1. Tæplega viku eftir andlát hans dreymir mig að ég ligg uppi í rúmi mínu og sný höfðinu upp að veggnum. Ég heyri einhvern koma inn og ganga upp að höfðagaflinum. Þá var hann kominn þarna, alveg ljóslifandi. Hann krýpur niður hjá mér, tekur um höfuð mitt og kyssir mig. Horfir síðan fast í augu mín og segist elska mig og muni alltaf gera. Því næst stendur hann upp og fer.
2. Ég hafði verið að kenna sjálfri mér mikið um dauða hans. Spurt mig meðal annars að þeim spurningum, ef við hefðum nú ekki rifist þá hefði hann ekki flust aftur norður og við værum ennþá saman og hann á lífi. Ég veit vel að það er ekki hægt að segja svona, en óhjákvæmilega gerir maður það. Síðan dreymir mig að ég er stödd í heimabæ okkar fyrir norðan og fæ þær fréttir að hann sé látinn. Síðan allt í einu sé ég hann keyra fram hjá mér á bílnum sínum. Hann er samt ekki sjálfur að keyra heldur vinur hans(þeir vinir hans sem lentu í slysinu með honum eru í bílnum)Ég verð fyrst mjög fegin yfir því að hann skuli vera á lífi en því næst sár yfir því að þeir skyldu ekki hafa tekið eftir mér standa þarna og bara keyrt í burtu. Ég reyni að hlaupa á eftir þeim en auðvitað ber það engan árangur. Síðan stuttu seinna sé ég nokkra fullorðna menn koma hlaupandi og þeir segja við mig að strákarnir hafi keyrt fram af bryggjunni en allir hafi bjargast nema kærastinn minn(það sama og kom fyrir í alvörunni, allir björguðust nema hann, en í þessu tilviki er ekki um bílslys að ræða heldur bruna). Þá sækja að mér hugsanir á borð við ¨Ef ég hefði vitað það sem ég veit núna þá hefði ég kannski getað bjargað honum. Og þá er það eins og við manninn mælt, ég stend aftur í sömu sporum, bíllinn keyrir fram hjá mér, ég reyni að ná þeim en veit þá strax hvað eigi eftir að gerast. Ég næ tali af vini mínum sem er á bíl og við höldum af stað til að reyna að bjarga því sem bjargað verður. Ég reyni auðvitað fyrst að nota símann minn til að hringja eftir hjálp, en hann virkar ekki. Svo erum við komin mjög nálægt bryggjunni og ég sé bílinn sem þeir eru á keyra beint fram af bryggjunni á fullri ferð. Þegar við komum svo alveg að bryggjubrúninni stekk ég án umhugsunar út í sjóinn og kafa niður að bílnum. Ég hugsa ekkert um hina strákana því að ég veit að þá á ekki eftir að saka, en flýti mér að draga kærastann minn út úr bílnum. Á einhvern óskiljanlegan hátt næ ég að draga hann upp á yfirborðið og upp á fast land. Þegar hann liggur þarna fyrir framan mig er mjög svo af honum dregið. Ég segi við hann að þetta sé allt í lagi, ég hafi verið nógu fljót að bjarga honum í þetta sinn. Þá horfir hann á mig, brosir og segir, ¨En þú veist að þú gast ekki bjargað mér¨ Og svo deyr hann.
3. Svo dreymir mig að ég vakna við það að það liggur einhver uppi í rúminu við hliðina á mér og er að tala. Ég verð fyrst frekar hrædd því að ég bjóst náttúrulega ekki við þessu, en safna kjarki og lít við. Þá liggur hann þarna við hlið mér. Mér fannst mjög skrýtið að húðin hans var öll rosalega asnaleg og skemmd. Hann var grár og fölur og hárið hans og augnbrýr voru sömuleiðis skjannahvít. Svo kyssir hann mig og ég finn að það er ekki allt eins og það á að vera. Líkami hans er ekki alveg heilsteyptur, ef þið skiljið hvað ég á við(vill helst ekki skrifa það orðrétt, þið verðið bara að lesa á milli línanna)Ég spyr hann afhverju svo sé og hann svarar mér því að líkaminn sé einungis hulstur og til þess að hann geti komið til mín í draumi þurfi hann að nota þetta hulstur, sem nú sé skemmt. Ég reyni að láta það ekkert á mig fá og hugsa að það sé nú mest um vert að geta fengið að sjá hann aftur. Svo bið ég hann um að halda utan um mig, eins og hann gerði alltaf áður en við sofnuðum, og hann gerir það. Svo sofna ég í draumnum og vakna síðan um morguninn.
4. Nokkrum dögum eftir þennan draum kemur hann aftur til mín, og alltaf er hann eins. Húðin skemmd og hár hans og augnbrýr jafn hvít og á öldungi. Hann segir við mig að þetta sé í seinasta skipti sem hann geti komið til mín í draumi. Nú þurfi hann að fara að gera það sem honum var ætlað að gera eftir dauðann, losa sig fullkomlega frá þessu jarðneska lífi. Ég græt og bið hann að fara ekki því að þetta sé það eina sem ég hafi núna eftir andlát hans, draumarnir þar að segja. En hann segir að þó að hann vilji ekki fara þá þurfi hann þess. Ég spyr hann hvort að ég muni einhverntíman hitta hann aftur, en þá segir hann að það sé ekki alveg víst. Maður geti ekki pantað eða ráðið því sem gerist og þá sem maður hittir eftir dauðann. En jafnframt segir hann að ég skuli engu kvíða, hann muni verða hjá mér ávallt á einn eða annan hátt. Bara ekki í draumum mínum, því að ég geti líka ekki haldið áfram að lifa mínu lífi ef hann væri sífellt að koma til mín í draumum og halda mér hjá sér.
Nú eru liðnar u.þ.b. þrjár vikur frá þessum seinasta draumi og hann hefur ekki komið til mín síðan.
Skrýtið ekki satt? Ætti ég að fara til miðils? Ef að einhverjir hérna kunna að ráða í drauma þá mæti ég mikils ef þið gætuð eitthvað krukkað í mína..
En þar sem ég hef oft séð fólk vera með einhver skítköst hérna á huga, jafnvel þegar viðkemur svona viðkvæmum hlutum, þá vil ég biðja þá sem ekki geta komið með vinsamleg og málefnaleg svör að halda þeim fyrir sjálfan sig, ég met það mikils :)
Kveðja, L.E.
Þeir sem guðirnir elska deyja ungir…