst Pílatus við því.
9 Daginn eftir lét landstjórinn kalla saman stórhöfðingjana, prestana, öldungana vísu og lögmenn til að þeir mættu dæma Issa. 10 Þeir sóttu hann úr fangelsinu og settu hann fyrir framan landstjórann á milli tveggja ræningja sem átti að dæma samtímis, til þess að sýna fjöldanum að hann væri ekki sá eini sem skyldi verða sakfelldur. 11 Pílatus ávarpaði Issa og mælt við hann: “Maður, er það rétt að þér æsið lýðinn upp gegn yfirvöldunum með þeim ásetningi að þér verðið sjálfur konungur Ísraels”. 12 “Enginn verður konungur að eigin vilja,” svaraði Issa, “og þeir hafa logið sem hafa sagt yður að ég egni lýðinn til uppreisnar. Ég hef aldrei talað um annan en konung himnanna og ég kenni lýðurinn að tilbiðja hann – 13 því að Ísraelssynir hafa glatað upprunalegum hreinleika sínum; og ef þeir geta ekki leitað til hins sanna Guðs mun þeim verða fargað og musteri þeirra lögð í rúst. 14 Þar sem tímabundið yfirvald viðheldur reglu í landi, kenni ég þeim samkvæmt því að gleyma því eigi. Ég mæli við þá: ‘Gegnið stöðu yðar og hlutskipti af trúnaði til að raska ekki almennri ró.’ Ég hef brýnt fyrir þeim að gleyma því eigi að óreiða ríkir einnig í hjarta þeirra og hug. 15 Þess vegna hefur konungur himnanna refsað þeim og undirokað þjóðkonunga þeirra. Samt sem áður hef ég mælt við þá; ‘ef þér hlítið örlögunum un konungdæmi himnanna standa himnarnir opnir fyrir yður.’”
16 Á þeirri stundu voru vitni leidd fram, eitt þeirra sór eftirfarandi eið: “Þér hafið sagt við lýðinn að tímabundið yfirvald sé ekkert saman borið við konunginn sem mun senn leysa Ísraela undan byrðum heiðingjanna.” 17 “Blessaður séuð þér,” sagði Issa, “fyrir að hafa sagt sannleikann. Konungur himnanna er meiri og voldugri en jarðnesk lög og konungsríki hans ber af öllum konungsríkjum á jörðu. 18 Og tíminn er ekki fjarri því að Ísraelsþjóð hreinsi sig af syndum sínum, hlýði þeir hinum guðdómlega vilja; vegna þess að mælt hefur verið að boðberi muni koma til að lýsa yfir frelsun fólksins og safna því saman í eina hjörð.”
19 Landstjórinn sem ávarpaði dómarana og sagði: “Heyrið þér? Ísraelinn Issa játar á sig glæpinn sem hann er sakaður um. Dæmið hann því samkvæmt lögum yðar og kveðið upp dauðarefsingu yfir honum.” 20 “Vér getum eigi sakfellt hann,” svöruðu prestarnir og öldungarnir. “Þér hafið einmitt sjálfur heyrt að hann vísar til konungs himnanna og að hann hefur ekki boðað sonum Ísraela neitt sem gæti verið lögbrot.”
21 Landstjórinn Pílatus sendi þá eftir vitni sem, að hans undirlagi, hafði svikið Issa. Maðurinn kom og ávarpaði Issa á þesa leið: “Létuð þér ekki eins og þér væruð konungur Ísraela þegar þér sögðuð að sá sem ríkti á himnum hefði sent yður til að undirbúa fólk hans?” 22 Issa sagði eftir að hafa blessað hann: “Yður mun verða fyrirgefið því að það sem þér segið kemur ekki frá yður!” Því næst ávarpaði hann landstjórann: “Hví auðmýkið þér virðuleika yðar og hví kennið þér undirsátum yðar svikult líferni, þar sem þér hafið vald til að sakfella saklausa án þess að grípa til þess. 23 Við þessi orð varð landstjórinn ævareiður, skipaði fyrir að dauðadómur skyldi lagður á Issa og að ræningjarnir tveir yrðu náðaðir. 24 Eftir að dómararnir höfðu tekið saman ráð sín mæltu þeir við Pílatus: ”Vér viljum ekki taka á oss þá stórsynd að sakfella saklausan mann og náða ræningja. Það væri brot á lögunum.“ 25 ”Gerið þá eins og yður þóknast.“ Að svo mæltu fóru prestarnir og öldungarnir vísu út og þvoðu hendur sínar í heilögum kaleik og mæltu: ”Vér erum saklausir að dauða þessa réttvísa manns."


14. Kafli

1 Samkvæmt skipun landstjórans gripu hermennirnir Issa og ræningjana tvo, leiddu þá til aftökustaðarins og negldu þá á krossa sem höfðu verið reistir. 2 Allan daginn hékk Issa og ræningjarnir tveir á krossinum, hræðilegir á að líta, í gæslu hermannanna; fólkið stóð allt í kring, skyldulið píslavottanna grét og veinaði. 3 Við sólarlag tóku þjáningar Issa enda. Hann missti meðvitund og sál þessa réttvísa manns yfirgaf líkamann og hvarf inn í guðdómleikann. Þannig lauk jarðneskri tilveru endurljómunar hins eilífa anda í líki manns sem hafði bjargað forhertum syndurum og liðið miklar þjáningar. 5 Um þetta leyti óttaðist Píatus afleiðingar gjörða sinna og gaf foreldrum dýrlingsins líkama hans sem jörðuðu hann nær aftökustaðnum. Fjöldinn kom til að biðja nálægt grafhýsi hans og loftið var þrungið harmatölum og kveinstöfum. 6 Þremur dögum síðar sendi landstjórinn hermenn til að bera á brott líkama Issa og grafa hann annars staðar vegna ótta við uppreisn lýðsins. Daginn eftir fann fjöldinn grafhvelfinguna opna og tóma. Undir eins spratt upp orðrómur um að hinn æðsti dómari hefði sent engla sína til að bera burt jarðneskar leifar dýrlingsins sem neisti hin guðdómlega anda dvaldi í hér á jörðu. 8 Þegar vitneskjan um þennan orðróm barst til Pílatusar reiddist hann og bannaði öllum, að viðlögðum þrældómi eða lífláti, að bera fram nafn Issa eða biðja til Drottins fyrir hann. 9 En lýðurinn grét ennþá og lofaði upphátt meistara sinn; þess vegna voru margir fangelsaðir, pyntaðir og liflátnir. 10 Lærisveinar dýrlingsins Issa yfirgáfu Ísraelsland og dreifðu sér á meðal heiðingjanna. Lærisveinarnir boðuðu að heiðingjarnir skyldu hverfa frá villu síns vegar, huga að frelsun sálarinnar og að hinni fullkomnu alsælu sem biði mannsins í óefniskenndum heimi ljóss, þar sem hinn mikli skapari dvelur í öllu sínu veldi í friðsæld og hreinleika. 11 Heiðingjarnir, konungar þeirra og hermenn hlýddu á trúboðana, létu af fráleitri trú sinni og yfirgáfu prestana og afræktu skurðgoð sín til að fagna með lofgjörðum hinum alvitra skapara alheims, konungi konunganna, sem hefur hjarta þrungið takmarkalausri náð.