Guð minn almáttugur. Ég skelf. ég er hreint út sagt ótrúlega ráðavilltur og ringlaður. Spurning hvort minns fari nokkuð að sofa í nótt þótt að vinnan bíði í fyrramálið með sína ellefu tíma vakt. Þetta byrjaði allt með því að þegar ég fór fyrr í kvöld að skila bók á bókasafninu um fræðsluaflið Mikael, sem er einhvert svona nýaldarrugl, ákvað ég að finna fleiri bækur af sama meiði til þess að fræðast meira um þennan spirtismageira sem virðist vera að kollríða öllu undanfarið. Af hverju? Ég veit það ekki. Ekki nema bara það að sagt er að maður eigi að þekkja sjálfan sig. Og þekkja óvin sinn. Og svo framvegis. Þekking er ágætt. Ef maður ætlar að taka einhvera meðvitaða afstöðu til einhvers er þekking nauðsynleg.
Þótt að dulspeki bransi taki ansi freklega sinn toll í hillum bókasafnsins með hvorki meira né minna en þrefalt hillupláss á við heimspekina virtist kenna fárra grasa af þeim bókum sem fjölluðu beint út og opinskátt um hvað fyrirbærið Ný öld sé. Þrátt fyrir það þá rambaði ég á lítið bókarkorn sem bar nafnið Leyndardómar Nýaldar og af kápunni að dæma virtist innihalda ýmsar hlutlausar upplýsingar út á hvað allt þetta gengi. Svo ég fékk bókina lánaða, hélt heim á leið og sökkti mér í lesturinn. Bókin fer rólega af stað og kynnir fyrir manni lauslega hvernig nýaldarheimurinn liti út sem sakir standa, skipulag og tilgangur. Áhugavert í sjálfu sér. Eitthvað þótti mér þó rödd sögumannsins, þanns sem talar, eitthvað undarleg,eins og viðhorf hans væri bælt og dularfullt, og ekki alveg á hreinu. Hvert var hann eiginlega að fara blessaður maðurinn?
Svo ég tek mér smá leshlé og fletti fram á saurblað til þess að athuga hver rithöfundur sé. Þá fyrst renna á mig tvær grímur. Ekki það að nafnið hafi komið eitthvað kunnulega fyrir sjónir heldur sá ég að bókin var gefin út af bókarútgáfu sjöundadags aðventista eða hvað þeir nú heita þessir bókstafstrúarmenn. Með fylgdi listi áðurútgefna bóka bókaútgáfunnar og stakk Leyndardómar Nýaldar óneitanlega dálítið í augun innan um titla eins og Ræktið sambandið við Jesú eða eitthvað svoleiðis og fleiri í þeim dúr.
Þvílíkt áróðurrit! Ó guð minn góður, ég er feginn að ég skuli því miður ekki hafa neina ástæðu til þess að þú, drottin hebrea, múslima og kristsdýrkenda, sért í raun og veru til því að aldrei vildi ég vera undir sama hatt settur og þá sem sá sem skrifaði undir áróðursritið tleur sig tilheyra.
Reyndar hafði blessaður garmurinn margt til síns mál varðandi nýaldarvitleysinganna, loddaraskapinn og örvæntingarfulla skyndi-sannleiks-pakkanna sem þar á bæ því miður þrífst. Hversu ósamræmdir eru þessir bjánar oft ekki, stígandi á hvers annars tær, zigzagandi á milli andstæðra póla eins og saumavélar. Samt verður að viðurkennast að ég, sem lítttrúuð manneskja í ákafri sannleiksleit, leitandi þá að einhverjum betri, já hentugri, trúverðugri andlegri sanninda til þess að fylla upp í það gap sem amma mínir fóðrar með Biblíunni, hneigist oftar en ekki dálítið í átt til austrænnar speki (sem ég sé ekki af hverju ætti að vera eitthvað verri gjalda verð en sú vestræna, “Abrahamíska”) ásamt klassíkri kenndir heimspeki,perónulegs-guðsskertri með meiru. Þar sem ég hef verið að dufla eitthvað við jógaspeki og viðhorfum sem höfða mjög til mín.
Þess vegna fannst mér það taka út fyrir allan þjófabálk þegar K.R. Wade (ákvað að fletta nafnið upp aftur til þess að geta brúkað það við þetta tækifæri) gerist æ háværari um skoðanir sínar og stallsystkina sinna og byrjar fyrir miðrir bók að segja álit sitt hreint út: að allt þetta nýaldarpakk, jóga, heilun, andatrú og hvað það nú allt heitir, sé sama tópakið, og ekki bara það heldur hvorki meira né minna en tópak djöfulsins, ef ekki bara djöfullinn sjálfur, Lúsífer, stundum nefndur Satan. Og að nýöldin umtalað sé að hans mati því miður raunveruleg, óhugnarlega raunveruleg, svo raunveruleg að hún sé í rauninni sá raunverulegi atburður Harmageddon sem ónafngreindum höfundi Biblíunnar er svo tíðrætt um. Og blekkingartal nýaldarsinna (og annarra hófsamra fiktara (eins og ég)) sé hreint út sagt einfaldlega samkynja rómi nöðru þeirra sem narraði frægasta par sögunnar til þess að eta eitt einasta epli. Sem samkvæmt honum vini mínum Wade er einfaldlega hlutgervingur nýaldarhyggjunar, eplið sem átti að boða afneitun guðs, vitneksjun, þekkingu á okkur sjálfum, já ef ekki bara guð í sjálfum okkur og ódauðleika, eins og flestar þessar -hyggjur boða okkur ( guðdómlegt eðli sjálfsins og endurholdgunarkenningin).
