Sæl öll!
Ég hélt fyrirlestur um 5 miðla á tunglfundinum 2. júní og vegna lengdar er þessu skipt í tvo hluta.
Hluti 1: Í þessari grein er fjallað um Indriða Indriðason, Andrés P. Böðvarsson og Margréti frá Öxnafelli.
Indriði Indriðason
Indriði Indriðason þykir einn af merkari miðlum sem Ísland hefur átt. Hann fluttist úr sveitinni til Reykjavík ungur til að læra prentlist. Í Reykjavík kynntist hann hópi áhugamanna um spíritisma. Í þessum hóp voru m.a. Einar H. Kvaran rithöfundur og skáld og einnig Haraldur Níelsson háskólakennari í guðfræði. Þeir tóku strax eftir miklum hæfileikum Indriða og tóku hann undir verndarvæng sinn. Þeir héldu fundi og rannsóknir með Indriða milli 1905 og 1909. Margir af færustu og þekktustu vísindamönnum Íslands rannsökuðu Indriða og voru sannfærðir að hann og hæfileikar hans væru ekta. Hópurinn byggði m.a. dálítið hús fyrir Indriða sem hafði tiltölulega stóra stofu þar sem tilraunafundirnir fóru jafnan fram. Indriði sat venjulega framarlega í herberginu undir ströngu eftirliti tilraunamanna. Á bekkjum sátu svo áhorfendur og fylgdust með, oft voru um 50-60 manns á fundunum.
Til að byrja með á miðilsfundunum þá birtust ljós og högg heyrðust í herbergi því sem fundurinn var haldinn í. Aðeins seinna komu fram lyftingar á miðlinum og stundum afefnuðust hlutar af líkama hans með einhverjum dularfullum hætti. Einnig tóku verur að birtast/efnast og stóð þá af þeim svo mikil birta að auðvelt var að sjá miðilinn í transi í stól sínum þar sem honum var haldið föstum af tilraunamönnum. Fundarherbergið var ætíð læst fyrir hvern fund og var það talið ómögulegt að miðillinn hefði getað hleypt einhverjum inn til þess að falsa þessar sýnir.
Fundir hjá Indriða voru ansi magnaðir og Einar Kvaran skrifaði marga þá niður, m.a. þennan hér sem var haldin á heimili hans:
Jafnvel þótt ljósin í fundarherberginu hefðu verið slökkt sýndi hin lýsandi vera sig í dagstofunni, þar sem við öll sátum með miðilinn mitt á meðal okkar. Hann var í mjög djúpum transi.
Þessi nýji gestur var klæddur hjúpi úr mjög fíngerðu efni, sem víða náði alla leið niður á gólf, og sterk birta stóð af honum. Við sáum hann á ýmsum stöðum í herberginu. Eitt sinn stóð hann á legubekk eða sófa, og bak við hann var rautt ljós sem líktist einna helst svolítilli sól sem sendi frá sér hvítleita birtu.
Iðulega birtist þessi vera 7 til 8 sinnum sama kvöldið á mismunandi stöðum í herberginu. Margoft sáum við þessa efniskenndu veru og miðilinn samtímis. En þessi furðulegi gestur virtist þó ekki geta verið sýnilegur nema í nokkrar sekúndur í senn. Þegar gesturinn hafði lokið þessum sýningum á sjálfum sér, þá reyndu hann stundum að snerta einhverja fundarmenn með hönd, handlegg eða fæti og hann leyfði okkur jafnan að snerta þennan efnislega líkama áður en hann afefnaðist aftur.
Fleiri magnaðar sögur eru til af fundum Indriða. Á árunum 1906-1907 tóku hinar andlegu verur sem stjórnuðu Indriða að flytja hvers konar muni inn í fundarherbergið heiman frá ýmsum fundarmönnum eða heiman frá fólki sem þeir þekktu.
