Fyrirlestur um miðla.. hluti 2/2 Sæl öll!

Ég hélt fyrirlestur um 5 miðla á tunglfundinum 2. júní og vegna lengdar er þessu skipt í tvo hluta, hér er seinni hlutinn.

Hluti 2: Hafsteinn Björnsson, Einar á Einarsstöðum.

Hafsteinn Björnsson

Hafsteinn Björnsson er talinn vera einn stórkostlegasti og öruggasti sannanamiðill sem Ísland hefur alið.
Hafsteinn fæddist að Syðri-Höfdölum í Viðvíkursveit í Skagafjarðarsýslu 30. október 1914. Skyggni gekk í móðurætt Hafsteins og fékk hann því góðann stuðning í æsku. Hann var ekki skammaður fyrir lygar og ósannsögli eins og margir skyggnir einstaklingar í æsku. Móðir hans var skyggn og berdreyminn og hún hjálpaði honum mikið til í þessum málum. Þrátt fyrir þetta þá þurfti hann að dylja reynslu sína öðru fólki þar sem að margir skildu þetta ekki. Hafsteinn sá bæði framliðna og huldufólk í æsku og eitt sumarið þegar hann var milli fimm og sex ára, þá var hann við leik úti og sér þá litla stúlku á aldur við hann sjálfan standa við horn eins kofa. Stúlkan bað hann um að fylgja sér og þau löbbuðu saman út og fyrir ofan bæinn að allháum hól sem heitir Mikligarður. Þegar Hafsteinn kemur þangað þá sér hann ekki hólinn, heldur birtist honum lítill bær og utan við bæjardyrnar sat um það bil þriggja ára gamall drengur, en hann var bróðir litlu stúlkunnar. Þau fóru öll að leika saman og fundir þeirra endurtókust hvað eftir annað. Þau urðu náin leiksystkini um sumarið og alveg uppfrá því eða þangað til að Hafsteinn flutti frá bænum Hátúni. Hann fór margoft innum huldubæinn og alla leið inn í eldhús þar sem að hann þáði flóaða sauðamjólk frá huldukonunni, móður barnanna. Hafsteinn sá þessa konu oft koma heim úr fjarveru frá heimili sínu. Hún kom alltaf úr sömu átt, ofan úr Sæmundarhlíð og bar alltaf bagga á bakinu. Seinna komst Hafsteinn að því að sú var trú manna að miklar huldufólksbyggðir væru efst og syðst í Sæmundarhlíðinni.

Á unglingsárum veiktist Hafsteinn og lá lengi á sjúkrahúsi, eftir þetta þoldi hann illa erfiðisvinnu. Hann flutti til Reykjavíkur og starfaði meðal annars sem afgreiðslumaður í búð. Oft á tíðum kom það fyrir að Hafsteinn reyndi að afgreiða fólk sem samstarfsmenn hans sá ekki. Árið 1937 hlotnaðist Hafsteini starf sem lyftuvörður í Landsímahúsinu við Austurvöll. Á þessum tíma var skyggni hans ótamin og hann átti í miklum erfiðleikum með að greina hverjir voru lifandi eða liðnir. Hann heilsaði til dæmis oft fólki sem enginn annar sá nema hann einn.
Eins og nærri má geta tóku brátt að skapast hinar furðulegustu sögur um Hafstein. Þannig sögðu sumir að væri allan daginn á ferðinni í lyftunni í Landsímahúsinu með hana tóma. Var hann þá vafalaust að flytja fólk sem hann einn sá.

Á annan í hvítasunnu árið 1937, þá komst Hafsteinn í kynni við Einar H. Kvaran. Þegar þeir hafa heilsast, þá segir Einar honum að hann hafði heyrt að hann væri skyggn og spyr svo hvort hann sjái einhvern hérna inni. Hafsteinn svarar að hann sjái Harald Níelsson og að hann standi við hliðina á Einari. Þá horfði Einar fast á Hafstein og spurði hann hvaða sannanir hann hefði fyrir því. Hafsteini líkaði illa svona spurningar og hugðist fara þegar eiginkona Einars greip inní og bað Hafstein að koma inn í stofu og þau skyldu halda smá fund. Hafsteinn mundi ekki hvað gerðist á þessum fundi en var mjög feginn að komast þaðan burt. Uppúr þessu hófst Hafsteins miðils hjá Einari Kvaran og konu hans og var fundarfólk á tilraunafundunum oftast hið sama.

