Eftir Jónas Sen

Í kjölfar hryðjuverkaárásarinnar á Bandaríkin voru spádómar Nostradamusar enn og aftur vaktir til lífsins, og einn þeirra var sendur í tölvupósti á milli fólks í nokkrum útgáfum. Þetta var vers sem augljóslega sagði fyrir um árásina, og í leiðinni um upphaf þriðju heimstyrjaldarinnar. En versið var á skáldlegu máli, og í grein í Mogganum nokkru síðar var sýnt fram á að um hefði verið að ræða afar frjálslega þýðingu á einhverju sem gat verið um nánast hvað sem var.

Þetta er svo sem ekki í fyrsta sinn sem spádómar eru látnir rætast eftir á. Nostradamus er konungur slíkra spádóma, því hann á að hafa sagt fyrir um veldi Hitlers, kjarnorkuárásina á Hiroshima og allt mögulegt annað. Þeir sem lifa í stöðugum ótta við heimsendi virðast vera mjög hrifnir af Nostradamusi, og segja venjulega ef eitthvað ægilegt gerist: “Nostradamus var búinn að spá þessu”.

Nostradamus var uppi á sextándu öld og var undir verndarvæng frönsku konungsfjölskyldunnar, sem hafði á honum miklar mætur. Elísabetu Englandsdrottningu var hinsvegar illa við hann, því hann var stöðugt að spá henni allskonar ógæfu, sem þó aldrei rættist. Margir af spádómum Nostradamusar eru í rauninni duldar stjórnmálaskýringar og gagnrýni á Kaþólsku kirkjuna, sem á þessum tíma var önnum kafin við að brenna trúvillinga á báli. Hann var sjálfur í hættu, enda Lúterstrúar á laun, og því þurfti hann að dulbúa skrif sín með allskonar skáldlegum líkingum sem auðvelt er að misskilja.

Sumt sem Nostradamus skrifaði var þó í alvörunni spádómar, og hugsanlega er eitt og annað sem raunverulega hefur komið fram. Óneitanlega rætast spádómar stundum, frægt er t.d. þegar völva Vikunnar spáði fyrir um gosið í Heimaey árið 1973. Síðan þá hefur blaðið skartað völvuspá um hver áramót, og um leið hefur verið farið yfir véfrétt síðasta árs og talið upp allt sem völvan hefur réttilega séð fyrir. Aðrir fjölmiðlar fjalla líka yfirleitt um það ef einhver reynist sannspár; en ekki þykir eins fréttnæmt ef fólki bregst bogalistin. Vikan sleppir því venjulega að minnast á þá spádóma sem ekki koma fram, og er hún ekki ein um það. Spákonan Jeane Dixon varð fræg fyrir að hafa spáð morðinu á John F. Kennedy, en færri muna eftir því að hún sagði líka að halastjarna myndi tortíma jörðinni í kringum árið 1985. Enda sýndu fjölmiðlar þessari glámskyggni hennar lítinn áhuga og hefur það viljað brenna við í svipuðum tilfellum.

Flestir sem farið hafa til spákonu þekkja svona hlutdrægni. Maður man spádómana sem koma fram en gleymir oftar þeim sem ekki rætast. Því ætti eftirtalin upptalning að vera holl þeim sem trúa spádómum í blindni. Þar eru nefnilega rifjaðir upp nokkrir frægir heimsendaspádómar sem ekki rættust.

31. desember 999: Ef taka á mark á hinum svonefndu Apókrýfubókum, sem eru 14 biblíurit varðveitt í hinni grísku þýðingu Gamla testamentisins, og eru viðurkennd af rómverskum kaþólikkum, en ekki af Gyðingum né mótmælendum, átti hinn efsti dagur að verða eitt þúsund árum eftir Krists burð. Margir trúðu þessu, og því greip um sig mikil skelfing þegar meintur dómsdagur rann upp, hinn 31. desember árið 999. En er hann var að kvöldi kominn og ekkert hafði borið til tíðinda báðust fræðimenn afsökunar og sögðu að hér væri greinilega einhver misskilningur á ferðinni. Auðvitað yrði heimsendir árið 1033 en ekki árið 999; það hefði nefnilega átt að bæta þúsund árum við DAUÐA Krists en ekki fæðingardag hans.