Haraldur Níelsson lýsti einni slíkri tilraun í eftirfarandi frásögn: Þegar fundurinn byrjaði var Indriði í transi og nú voru stjórnendur hans beðnir um að reyna stela hlut af heimili kunns læknis í borginni. Að nokkrum tímum liðnum heyrðu tilraunamenn eitthvert undarlegt hljóð í herberginu. Þegar ljósið var kveikt fannst flaska á borðinu með sýnishornum af fuglum. Fundi var frestað í bili meðan tilraunamennirnir hringdu til læknisins en hann kannaðist ekki við neina flösku af þessu tagi. Þegar miðlinum hafði verið sagt frá þessu fór hann aftur í trans og stjórnandi hans skýrði frá því að hann hefði tekið sýnishornin úr fatakistu á heimili læknisins meðan eldri maður hefði verið þar á tali við tvo aðra gesti. Aftur var hringt til læknisins og viðurkenndi hann að tengdafaðir hans hafi í rauninni verið staddur hjá honum og talað þar við tvo aðra vini sína. Þá kannaðist hann við flöskuna sem í voru nokkur sýnishorn sem starfsbróðir hans hafði gefið honum og hann geymt í kistunni. Hann hafði orðið var við það að flaskan var allt í einu horfin, honum til mikillar gremju en tiltraunamönnunum hins vegar til gleði.
Að lokum kemur hér ein af merkustu sögunum um Indriða. Árið 1907 var Indriði í heimsókn hjá presti nokkrum út á landi. Eitt sinn var hann á gangi í bænum og gekk framhjá húsi manns sem hafði framið sjálfsmorð stuttu áður. Indriði sá anda mannsins og reyndi þessi maður að komast inn í Indriða, en gekk ekki.
Næstu mánuði framleiddi þessi vera óskiljanlegt ærslaandafyrirbrigði í viðurvist Indriða.
Það vildi svo til að guðfræðistúdent nokkur bjó í herbergi í húsi Indriða og svaf í sama svefnherbergi og hann. Eitt sinn var einn af vísindamönnum þeim sem voru að kanna Indriða í heimsókn hjá stúdentinum og gerist þá eftirfarandi atburður.
Indriði var að byrja fara í fötin og var að færa sig í buxurnar og heyrði vísindamaðurinn hann allt í einu kalla á hjálp. Þegar hann kom inn í herbergið þá lá Indriði lárréttur í loftinu í axlarhæð og sveiflaðist til og frá. Fætur hans snéru út að glugganum og virtist sem að þessi vera væri að reyna fleygja honum út um hann. Vísindamaðurinn hikaði ekki og greip Indriða og ýtti honum niður á rúmið og hélt honum þar. Þá verður hann var þess að þeim báðum er núna lyft upp og hrópaði hann þá á stúdentinn sem þarna bjó. Náðu þeir þá saman að ná Indriða niður en á sama tíma voru hlutir í herberginu komnir á fleygiferð. Að lokum hægðist til og þessu lauk.
Margir svona hlutir gerðust og munaði ekki miklu að þessi vera gengi Indriða af dauðum. Tókst þó loks að kveða andann niður eftir marga mánuði og lét hann Indriða í friði eftir það.
Indriði og unnusta hans fengu bæði taugaveiki árið 1909 og hann náði aldrei fullri heilsu eftir þetta og varð því að hætta fundunum. Stuttu síðar fékk hann berkla og lést af völdum þeirra árið 1912, aðeins 29 ára gamall.
Þess má einnig geta að Indriði var fyrsti launaði miðillinn að talið er. Spíritisminn var hobbý efnamanna á þessum tíma, sem sést t.d. vel á því að hópurinn byggði hús fyrir hann. Þessi hópur tók sig saman og greiddi honum árslaun til þess að hann gæti einbeitt sér að miðilstörfunum. Hann fékk 1.000kr á ári en það voru verulegir peningar á þessum tíma, meira en verkamannalaun býst ég sterklega við.
Einnig má geta þess að til er ævisaga um Indriða sem dr. Erlendur Haraldsson og nemandi hans Loftur R. Gissurarsson tóku saman á þessum tíma. Ævisagan er afurð rannsókna í þau fjögur ár sem Indriði starfaði. Þessi frásögn ber á ensku nafnið The Icelandic Physical Medium Indriði Indriðason. Hún hefur m.a. verið gefin út af Breska sálarrannsóknarfélaginu í Englandi.
Andrés P. Böðvarsson
Andrés fæddist í Dýrhólum á Þingeyri við Dýrafjörð þann 4. september 1896.