Hafsteinn hafði lítinn áhuga á að fara í trans og vildi halda sig við skyggnilýsingar. Einar sótti þetta þó fast og svo fór að Hafsteinn lét treglega undan. Svona þjálfun þarf mikla ástundun, vandvirkni og þolinmæði ef vel á að ganga. Þrátt fyrir mikla hæfileika Hafsteins þá komust stjórnendur hans ekki að fullu í gegn til þess að geta haft beint samband við fundargesti fyrr en í mars 1938, eða níu mánuðum eftir að þjálfunin hófst. Einar Kvaran var strangur þjálfari og gerði þær kröfur til stjórnenda miðilsins að allar lýsingar og frásagnir yrðu sem nákvæmastar og sannanir óyggjandi. Hann krafðist þess einnig að allir þeir sem kæmu í gegn myndu gera fullkomlega skil á sér, hverra manna þeir væru og hvar þeir bjuggu á meðan jarðlífi þeirra stóð. Vegna þessarar ströngu þjálfunar, þá varð Hafsteinn einn allra sterkasti sannanamiðill hér á landi og víðar. Þegar Hafsteinn var að kominn yfir erfiðasta hjallann í þjálfuninni, þá veiktist Einar H. Kvaran og andaðist þann 21. maí þetta ár. Þetta var mikið áfall fyrir Hafstein og þjálfun hans. Svo vildi til að annar merkismaður tók Hafstein upp á sína arma og gerðist verndari og hjálparhella hans, þessi maður var Jónas Þorbergsson rithöfundur.

Hafsteinn var eitt sinn beðinn um að taka þátt í tilraun með tveimur mönnum. Þetta var fyrir transfund og þeir vildu að Hafsteinn lýsti því sem gerðist þegar hann væri á leiðinni í trans og hvernig hlutirnir gerast fyrir sig. Hafsteinn lýsti þessu á eftirfarandi vegu.

Um það bil tvo tíma fyrir hvern fund, þá verður hann var við stjórnendur sína og vini sína að handan. Þegar hann kemur sér fyrir í biðstofu fyrir fundina þá verður hann einnig vel var við stjórnendur sína, þeir snerta hann og hann sér þá. Þeir láta hann að vita að allt er tilbúið þeirra megin. Þegar allir fundargestir eru búnir að koma sér fyrir í rökkvuðu herberginu, þá gengur hann inn í miðjann hringinn og sest í miðilsstólinn. Hann sér ekki fundargestina en sér orkuna/útstreymi frá þeim. Hann lýsti þessu sem hvítbláu reykskýi sem leggst yfir hringinn. Þó kemur fyrir að einstaka fundargestir gefa ekki frá sér neina orku og kemur þá gat í hringinn. Hafsteinn situr þá í smástund og fylgist með orkunni að vaxa. Svo hefst fundurinn á venjulegann hátt og þegar Faðir vorinu er að ljúka þá sér hann ætíð stjórnanda sinn standa vinstra megin við sig og þá tekur líðan hans að breytast. Hann fær kuldatilfinningu, skrokkurinn virðist þyngjast og öll líkamsstarfssemi virðist vera erfiðari. Svo smádvínur meðvitundin þar til að hann rankar við sér með fullri meðvitund standandi fyrir utan líkama sinn og silfurstrengur tengir líkamana. Enn sér hann ekki fundargestina, heldur einungis orkuna frá þeim. Fyrir utan fundargestina þá standa alltaf þétt röð af hvítklæddum stjórnendum í kringum fundarhringinn, þar fyrir utan önnur röð og svo hin þriðja. Þeir sem eru að vinna hafa opinn aðgang að líkamanum í stólnum en varðmenn standa hvor sínum meginn við hann. Fyrir framan sig sér hann einskonar orkustöð sem er í lagin eins og þríhyrningur og liggja þræðir frá honum til hvers og eins stjórnanda sem er að þjóna í hringnum. Frá þeim liggja svo gylltir þræðir í fundargestina, en þeir eru ætlaðir til þess að ná andlegri orku sem er notuð til að ná sambandið við miðilinn. Í loftinu er svo strengjahaf sem fer þvers og kruss og sameinast svo í einn þykkan streng sem fer vinstra megin aftan í miðilinn. Í gegnum þennan streng koma stjórnendur og fleiri með sín áhrif og geta þannig náð sambandi og tjáð sig í gegnum miðilinn. Loks á bak við þetta allt eru þúsundir af framliðnum verum, bæði verur tengdar fundargestunum og svo mikið af verum sem eru komnar forvitninar vegna og vilja reyna koma einhverju á framfæri. Á meðan fundi stendur er oft farið með Hafstein til að sýna honum eitthvað sérstakt á astral sviðinu, einnig fer hann í ferðalög ásamt látnum vinum sínum um jörðina. Þegar fundi er að ljúka þá er hann látinn vita og kemur ósjálfrátt tilbaka. Oft er mikið af verum sem vilja reyna koma skilaboðum á framfæri og tefja för Hafsteins tilbaka, einnig er eitthvað af verum sem vilja reyna troðast í líkama hans til þess að geta tjáð sig. Stjórnendur Hafsteins koma þó ætíð í veg fyrir þetta og hjálpa honum að komast aftur í líkama sinn. Hafsteinn er svo í hálftransi strax að fundi loknum og er þá mjög skyggn og flytur oft skilaboð. Á þessum tíma man hann eftir fundinum og ferðum sínum en um leið og úr transinum er komið þá er flest gleymt, svipup tilfinning og að vakna upp frá draumi.

