Þessi grein er unnin upp úr tveimur pistlum sem ég skrifaði og birtust í Pressunni í febrúar árið 1994. Pistlarnir voru leiðbeiningar í vúdúgaldri og allar upplýsingar voru fengnar úr bókinni Lucky Hoodoo eftir Michael Bertaiux. Ég vil taka það skýrt fram að ég stunda ekki vúdú sjálfur og hef enga hugmynd um hvort eftirfarandi aðferð virkar; ég ber því ekki ábyrgð á þeim afleiðingum sem kunna að verða þar af. Hins vegar fullyrði ég að það sem hér er sagt frá er fyllilega samkvæmt því sem a.m.k. ein vúdúregla, La Couleuvre Noire (Svarti snákurinn), ástundar, og er umrædd aðferð undirstaða þess galdurs sem þar er kenndur.
Ef fólk vill fá nánari upplýsingar, þá vinsamlegast ekki hafa samband við mig; LCN er með heimasíðu á http://www.techniciansofthesacred.com. Núverandi stjórnandi LCN heitir Courtney Willis og er hægt að skrifa honum.
Hér byrjar svo greinin:
Eins og sagt var frá í pistlinum “Laugardagsbaróninn og Litli-Jón-Zombí” gaf félagsráðgjafinn og vúdú-biskupinn Michael Bertiaux út kennslubók í vúdú-töfrabrögðum. Bókin nefnist Lucky Hoodoo og kom út árið 1977.
Hoodoo, eða húdú, er ekki það sama og vúdú, sem er trúarbrögð ættuð frá Haiti. Húdú er samnefnari fyrir allskonar praktíska galdra er stundaðir eru á þeim svæðum sem vúdú er iðkað, en maður þarf samt ekki að vera vúdútrúar til að fremja húdú. Heimsmynd vúdútrúarinnar og þeirra sem stunda húdúgaldra virðist þó vera mjög svipuð.
Allskonar andar koma við sögu í Lucky Hoodoo, og eru þeir flokkaðir í tvo hópa. Annarsvegar eru það andar hafsins, hinsvegar andar jarðarinnar. Samkvæmt fornri heimsmynd skiptist heimurinn í fjóra frumkrafta, jörð, vatn, loft og eld, og í Lucky Hoodoo er reynt að virkja þá fyrstu tvo. Bertiaux telur að ávallt þurfi jörð og vatn í “veraldlegum” eða “praktískum” galdri; þessi tvö frumefni eru undirstaða alls vaxtar (auðvitað eru frumefnin fleiri en fjögur, höfuðskepnurnar sem hér eru til umræðu eru fyrst og fremst táknrænar).
Vúdú athöfninni sem ég ætla nú að lýsa er til innvígslu í fræðin. Til að byrja með verður að loka sig af inn í herbergi þar sem ekkert ónæði er, og helst má ekki vera mikill hávaði fyrir utan. Best er að gera þessa athöfn þegar að skyggja tekur, og ekki mega vera nein ljós inn í herberginu þegar athöfnin hefst.
Fyrst er sest við borð þannig að horft er í austur. Á borðinu eru tvö kerti og glas fyllt af vatni. Annað kertið er svart og er haft við norður-brún borðsins. Hitt kertið er blátt og stendur við vestur-endann. Í suðri er vatnsglasið, en vatnið gefur frá sér kraft sem andarnir nota til að nálgast okkur. Svarta kertið táknar jörðina, en bláa kertið mátt vatnsins. Eins og áður sagði eru þessir tveir kraftar nauðsynlegir, því samkvæmt húdú fræðunum fæðast allir hlutir í vatni, en þurfa jörð til að verða sýnilegir. Að sama skapi er innvígsluathöfnin táknræn fæðing inn í galdrana, og til þess gerð að maður verði sýnilegur öndunum, ef svo má að orði komast.
Áður en lengra er haldið verður að geta þess að markviss beiting myndunaraflsins er lykilatriði í öllum göldrum. Það er vegna þess að tungumál undirmeðvitundarinnar samanstendur af myndlíkingum, sem er ástæðan fyrir því af hverju draumar eru táknrænir. Sumir draunar eru leið undirmeðvitundarinnar til að ná athygli okkar, og sömuleiðis þarf maður að dreyma fyrirfram ákveðinn vökudraum til að virkja undirmeðvitundina. Undirmeðvitundin er hliðið inn í astralheiminn, og þar eru kraftarnir, andar og þess háttar sem vúdúgaldur miðast við að ná tengslum við.