Andrés var mjög skyggn frá fæðingu. Andrés gat einungis leitað til móður sinnar til að tala um þær sýnir sem hann sá, faðir hans hótaði að lúberja hann útaf þessari endemis vitleysu sem honum fannst koma upp úr honum. Móðir hans varaði hann við og bað hann um að hafa hljótt um þessar sýnir hans, því það væru margir sem ekki tryðu á þetta.
Andrés fór á sjó tólf ára gamall og í einni sjóferðinni þá var áhöfnin að stytta tímann með að segja draugasögur, ræddu þeir um sögurnar og flestir héldu því fram að draugar og draugasögur væru tilbúningur einn. Andrés gat þá ekki stillt sig lengur og barði í borðið og sagði að hann hefði séð svipi látinna manna. Áhöfnin horfði á hann með vantrúaraugum og sökuðu hann um lygar. Þar sem að hvorki Andrés né áhöfnin létu eftir þá endaði þetta í slagsmálum, skildi Andrés þá aðvörun móður sinnar og fór upp frá þessu að hafa hljótt um þetta.
Andrés átti systur sem hét Laufey, hún var 2 ½ ári yngri en hann. Hún veiktist af lífhimnubólgu, sjúkdómurinn var hægfara og hún var ekki þungt haldin. Á þessum tíma heyrði Andrés alltaf sagt við sig að hún myndi ekki lifa þetta af. Andrés sagði móður sinni þetta en hún þaggaði niður í honum og vildi ekki hlusta á svona tal. Svo fór að sjúkdómurinn versnaði þar til að hún varð rænulaus og var þannig í nokkurn tíma. Dag einn sá Andrés konu setjast við rúm systur sinnar, hann fór til móður sinnar og spurði hvaða kona sæti þarna. Móðir hans sá enga konu en Andrés þrætti fyrir það og fór að lýsa konunni. Móðir Andrésar þekkti konuna af lýsingunni og var það systir hennar sem hafði látist fyrir nokkrum árum. Andrés sá þessa konu svo daglega við rúmið systur sinnar þar til hún lést.
Verur að handa geta verið alveg kyngimagnaðar eins og þið heyrðuð í sögunni um Indriða… Haustið 1912 reri Andrés bát í Keldudal í Dýrafirði, hann hafðist við í verbúð einni sem var upp í á háum bökkum en dyrnar vissu beint til sjávar en þessi verbúð hafði staðið auð um langann tíma. Eitt kvöldið lá Andrés í rúminu og er að lesa, þá leggst á hann mikill svefnhöfgi og þá sér hann mann koma inn um luktar dyrnar í verbúðina. Maðurinn kemur að Andrési og segir að hann sé í svefnplássinu sínu. Andrés kveðst þetta vera sitt svefnpláss en maðurinn svarar því að enginn hafi verið í þessu plássi síðan að fór úr því síðast. Andrés þrættir fyrir þetta og segist ekki fara fet. Maðurinn verður þá illilegur á svip og þrífur í hálsmálið á honum og kastar honum fram úr rúminu og slitnuðu tvær tölur af skyrtunni hans við atganginn. Við þetta fór maðurinn. Þetta endurtók sig svo næstu nótt, en þriðju nóttina, þá sneri Andrés rúminu til þess að geta tekið betur á móti þessum manni. Svo um kvöldið þá kemur maðurinn aftur og grípur í fótinn á Andrési og dregur hann út úr rúminu og eftir öllu gólfinu fram að dyrunum. Andrés fann ekki fyrir höndinni sem slíkri, heldur var þetta eins og einhver kraftur eða straumur sem verkaði á fótinn. Maðurinn sleppti Andrési við hurðina og greip þá Andrés hvalbein sem var þar við og kastaði á eftir honum. Eftir þetta svaf Andrés aldrei einn í verbúðinni og ekki bar aftur á þessum manni. Í samtali sem Andrés átti svo við gamla konu á svæðinu kom í ljós að hún kannaðist við þennann mann, hann hafði verið formaður á bát og hafði haft við í þessari verbúð, en hann hafði farist á sjó.
