Birti hér einn kafla úr ritgerð eftir mig. Nennti ekki að birta hana alla, enda var hún 11 bls og frekar ítarleg (var um heiðna nálgun á tónlist)… Þetta er svona um hvernig nýheiðni kom fram á sjónarsviðið.


Á endurreisnartímabilinu varð fólk miklu meðvitaðra um listir og heimspeki hinna gömlu tíma og fólk varð miklu umburðarlyndara gagnavart öðrum hugmyndum en kirkjunnar. Að vísu ollu siðaskiptin miklum deilum og þeir sem ekki féllu inn í nýjar hugmyndir kristinna manna voru ofsóttir. Trúarleg geðshræring leiddi til þess að sumir einstaklingar fengu á sig orð fyrir fjölkynngi og upphófst öld galdrabrennu í Evrópu. Fæstir þeirra væru vart í dag taldir vera nornir eða galdramenn, allra síst ljósmæður og grasalæknar. Flestir voru einfaldlega fórnarlömb nágrannaerja. Eftir að þetta leið hjá fékk fólk aftur færi á að kynna sér hugmyndir utan kristninnar og áhugi á öðrum trúarbrögðum og menningarheimum jókst.

Fyrsta heiðna hefðin sem endurvakin var voru Drúídar í Bretlandi. Talið var að 4500 ára gamlir steinahringir og önnur mannvirki hafi verið byggð af Drúídum þó ekki hefðu allir samþykkt þær kenningar. Á 19. og 20. öld var fólk um alla Evrópu að enduruppgötva gamlar, heiðnar hefðir sinna þjóða og þá vöktu engilsaxneskar og norrænar hefðir sérstaklega áhuga fólks. Englendingurinn William Morris þýddi Íslendingasögurnar og Cecil Sharp safnaði þjóðdönsum og –söngvum. Í Þýskalandi sá fólk náttúrutrú á bak við ýmsar þjóðlegar hefðir og hjátrú.

Á 19. öld jókst áhugi á galdraiðkun og voru uppi hugmyndir um að þær nornir sem líflátnar voru á brennuöldinni hafi verið leynilegir iðkendur gamalla heiðinna trúarbragða. Árið 1899 staðhæfði bandarískur blaðamaður, Charles Godfrey Leland, að hann hefði fundið nútíma nornir á Ítalíu. Sú hefð lifir enn í dag og er kölluð Stregheria en orðið strega þýðir einmitt norn á ítölsku. Það var þó ekki fyrr en árið 1951 sem galdraiðkendur stigu fram í dagsljósið. Það var þá sem Bretar fylgdu öðrum Evrópulöndum eftir og afnumu síðustu lögin sem bönnuðu galdra. Á þessum skynsemistímum þóttu slík lög ekki nauðsynleg. En þá kom fram á sjónarsviðið áhugamannfræðingurinn og teræktandinn Gerald Brousseau Gardner sem sagðist tala fyrir hönd nokkurra sveima enskra norna sem iðkuðu heiðin trúarbrögð frá því allt aftur á steinöld. Kallaðist sú náttúrutrú nafninu Wicca og er í raun endurvakning á þeim fornu trúarbrögðum sem talið er að hafi verið ástunduð á steinöld.

Heiðin trúarbrögð áttu sér skjól hjá náttúruverndarsinnum og femínistum. Náttúruverndarsinnar áttu margt sameiginlegt með gömlu hefðunum sem einnig fannst náttúran heilög og sáu aðalgyðjuna fyrir sér sem móður náttúru. Femínistar sáu nornina sem átrúnaðargoð og tákn um sjálfstæða og sterka konu og hina einu Gyðju sem tákn um innri styrk kvenna og virðingu.

Upp úr 1960 fóru að koma fram fleiri nornir utan hefðar Gardners. Sumar stunduðu þjóðlega galdra og heilun og voru ekki hluti af neinum heiðnum hefðum en aðrar voru meðlimir í heiðnum trúfélögum og enn aðrar fylgdu aðeins öðruvísi heiðnum galdrahefðnum en Gardner. Í dag eru mörg samfélög og trúfélög heiðinna um heim allan og algengastir eru Ásatrúarmenn og Drúídar þó fylgjendum Wicca fari hraðast fjölgandi í dag og eru iðkendur þess nú þegar fleiri tugir þúsunda í Bandaríkjunum einum.