Til að byrja með kveikirðu á svarta kertinu og segir: “Ó ljós, það er ekkert myrkur í krafti hinna látnu”. Um leið ímyndarðu þér að andar jarðarinnar ganga inn í herbergið til þín. Þeir líta út eins og beinagrindur í búningi útfararstjóra, eru með pípuhatta og sólgleraugu. Sumir þeirra reykja vindla.
Næst kveikirðu á bláa kertinu og segir: “Ó ljós, ég er barn ljóssins sem tilheyrir hinum mikla meistara undir hafinu”. Þá ímyndarðu þér að í hópinn bætist risastórir froskar, snákar og fiskar. Þessar verur tákna vatnskraftinn og samkvæmt Bertiaux eru þetta framliðnar sálir galdramanna sem eitt sinn lifðu og störfuðu á hinu forna Atlantis.
Nú snertirðu vatnsglasið með hægri hendi og segir: “Þú miðill hinna heilögu anda vatnsins undir heiminum! Heilögu andar hafsins og hinna látnu; ég er hér til að þjóna ykkur” (Þessi þjónusta felst í því að gefa öndunum okkar eigin orku, eins og síðar verður vikið að). Síðan segirðu eftirfarandi: “Ég helga sjálfan mig þjónustu við andana; við anda hinna framliðnu sem leitast við að hjálpa mér, og við anda hinna vitru töframanna frá hafsbotni, sem birtast á svo sérstæðan hátt. Ég bið um aðstoð og nærvist húdú-andanna og kalla á þessar verur til að hjálpa mér. Ég býð sjálfan mig fram til þjónustu við hinn mikla konung hinna látnu. Einnig býð ég mig fram til þjónustu við hinn mikla meistara allra ósýnilegra seiðmanna sem starfa undir hafinu. Ég virði alla anda, og sérstaklega þá sem tilheyra húdú galdrakerfinu. Eftir þeirra samvinnu sækist ég sérstaklega, nú og um alla eilífð!”
Eftir að þetta hefur verið sagt lokarðu augunum og hugsar um verurnar sem þú hefur ákallað. Hugleiddu þær nokkra stund, en síðan tekurðu vatnsglasið og drekkur allt vatnið sem í því er. Að þessu loknu slekkurðu á bláa kertinu og að endingu á því svarta. Vígsluathöfninni er lokið.
Næsta athöfn er flóknari, en þar eru andarnir beðnir um greiða og er þetta “praktískur galdur”. Nú verða kertin að vera fimm talsins og eiga þau að vera í jafn mörgum litum. Þessir litir eru svartur, gulur, rauður, grænn og blár. Aftur þarftu að vera ein(n) í herbergi að kvöldi til og láta sem minnst trufla þig. Þú situr við borð og horfir í austur sem fyrr, en kertunum hefur verið raðað á annan hátt en síðast. Á norður enda borðsins er gula kertið, í vestri það bláa, í suðri hið græna og loks rauða kertið í austri. Hvert kerti táknar einn af náttúrukröftunum fjórum, jörð, vatn, loft og eld. Hér er jörðin gul (litur kornsins), vatnið blátt, loftið grænt(skógarnir tákna loftið) og eldurinn rauður. Í miðjunni er svarta kertið, sem táknar andana. Á milli svarta og bláa kertisins er glas með vatni í. Á milli svarta og rauða kertisins er blað; og á það áttu að hafa skrifað hvað það er sem þú vilt frá öndunum. Þannig hefur kertunum, ásamt bréfmiðanum og vatnsglasinu verið raðað í kross, en krossmarkið er afar mikilvægt í vúdúgöldrum. Krossinn er miklu eldra en kristnin og vísar hér til krossgatna þar sem vegir andanna og mannfólksins mætast.
