Fyrir nokkuð mörgum árum síðan þá var ég afskaplega berdreymin og leið oft og tíðum fyrir, það svo mikið að ég gerði allt sem í mínu valdi stóð til þess að loka á draumana. Nú það tókst ágætlega en samt sakna ég þessa stundum og þá gerist það að mig byrjar aftur að dreyma fyrir óorðnum hlutum. En þar sem yfirleitt eru það ekki skemmtilegir hlutir sem mig dreymir fyrir þá loka ég fyrir rásina aftur fljótlega. Ég ætla að gefa ykkur dæmi um draum sem mig dreymdi einu sinni sem rættist nokkrum mánuðum síðar.
Draumurinn byrjaði þannig að ég var inni á baðherbergi og var að þvo mér og gera mig klára fyrir svefninn. Ég stóð fyrir framan vaskinn og horfði í spegilinn þegar ég sá að það duttu úr mér báðar framtennurnar mér fannst þetta skrítið en tók þær og setti á vaskinn. Þá kom inn maður í hvítum kirtli og segir mér að ég verði að koma með honum. Ég var ekki alveg tilbúin til þess en hann lagði mikla áherslu á að ég kæmi svo ég fór af stað með honum. Mér fannst ég eiga að fara og hitta eitthvað fólk sem ég vissi ekki hvert væri. Þegar ég gekk út um dyrnar á baðherberginu gekk ég inn í einskonar þoku sem var þó ekki hærri en það að hún náði upp á ökkla. Ég sem sagt sá ekki jörðina sem ég gekk á. Mér fannst ég ganga góðan spöl með honum þegjandi, en mér leið ekki mjög vel og fannst þetta ekki þægilegt, það var eitthvað sem ég þurfti að gera. Allt í einu þá var eins og ég vaknaði til meðvitundar um það að mig vantaði báðar framtennurnar og ég gat ekki hugsað mér að hitta fólk svona útlítandi. Ég sagði manninum að ég yrði að fara til baka og ná í tennurnar. Hann maldaði í móinn en ég rauk af stað til baka. Allt í einu þá stend ég fyrir framan vaskinn og ætla að taka tennurnar en missi þær ofan í hann. Ég ætlaði að grípa þær en náði aðeins annarri tönninni. Hin fór ofan í niðurfallið. Ég upplifði mikkla söknuðartilfinningu við að horfa á eftir tönninni en vissi það að það væri alveg sama hvað ég gerði þá næði ég henni ekki aftur. Við þetta vaknaði ég og þið getið ímyndað ykkur að mér leið ekki vel þá.
Nokkrum mánuðum seinna þá dó mágkona mín ung úr krabbameini, við því mátti búast hún var búin að berjast við það í nokkur ár og við vissum að það væri líklegast að hún færi úr þessum sjúkdómi. Það furðulega við þetta allt saman var að þegar ég frétti af láti hennar þá hringdi ég í sameiginlegt vinafólk okkar til að láta vita. Eiginmaðurinn svaraði og ég sagði honum fréttirnar, hann sagði mér þá að kona hans lægi veik á kvennadeildinni en hann myndi segja henni frá þessu um leið og hann fengi tækifæri til. Þegar ég fór inn á spítala til að kveðja mágkonu mína var ég að spá í að koma við og heilsa upp á vinkonu mína en treysti mér ekki til þess. Rétt fyrir jarðaförina frétti ég það að vinkona mín hefði legið fyrir dauðanum þegar ég talaði við manninn hennar og þá loksins fattaði ég drauminn sem mig hafði dreymt. Þessi vinkona mín náði sér að fullu og það var að sjálfsögðu tönnin sem ég náði.