Hafsteinn var mjög aktívur í sálarrannsóknarfélögum á Íslandi og gegndi meðal annars formennsku í sálarrannsóknarfélagi Hafnarfjarðar síðustu ár sín.

Þess má einnig geta að þeir Hafsteinn og Einar á Einarstöðum voru miklir vinir seinni hluta ævi sinnar og hjálpuðu hvor öðrum og veittu hvor öðrum styrk í starfi hvors annars.

Það er ómögulegt að segja frá öllum þeim fundum sem Hafsteinn hélt, en hann starfaði í 40 ár og var einn virtasti miðill sem hér hefur starfað. Hann hélt margoft fámenna fundi sem fjöldafundi og hann kom með ótrúlegustu skilaboð og smáatriði sem hann hefði ekki með nokkru móti getað vitað og er óhætt að segja að enginn hafi komið svikinn af fundum með Hafsteini.

Hafsteinn féll niður örendur við heyvinnu þann 15. ágúst 1977. Hann hafði þá vitað með nokkrum fyrirvara að dögum hans hér á jörðinni væri lokið.

Ritað hefur verið um Hafstein í nokkrum bókum og má þar að nefna Sonur Sólar eftir Ævar Kvaran, Leitið og þér munið finna sem Skuggsjá gaf út og einnig Sögur úr safni Hafsteins miðils eftir hann sjálfann.



Einar á Einarsstöðum

Einar Jónson eða Einar á Einarsstöðum eins og hann var gjarnan kallaður fæddist þann 5. ágúst árið 1915. Hann var þriðja barn foreldra sinna af 10. Einar hafði alltaf verið skyggn og áttaði sig ungur á því að hann sæi meira en aðrir. Einnig átti hann mjög auðvelt með að fara sálfarir og þurfti lítið annað en að hugsa til þess svo að það gerðist. Einar var lengi vel hræddur við skyggnina en það var ekki fyrr en um fermingu sem hann tók hana í sátt og áttaði sig almennilega á hæfileikum sínum. Einar sagði einu sinni frá einni af sálförum sínum. Eina nótt þegar hann var ungur þá hrökk hann upp við það að hann stóð fyrir utan líkama sinn, hann spáði ekkert frekar í þessu en svo var tekið um öxl hans og hann fór á flug. Hann fór að sveitabæ sem hann hafði oft verið í áður og sá þar Sigvalda bónda sem lá banaleguna. Hann nemur staðar yfir bænum og fylgist með því sem fer fram. Einar sér Sigvalda svo að rísa upp úr rekkju og svífa í átt að dyrunum, þar voru tvö börn sem tóku í hendurnar á honum og svo svifu þau upp. Seinna komst Einar að því að Sigvaldi hafði misst tvö börn á árum áður og þetta voru þau sem fylgdu honum. Þegar Einar kom aftur í líkama sinn, þá hrökk hann við og fór að gráta þetta. Faðir hans kom inn og Einar sagði honum frá þessu. Faðir hans eyddi þessu tali og sagði að menn dreymdi stundum undarlega hluti. Strax morguninn eftir kom sonur Sigvalda og tilkynnti lát hans.