Hjálpi mér hamingjan. Mér var bylt við. Þetta kom svo sannarlega við kauninn á mér. Hafði ég verið blekktur af satani sjálfum til þess að sjá ekki guð, trúa á voða og vaða í villu. Reyndar væri það ekki svo slæmt í sjálfu sér. Það skelfilegasta er það að fá ekki að vita! Því það er ekki nokkur leið að afsanna svona staðhæfingar. Sama hvað rök sem maður gæti örvæntingarfullur reynt að grípa til, hvað sannanna eða viðfangsflata, þetta gæti allt svo sem verið blekking djöfulsins til þess sem er fyrirfram glataður (mig). Því að ef þessi raunveruleiki sem þetta fólk býr við, undir árvökulu, almáttugu auga drottins er sá sanni þá er maður einfaldlega í djúpum skít.
Frekar ósmekklegt þótti mér þegar aðventistinn, eftir samlíkingu nýaldardjöfla við nasista þriðjaríksisns, sem nasista þess fjórða og einkar áhrifamikla dæmisögu um flugslys á flugsýningu í Vestur Þýskalandi fyrir fall múrsins, hefur að freista mann til þess að selja drottinn sálu manns eftir prédikuna um eld og eimyrju. Sama gamla sagan. Ályktun Pascals, líkindafræðings, um það að maður hefði ekkert að vinna en öllu að tapa við það að afneita guðia náði einhvernveginn að smeygja sér þarna inn eins og allvanalegt er þegar áróðurinn nær þessu stigi.
Jæja, ég er nú einu sinni mannlegur og ekki var laust við að þessi reiðarlestur hefði einhver áhrif á mig, annað hefði verið stórbilað. Ég drallaðist líka til þess að taka upp gjörsamlega ónotaða Biblíuna mína (fyrir utan fyrsta og síðasta kafla hennar) og byrjaði að fletta upp þeim tuga tilvitnanna sem hraut af vörum þessa stóryrta manns til þess að kynnast þeim í samhengi og leita mér þekkingar, eins og ég geri gjarnan þegar ég veit ekki hvað annað ég á að gera (svona nokkurnvegin pínulítið að stelast til þess að bragða á tréi skilningar).
Brátt leið mér eins og Keanu Reeves í Devil's Advocat, fór að sjá dímona í hverju horni, fann fyrir því hvernig þeir læddust aftan að mér, mjög svo áþreifanlegir, og læddu að mér allskins ranghugmyndum og ósóma. Því þessir föllnu englar eru næstum mannlegir og ég og þú (samkvæmt K.R. Wade og Biblíunni) fyrir utan það að þeir eru hálfósýnilegir, eilífir, ódrepandi, hugsanalesarar, með óbrigðult minni og snillingar í því áð stjórna fólki af veginum rétta.
Ég var minna en þumlungi frá því að ganga í klaustur.
En því miður, ég er bara mannlegur, ég er bara ég. Fyrr en varir fór gamalkunnur hugsanarháttur aftur að láta á sér kræla. Heimspekileg afstaðan til tilverunnar er síður en svo hægt að losa sig við bara eins og svona. Ég gæti dáið þegar ég hugsa til þess að stóísk yfirvegun virðist hafa orðið ofan á. Þ.e. ég, í raun og sann, sé ekki hvað allt þetta skiptir máli.
Ég sá ekki hvað þetta skiptir máli. Já, ég er tilbúinn til þess að tapa öllu. Ég er tilbúinn til þess að brenna í helvíti til eilífðarnóns. Ég sé ekki hverju það ætti að skipta máli. Ég er nú nefnilega, þegar öllu er á botnin hvolft, aðeins maður og þar af leiðandi ekki sjálfráður gerða minna. Og af hverju ætti mér að finnast logar helvíti eitthvað ókræsilegri en dúnmjúk ský himnaríkis sem mér eru föl undir kostnarverð (að sögn). Hverju breytir það þegar á botni er hvolft. Hvað ákveður hvað mér á finnast um hitt og þetta og líða um þetta og hitt. Hef ég í raun og veru einhverju að tapa? Tapa ég einhverju við það að tapa öllu? Og hvað í andskotanum gengur þessum ófinnalega guði eiginlega til?
Nei, því miður, mér sýnist ekki betur en að þetta falli allt um sjálft sig að lokum, þó að vissulega gæti verið um þessi venjulegu ósannindi frá einhverjum illkvittnum anda enn eina ferðina.
Reyndar verð ég að biðja ykkur um í lokin öllsömul að hafa þau formerkin á, að öll þessi skrif, hver einasti stafur eftir að blekið þornar, gæti verið þessi vanalega blekking hins fallna eyðimerkuranda, en ég sé ekki betur en að það sé staðreynd sem við veðrum að lifa við og grillast öll á sama teininum í óendalegum loga helvítist með bros á vör þegar á reynir að lokum.

Lifið heil
http:/easy.go.is/staralfu