Ég held að það sé hvorki hægt að sanna né afsanna það hvort miðlar séu svikahrappar eða nái í raun sambandi við einhvern heim fyrir handan. Kannski verður það hægt í framtíðinni með einhverri nýrri tækni, hver veit. Það eina sem er í raun hægt að gera er að skoða staðreyndir málsins og mynda skoðun út frá því. Gallinn er bara sá að þessi skoðun byggir á sannfæringu þannig að það skiptir engu máli hvað einhver segir sannfæringin er óhagganleg. Þetta er ekkert ósvipað trú.
Mína sannfæringu byggi ég á eftirfarandi rökum:
1. Það er vitað að fólk hefur notað drauga, framtíðaspá, miðla, himin og helvít (svo eitthvað sé nefnt) í gegnum tíðina til þess að svíkja peninga út úr fólki. Svona hlutir eru að margra mati spennandi sem gerir það fólk að auðveldri bráð einhvers sannfærandi svikahrapps.
2. Fólk er tilbúið að trúa flestu því sem er sagt um það á meðan umsögnin er jákvæð. Í kringum 1950 lagði kennari nokkur verkefni fyrir nemendur sína og bað þá um að skrifa niður nokkur lykilatriði um áhugamál, vonir, hvatir og þess háttar. Kennarinn, hét eða heitir Forer, lofaði nemendunum að hann myndi skila þeim nokkuð nákvæmri lýsingu á persónuleika þeirra byggt á atriðunum í verkefninu. Forer bað þau um að hald lýsingunni fyrir sig og gefa henni eikunn á skalanum 1 - 5, 5 væri þá nákvæm lýsing á persónuleika nemandans. Meðaltal var 4,3. Við nánari athugun komust nemendur að því að það sama stóð hjá öllum. Forer hafði farið út á næsta blaðasölustand og keypt sér bók með stjörnuspám. Hann valdi það besta og skilaði því. Þetta fyrirbrigði heitir Barnum effect og er þekkt innan sálfræðinnar.
3. Minni er mjög brigðult. Sagan sem amman (með fullri virðingu) er að segja barnabarninu sínu er líklegast mjög fjarri því sem gerðist í raun og veru. Amman er samt ekkert að ljúga, hún bara man hlutina á þennan eða hinn háttinn. Til eru ótal margar hóprannsóknir sem hafa verið gerðar á fólki sem hefur lent í einhverju áhrifamiklu. Niðurstöður þeirra eru gjarnan á þann veg að fólk segist muna hlutina með 100% vissu en samt eru frásagnirnar mismunandi. Þetta segir mér að það sé möguleiki að fólk muni hlutina einfaldlega vitlaust og að þessar minningar um drauga geta vel fallið í þann flokk.
4. Þrátt fyrir það að fólk sé margbreytilegt erum við mörg eins inni við beinið. Þeir sem hafa horft á þáttinn Mind Control með Darren Brown hafa séð hvernig hægt er að nota líkamslestur og tölfræði til þess að spá fyrir um hegðun fólks. Ég held að miðlar séu mjög góðir í þessum fræðum, stundum án þess að gera sér grein fyrir því. Þeir eru kannski búnir að vera með hundruðir manna hjá sér og þessi reynsla safnast saman. Þeirra sannfæring segir þeim að þeir séu að ná sambandi við anda eða drauga á meðan þeir eru hugsanlega að lesa úr líkamstjáningu.
Þetta er svona um það bil það sem mér finnst, ég gæti samt verið að gleyma einhverju (minnið brigðult eftir allt saman :). Ég vill samt taka það fram að ég er ekki að neita því að miðlar séu réttmætir, mér finnst bara flest rök benda í hina áttina.