Árin liðu og Einar og systkini hans tóku við búinu of foreldrum sínum. Skyggni Einars og sálfarir hans héldu áfram og komu honum oft í góðar þarfir.
Það var ekki fyrr en um haustið 1955 að kona að nafni Guðrún Waage kom í heimsókn á bæinn. Guðrún þótti vera mjög skyggn og var gædd lækningamátti. Hún tók Einar á tal og sá strax að hann var gæddur miklum hæfileikum. Guðrún hvatti Einar að fara til Akureyrar og fara á fund hjá transmiðli. Einar var mjög feginn að hitta þessa konu, því að með henni gat hann deild reynslusögum sínum og komst í raun og veru að því að hann væri ekki einn um þessa hæfileika. Hún veitti honum einnig útskýringu á hlut sem Einar hafði lengið velt fyrir sér. Hann varð nefnilega oft var við miklar hitabreytingar í líkama sínum, eina stundina var líkami hans nístingskaldur viðkomu og svo funheitur. Sjálfum var honum hvorki kalt né ómótt. Guðrún sagði að verur annars heims væru að þjálfa hæfileika Einars til lækningastarfs.

Einar fór loks á skyggnifundinn árið 1956 á Akureyri með Láru Águstsdóttur miðli. Lengst af kom enginn til Einars, hann aðeins sá og heyrði látnar verur sem í sambandið komu. Lýsandinn, sem var lítil stelpa, ávarpaði Einar allt í einu með nafni. Hún minnti hann á að þótt að þetta væri fyrst fundurinn sem hann hefði farið á, þá hefði hún oft litið inn til hans, síðast í gærkvöldi sagði hún.
Hún tók aðeins að reyna á skyggni Einars og spurði hvort hann sæi veruna sem var á bakvið hann. Einar kvaðst ekki sjá hana, stúlkan sagði að það væri rétt. En það var sá sem boðaði Einar á þennan fund. Hann kvaðst heita Þórður Pálsson og starfaði áður sem læknir hér á Íslandi. Hann tók að mæla við Einar og sagði honum að 12 læknar hefðu fundið hæfileika hjá Einari til þess að hjálpa sjúkum hér á jörðinni. Einar færðist undan skelfdur og taldi sig engann mann til svoleiðis starfa. Þórður svaraði þá að það væri ekki þitt að segja til um það. Hann sagði frá að þeir væru þjónar Guðs og störfuðu í krafti frá Honum, hann sagði við Einar að það væri ekki hann sjálfur sem ætti að lækna, heldur væri hann miklu fremur jarðsamband fyrir starf þeirra. Einar færði sig enn undan en Þórður setti honum nokkrar reglur: Þær voru að hann átti aldrei að selja aðstoð sína, hann átti ekki að drekka áfengi svo að hann fyndi á sér og að hann mætti aldrei segja öðrum hvað læknar segðu við sjúkling.

Einar var boðaður aftur á tvo fundi ári síðar og þá var hann kynntur fyrir öllum læknunum sem kæmu til með að starfa með honum. Eftir þessa fundi þá hófst starf Einars. Honum var sagt að kalla sig læknamiðil því að í því fælist tvennt; í fyrsta lagi er það undirstrikun þess að Einar læknar engann sjálfur og í öðru lagi að Einar er aðeins verkfæri í höndum þeirra lækna sem nota hann sem tæki til að komast í samband við sjúklingana.
Hæfileikar Einars spurðust fljótt út og fyrr en varði var stanslaus straumur af fólki Einarsstöðum sem leitaði sér hjálpar. Vinna Einars fór þannig fram að hann var með lítið herbergi á efrihæð sem var eingöngu ætlað lækningastörfunum, þar voru tveir stólar, krossar og kerti. Einar spurði gestina sjaldnast að nafni og vildi aldrei fá að vita hvað væri að þeim. Þegar báðir eru sestir niður þá er Einar í einhverskonar hálftransi, honum er þá sagt að leggja hönd sína á þann stað þar sem meinið er og þylur Einar þá oft upp ævisögu fólks eða sjúkrasögu þess. Læknarnir sýna honum á táknrænan hátt hvað þeir eru að gera, Einar sér til dæmis tákn í formi sprautu, skurðhnífar og þar fram eftir götunum. Einnig var honum leyft að sjá inn í líkama fólks ef svo bar við og gat þá nákvæmlega lýst meinsemdunum og var þetta oft sannreynt síðar þegar fólk fór í röntgenmyndatökur við önnur tækifæri.
Algengt var að mikill svefnhöfgi sóttu að þeim sem voru inn í herberginu hjá Einari. Margir sofnuðu en öðrum var leyft að finna hvað væri verið að gera við sig. Inn í herbergi Einars fóru margir vantrúaðir á þetta en komu út með nýja sýn á lífið og skilning á því að eitthvað meira væri til ein þeir höfðu áður haldið. Læknar á vegum Einars sönnuðu sig stundum fyrir fólki ef þörf var á, létu til dæmis málverk sem var á veggnum hverfa og birtast aftur og þar fram eftir götunum.

