Það er nú samt ekki hægt að hafna því að Jesús var Gyðingur og ég get ekki skilið það litla sem ég hef lesið öðruvísi en svo, að hann hafi ætlað sér að bæta við Gyðingdóminn, og ekki að stofna alveg ný trúarbrögð. Ef að hann segir eitthvað sem er í andstöðu við eitthvað annars staðar í Gamla Testamentinu, þá eiga hans orð að koma í stað þeirra eldri.
Það er heldur ekki hægt að líta framhjá því, að hann styður siðalögmál sitt ekki með því að vísa til heilbrigðar skynsemi eða rökhugsunar, heldur með því einu að segja að það sé frá Guði komið.
Varðandi upphaflegu greinina. Er Guð löggjafi okkar eða ekki? Sé svo, þá hljóta að vera til nokkrir guðir og gyðjur, því lögmálin eru svo margvísleg og misvísandi, jafnvel í mótsögn við hvert annað. Ef Guð er hins vegar einungis einhver orka sem ef til vill skapaði allt og gaf öllu líf, til hvers þá að trúa á hann/hana/það? Vegna vonar um framhaldslíf? En kenningar trúarbragða eru svo mismunandi. Til dæmis trúðu Grikkir (a.m.k sumir) því að flestir færu á einhvern stað þar sem ekkert gerðist og fólk hefði engar minningar um sitt fyrra líf og að einungis fáir útvaldir fóru til Ódáinsvalla (e.k. himnaríki) og til að fara til Tartarosar yrðu menn að vera virkilega vondir. Við þekkjum flest kenningar kristinna og Ásatrúarmanna.
Hvernig á allt þetta að rúmast í sömu orkunni? Annað hvort eru uppspretturnar margar, fyrir utan og ofan manninn, eða þá að allar þessar hugmyndir koma “innan úr” okkur, innantómir hugarórar.