Í upphafi á að vera myrkur í herberginu þar sem þú situr, að öllum líkindum nötrandi af ótta. Einmitt þess vegna er gott að ákalla fyrst fjóra vúdú guði sem munu vernda þig. Þú kveikir á gula kertinu í norðri og segir: “Ghuédhé (borið fram ”Geidei“), komdu og verndaðu mig!” Ghuédhé er nokkurskonar kirkjugarðsguð og er “konungur hinna látnu” samkvæmt heimsmynd vúdútrúarinnar. Kirkjugarðurinn er tákn jarðarkraftsins. Næst kveikirðu á bláa kertinu í vestri og segir “Agwé! (frb.: ”Agvi“), komdu og verndaðu mig!”. Agwé er guð hafsins og er náskyldur norræna goðinu Ægi; en í vesturátt er máttur vatnsins. Græna kertið fylgir á eftir, en þá áttu að segja “Simbi, komdu og verndaðu mig!”(Ekki Simbi sjómaður). Simbi er einn af snákaguðunum og er mjög mikilvægur í öllum vúdú göldrum, en hann ríkir yfir orku loftsins. Rauða kertið lokar svo hringnum, en þegar þú kveikir á því kemur kraftur eldsins til sögunnar. Þá áttu að segja “Damballah, komdu og verndaðu mig!” (þeir sem hafa séð “Child´s Play” myndirnar um dúkkuna sem haldin er illum anda kannast örugglega við Damballah. Ljóti karlinn sem deyr og gengur aftur í brúðunni Chucky er nefnilega vondur galdramaður. Hann er svo vitlaus að hrópa á hjálp Damballah þegar hann ætlar að framkvæma einhver djöfulleg myrkraverk. En Damballah er einn góðhjartaðasti guð vúdútrúarinnar, svo það er ekkert skrýtið að það hafi farið illa fyrir þeim ljóta…).
Þegar þú hefur þannig beðið guðina að vernda þig kveikirðu á svarta kertinu og segir: “Ó, helgu húdú andar! Hlustið á mig og hjálpið mér!” Notaðu ímyndunaraflið og sjáðu fyrir þér húdú-andana koma inn í herbergið til þín, anda jarðar og hafs eins og þú gerðir í innvígsluathöfninni. Síðan snertirðu vatnsglasið og segir: “Ó vatn lífs og dauða! Heilögu andar hafsins og hinna framliðnu, ég er hér til að þjóna ykkur!” Því næst horfirðu á miðann á milli rauða kertisins og þess svarta á meðan þú segir: “Ó, ljós! Ég er í návist ljóssins endalausa. Kæru húdú andar, það sem ég vil er skrifað á miðann; gerið svo vel að hjálpa mér!”
Næst á dagskrá er að gefa öndunum orku, en það er einmitt þjónustan sem þú lofaðir þeim í innvígslunni. Á eyjunni Haiti er það venjulega gert með því að fórna lifandi kjúklingum. Fyrir íslenskan kjúklingabónda austur í afdal er það örugglega ekkert mál, en hinir ættu sennilega að sleppa því! Í staðinn er best að núa saman lófunum af alefli í u.þ.b. eina mínútu. Þegar þér er þannig orðið sjóðandi heitt réttirðu hendurnar beint fram svo að lófarnir vísa að borðinu. Nú á orkan að streyma út frá þér beint í fangið á öndunum, en þetta er sá kraftur sem þeir þurfa til að hafa áhrif á veraldlegt vafstur. Bíddu með hendurna svona í nokkra stund, en svo geturðu sett þær niður. Lokaðu þá augunum og ímyndaðu þér, að það sem þú ert að biðja andana um sé þegar orðið að veruleika. Þetta þarftu að gera af mikilli einbeitingu, og eins skýrt og þér er framast unnt. Gefðu þér líka góðan tíma í það, því þessi hugleiðsla er hápunktur athafnarinnar. Svo skaltu drekka vatnið, en því næst slekkurðu á kertunum. Það þarf að gera í sérstakri röð. Fyrst er það svarta kertið, síðan hið rauða, græna, bláa og loks það gula. Að endingu klapparðu saman lófunum einu sinni, en það er gert til að slíta sambandinu við andana.
Að lokum tekurðu blaðið sem þú skrifaðir á bón þína til andanna, brýtur það saman og geymir á þér. Hugsaðu um tilgang galdursins í nokkrar mínútur á hverjum degi og ímyndaðu þér þá að ósk þín hafi þegar ræst.
(HEIMILDIR: Michael Bertiaux: THE VOUDOUN GNOSTIC WORKBOOK [Lucky Hoodoo, sem fyrst kom út árið 1977, varð síðar fyrsti kafli The Voudoun Gnostic Workbook, en hún kom út árið 1988]; Kenneth Grant: CULTS OF THE SHADOW; Kenneth Grant: THE NIGHTSIDE OF EDEN; Kenneth Grant: HECATE’S FOUNTAIN)