Þrátt fyrir allar þær sýnir og atburði sem hann lenti í, þá trúði hann aldrei á skyggni sína. Eftir því sem hann eltist, því barðist hann meira á móti skyggni sinni. Hann leit á hana í mörg ár sem einhvers konar veiklun, andlega eða líkamlega. Þessi mótstaða hans hafði slæm áhrif á heilsu hans og henni fylgdi mikil vanlíðan. Svo virðist sem að hann hafi á einhvern hátt verið mikið opnari og varnarlausari eftir því sem mótstaðan var meiri. Þar tók við tímabil þar sem hann gat ekki sofið venjulegan svefn í langan tíma. Hann var þó meðvitundarlaus í rúminu en talaði stanslaust upp úr svefni, söng, blístraði, blótaði, hrækti og átti konan hans oft fullt í fangi með að halda honum í rúminu. Hann vaknaði þá ætíð jafnþreyttur og hann var þegar hann lagðist til svefns. Samt hafði hann enga hugmynd um hvað hefði gengið á um nóttina. Oft talaði hann líka upp úr svefnmóki og kvaðst sjá hvítklæddar verur og mann sem hann kvaðst þekkja en mundi ekki hver hann var. Á þessu tímabili var hann undir miklum skyggniáhrifum og datt inn og út úr hálftransi vakandi sem sofandi.
Svo árið 1924 þá missti hann heilsuna, fékk lífhimnubólgu og var lagður fyrst inn á Landakotsspítalann og svo var hann fluttur á heilsuhælið á Vífilsstöðum. Hann lá þar í tæpt ár og minnkaði skyggnin á meðan veikindunum stóð og mestallt næturbrölt hætti. Þegar hann hresstist við, þá jókst skyggnin aftur og þá byrjuðu lætin um næturnar á ný. Meðal annars komu högg á rúmið og honum var einnig fleygt úr því að konu hans sjáandi. Upp úr þessu fór Andrés loks að hneigjast smátt og smátt og sálarrannsóknum og með aðstoð Andrésar Andrésonar klæðskera og Einars H. Kvaran, þá var tekið upp á því að halda vikulega transfundi með Andrési. Við þessar tilraunir þá batnaði heilsa Andrésar og allt næturbrölt snarminnkaði. Og var það ætíð svo að því lengra sem leið á milli funda, því verr leið honum.
Andrés var svokallaður sannanamiðill. Þegar hann fór í trans þá kom ætíð í gegn stjórnandi sem var danskur læknir Jensen að nafni, svo kom sjóari sem hét Eyjólfur, einnig kom lítill drengur sem hafði dáið ungur, Björn að nafni, svo komur margir fleiri í gegn, meðal annars Leó, bróðir Andrésar sem hafði látist fyrir nokkru.. Þessir aðilar komu oftast í gegn og veittu allskyns upplýsingar og miðluðu að handan skilaboðum sem enginn vafi lék á að væru sönn. Einnig kom það fyrir að Andrés talaði meðal annars Færeysku og Dönsku í trans, en hann kunni hvorugt þessara tungumála.
Andrés veiktist mikið og lést svo af völdum þeirra 29. janúar árið 1931.
Það er samdóma álit þeirra sem sóttu fundi hans að Andrés var mjög sterkur sannanamiðill og það voru reglulega haldnir fundir með honum í fimm ár þar sem að hann sýndi að hann er einn af fremstu miðlum sem Ísland hefur átt.
Margrét frá Öxnafelli
Margrét Jónsdóttir Thorlacius eða Margrét frá Öxnafelli eins og hún er betur þekkt er fædd þann 12. apríl 1908. Margrét var ein af 13 systkinum og heimilið var því fjölmennt og fátækt, en aldrei liðu þau neinn skort.
Margrét var skyggn frá fæðingu og ein af elstu minningum hennar er sú þegar hún leit út um gluggann í baðstofunni og sá ljós í fjallinu. Upp úr því fór hún að sjá huldufólk og hýbili þeirra. Upp úr 6-7 ára aldri fór hún einnig að sjá árur fólks og einnig framliðið fólk. Sem barn þá lék hún oft við börn úr einni huldufólksfjölskyldu, eða í tvö heil sumur þangað til að huldufólksfjölskyldan flutti.
Margrét var tíu ára þegar hún kynntist fyrst Friðriki, hún sá hann með huldufólki upp hjá Svörtuklettunum svokölluðu. Hún hélt fyrst að hann væri huldumaður en komst að því seinna að hann væri mennskur framliðinn maður. Ein fyrsta reynsla hennar af lækningum hans var að stuttu eftir að hún kynntist honum, þá varð móðir hennar mikið veik. Margrét spurði þá Friðrik hvort hann gæti eitthvað hjálpað móður hennar. Friðrik tók vel í það en Margrét varð mjög undrandi þegar hún sá hann birtast í hvítum læknasloppi. Skömmu síðar batnaði móður hennar og komst aftur á fætur, en þetta markaði upphaf að dularlækningum Friðriks.