Einar tók oftast á móti gestum frá seinnipart og langt fram á kvöld, Erla konan hans tók aftur á móti símtalsbeiðnum allan daginn og sinnti Einar þeim áður en hann fór í háttinn. Það kom þó oft fyrir að hjálparbeiðnir þurftu ekki að berast Einari, fyrir suma var nóg að hugsa stíft til hans og þá var eins og að hjálparbeiðnin bærust læknum hans og viðkomandi fékk bót meina sinna.

Slík var eftirspurnin eftir Einari að flogið var með hann til Reykjavíkur tvisvar á ári og tók hann þá þar á móti fólki í eina til tvær vikur í senn.

Séra Sigurður Haukur Guðjónsson átti stóran þátt í að hjálpa Einari hér í Reykjavík. Hann var einn af fáum prestum á þessum tíma sem var mjög opinn fyrir dulrænum hugmyndum. Hann opnaði kirkju sína og hélt fjöldafundi þar sem að fólk sat í kirkjunni og Einar labbaði til hvers og eins og lagði hönd sína á viðkomandi. Mismunandi var hversu lengi hann var hjá hverjum og einum, enda hefur það líklegast farið eftir sjúkdómum hvers og eins. Margrét frá Öxnafelli mætti á einn af þessum fundum og talaði um mikla litadýrð í kirkjunni þegar Einar gekk um. Hafsteinn Björnsson miðill mætti á alla þessa fundi sem hann gat og ræddi hann um blágráan orkuhjúp sem myndaðist yfir fundargestunum og hann heyrði undurfagra tónlist sem barst þar inn frá öðrum heimi. Einar og Hafsteinn urðu miklir vinir og var það hvorum þeirra mikill styrkur að eiga hvorn annan að.

Mjög margar sögur eru til um þau kraftaverk sem gerðust eftir heimsókn eða hjálparbeiðni til Einars, helti löguðust, sár sem höfðu ekki gróið í mörg ár greru, miklir bakverkir hurfu eins og dögg fyrir sól, gigt lagaðist, fólk fékk meðal annars ábendingar um hvernig það ætti að haga stellingum sínum þegar það svæfi og svo framvegis. Ein sagan er þannig að beðið var fyrir þriggja ára dreng sem þjáðist af blóðsjúkdómi sem olli því að blóðið storknaði mjög seint og illa og þurfti ætíð að leita til sjúkrahúss ef hann fékk blóðnasir og þar fram eftir götunum. Læknar höfðu rannsakað blóðið hans og staðfest að hann ætti við þennan sjúkdóm að etja. Þá var haft samband við Einar og hans menn beðnir um að kíkja á þetta, tveimur dögum síðar þá urðu svo mikil umskipti að blóðið drengsins hafði tekið það miklum breytingum að læknar undruðust þetta mikið og hefur drengnum liðið mikið betur síðan.
Einar sinnti lækningastarfi sínu í 40 ár eða allt þar til að hann lést þann 24. febrúar árið 1987.

Til eru ótal sögur um þau kraftaverk sem gerðust og eru þær meðal annars að finna í bókunum Miðilshendur Einars á Einarsstöðum eftir Erling Davíðsson og einnig í Brú milli heima eftir Jónas Jónasson.



Heimildir:
Sonur sólar, Ævar Kvaran
Leitið og þér munið finna, höf? útgefandi Skuggsjá
Sögur úr safni Hafsteins Miðils, Hafsteinn Björnsson
Miðilshendur Einars á Einarsstöðum, Erlingur Davíðsson
Brú milli heima, Jónas Jónasson