Það er hins vegar verra þegar fólk fer að halda þessu fram sem óneitanlegri staðreynd (og já, það er til fólk sem að gerir slíkt). Sumir gerast jafnvel svó ósvífnir að halda því fram, að neiti maður þessu sé maður bara fífl og asni. Augljóslega þjóna slíkar fullyrðingar þeim eina tilgangi að grafa undan þeirra eigin málstað, því skynsamt fólk forðast slíkar svívirðingar og reynir fremur að færa góð rök fyrir máli sínu.
En hvers vegna að trúa því að við fáum fleira en eitt líf? Hvaða hvatir og hvaða rök liggja að baki?
Fyrst ber að nefna löngunina til að fá að hitta forna ástvini á ný. Hver hefur ekki lent í því að missa kærkominn vin eða nána vinkonu, afa eða ömmu, föður eða móður? Hver gerir sér ekki grein fyrir því að allir deyja, og jafnvel að maður mun sjálfur deyja á undan mörgum af sínum nánustu.
Í öðru lagi nefnum við upplifanir fólks - upplifanir sem ekki verða svo hæglega útskýrðar með þeim vísindum sem við þekkjum til og eru almennt viðurkennd.
Ég viðurkenni að ég kem ekki auga á fleiri ástæður sem geta legið að baki trúnni á framhaldslíf, og mér finnast þær engan veginn fullnægjandi. Þótt að mann langi til að eitthvað sé tilfellið, þá er ekki þar með sagt að svo sé. Þótt mig langi vissulega til þess að þurfa ekki að vinna framar - mig langar til að vakna og vita að það sé ekki nauðsynlegt að fara í vinnuna - þá er það augljóslega ekki tilfellið.
Seinni atriðið virðist þó vera þess eðlis að því beri að gefa meiri gaum. Miðlar er fólk sem kveðst hafa samband við sálir hinna framliðnu og miðlar skilaboðum frá Hadesarheimi til okkar líkamsföstu jarðarbúa. Ef við göngum að því sem gefnu að miðlar þessir ljúgi ekki þegar þeir segjast vera í sambandi við hina dauði (eða ekki-alveg-dauðu), hvað þá? Er þá ekki ljóst að við munum öll halda til betri heims þá er við deyjum?
Nei. Í fyrsta lagi er það ekki tryggt að miðlar séu í raun og veru í sambandi, þótt þeir telji vissulega að svo sé. Sjái ég bleikan fíl eftir hörkufyllerí, þá segi ég vissulega satt og rétt frá er ég segist sjá bleikan fíl. Það er ekki þar með sagt að hann sé til í neinum eiginlegum skilningi. Í öðru lagi, þá er það alls ekki sjálfsagt að þó að a.m.k. einn einstaklingur hafi fengið “aukalíf” að allir fái það.
Þykist ég hér hafa skýrt mál mitt sæmilega vel.
All we need is just a little patience.