Kvöld eitt í Öxnafelli þá gekk Margrét upp fyrir bæinn sinn. Rigning hafði verið fyrr um daginn og hún sá regnboga yfir sveitinni. Hún óskaði þess gjarnan að vera undir regnboganum, enda hafði hún heyrt að fólk fengið óskir sínar ef það væri við enda regnbogans. Við þetta féll hún í einhverslags leiðslu og sá mikið lithaf í kringum sig. Í þessu hrifningarástandi óskaði hún þess heitt og innilega að henni mætti veitast það að geta hjálpað þeim sem þjást og linað þrautir þeirra. Svo virðist sem að hún hafi verið bænheyrð því að sama kvöld byrjuðu lækningar Friðriks fyrir alvöru. En það kvöld kom maður einn með mörg lækningabréf austan frá Húsavík. Þetta var árið 1924 þegar hún var 16 ára. Hæfileikar hennar spurðust fljótt út og fyrr en varði byrjuðu bréf að streyma til hennar, mest komu um 200 bréf í einu. Hún las þau öll og kom efni þeirra á framfæri við Friðrik. Þegar sjúklingar komu til hennar, þá var eins og að úr henni drægi mátt og henni syfjaði. Hún heyrði þá raddir sem sögðu að þessum sjúklingi myndi batna. Ef það var alger þögn, þá brást það ekki að sjúklingurinn var dauðvona.
Framliðnir menn geta verið mikils megnugir.. Margrét sagði frá því að einu sinni í leysingum, þá fór hún að gili einu og stóð á snjóskafli fyrir ofan gilið. Hún áttaði sig ekki á því að í leysingunum hafði grafið undan skaflinum og allt í einu brast skaflinn og hún datt niður gilið… Í fallinu verður henni hugsað til Friðriks og þegar hún komst til sjálfs síns aftur, þá stóð hún aftur upp á skaflinum alveg ómeidd. Annað skipti þá var hún að gæta systur sinnar sem var smábarn á þessum tíma. Hún fór með hana út á hlað og var með hana á bakinu. Margrét fór að príla á spýtum sem höfðu verið settar yfir gamlann vagn. En spýturnar voru það ónýtar að þær gáfu sig og Margrét datt og missti systur sína um leið. Um leið og Margrét lenti og fór að gæta að systur sinni þá sá hún að Friðrik hélt á henni og setti hana gætilega niður.
Enn víkur sögunni að Einari H. Kvaran. Árið 1924 þegar Margrét var 16 ára þá fór hún til Reykjavíkur og var þar í eitt ár. Á þessum tíma bjó hún meðal annars hjá Einari Kvaran, en hann gerði á henni rannsóknir og tilraunir til að reyna fá sannanir fyrir þessum lækningum og á þessum Friðriki. Þetta gekk í nokkra mánuði en rannsóknarstarfið reyndist örðugt. Eftir þennan tíma þá var Einar þó sannfærður um að Friðrik væri til og eftir að hafa séð árangur lækninganna á mörgum sjúklingum þá lék enginn vafi í hug Einars að þessar lækningar voru raunverulegar.
Margrét sinnti lækningastörfunum allt sitt líf ásamt því að reka heimili og ala upp börnin sín. Þegar hún bjó í Hafnarfirði þá var hún meðal annars með herbergi sem hún tók á móti fólki hálfann daginn.
Enginn vafi er á lækningum Friðriks og alltof langt mál er að telja upp allar þær sögur og vitnisburði um þessar lækningar. Ótal sögur og frásagnir eru að finna í tveimur bókum sem hafa verið ritaðar um Margréti, þær eru; Skyggna konan og Skyggna konan II eftir Eirík Sigurðsson skólastjóra.
Margrét lést þann 19. mars árið 1989.
Heimildir:
Úr dagbók miðilsins, Elínborg Lárusdóttir
Sonur sólar, Ævar Kvaran
Skyggna konan, Eiríkur Sigurðsson
Skyggna konan II, Eiríkur Sigurðsson