1 febrúar 1524: Breskir stjörnuspekingar spáðu því í júni árið 1523 að heimsendir myndi hefjast í London með miklum flóðum þann 1. febrúar árið 1524. Skömmu fyrir endalok alls flýðu um tuttugu þúsumd manns heimili sín, og príorinn af St. Bartholomew lét reisa virki og fylla það af mat. Þegar svo dagurinn langþráði rann upp og það rigndi ekki einu sinni, fóru stjörnuspekingarnir aftur yfir útreikningana og komust að því að þeim hafði óvart skeikað um hundrað ár. Heimsendir hefði átt að verða 1624 en ekki 1524, svo nú var spádómnum breytt í 1 febrúar 1624. En þann dag kom ekki heldur deigur dropi úr lofti.

1874: Söfnuðurinn Vottar Jehóva var stofnaður árið 1872. Upphafsmaður hans hét Charles Taze Russell (1852-1916) og spáði hann heimsendi tveimur árum síðar, eða árið 1874. Til gamans má geta þess að fyrir utan það að lesa Biblíuna dag og nótt var þessi forfaðir Vottanna líka á kafi í pýramídafræðum. Pýramídafræðin ganga út á það að rannsaka hlutföll innan Pýramídans mikla í Giza í Egyptalandi, því þau séu táknmál sem segi sögu mannkynsins frá upphafi vega til endaloka alls. Þannig sé hægt að segja til um framtíðina og sjá hvað muni gerast, og hvenær. Þessu trúði Russell, og finnst Vottunum það hálfvandræðalegt í dag, enda pýramídafræðin argasta heiðni.

1914: Þegar heimurinn var enn á sínum stað í ársbyrjun 1875 gaf Charles Taze Russell mannkyninu frest og breytti spádómi sínum í árið 1914. Reyndar skall fyrri heimsstyrjöldin á það ár, en hún varð þó ekki heiminum að aldurtila. Og það varð til þess að margir gengu úr söfnuðinum fullir vonbrigða.

1936: Pýramídasérfræðingar spáðu því að allt færi á annan endann árið 1936. Þetta byggðu þeir á hárnákvæmum, vísindalegum útreikningum. Allt kom þó fyrir ekki, og var spádómnum þá breytt í 1953.

1947: Maður að nafni John Ballou Newbrough var á síðari hluta nítjándu aldar talinn af mörgum einn mesti spámaður Bandaríkjanna. Sagt var að oft hefði hann reynst sannspár, og vakti það því töluverða athygli er hann tilkynnti árið 1889 að hann sæi fyrir fall allra ríkisstjórna og trúarbragða. Þetta ætti að gerast árið 1947; milljónir manna myndu þá farast og lönd eyðast.

1962: Indverjar spáðu heimsendi árið 1962. Þeir hittu næstum því naglann á höfuðið, Kúbudeilan var í október það ár, og ekki munaði miklu að allt færi í bál og brand á milli Bandaríkjamanna og Rússa.

1975: Þegar Vottar Jehóva rönkuðu við sér eftir heimsendinn árið 1914 breyttu þeir spádómnum eina ferðina enn, og nú í árið 1975. Samt gerðist ekkert það árið, en Vottarnir voru þó ekki af baki dottnir. Enn halda þeir áfram að spá heimsendi og ganga í hús eftir hús í von um að sem flestir gjöri iðrun og verði hólpnir í eilífðarríkinu eftir að öll ósköpin ganga yfir. Þeir hafa þó lært af reynslunni og eru hættir að nefna ákveðin ártöl í þessu sambandi. En skiljanlega hafa margir þeirra áttað sig á því að það hlýtur að vera eitthvað bogið við söfnuð sem alltaf er að spá einhverri vitleysu. Svo margir hafa sagt skilið við Vottana, og hefur verið stofnaður sérstakur stuðningshópur fyrir fyrrverandi safnaðarmeðlimi. Nefnist hann Vottar Jesúm.

10. ágúst 1982: Einhverntímann á áttunda áratugnum birtist lítil klausa í Vísi um bandarískan spámann sem þótti merkilegur fyrir þær sakir að hafa séð fyrir morðið á Kennedy, rétt eins og Jeane Dixon, sem minnst var á í inngangi þessar greinar. Hann sagði að kjarnorkustyrjöld myndi skella á þann 10 ágúst 1982 og útrýma öllu lífi á jörðinni á hálftíma eða svo.

1985 - eða þar um bil: Eins og sagt var frá hér fyrir ofan, spáði Jeane Dixon því að halastjarna myndi leggja allt í rúst í kringum árið 1985. Þetta var árið 1970, og sagði Dixon að hún vissi nákvæmlega hvar halastjarnan myndi rekast á jörðina. Hún gaf það þó ekki upp og sagðist ætla að halda því leyndu “fyrst um sinn”. Menn eru nú orðnir nokkuð óþolinmóðir, enda hefur hún aldrei leyst frá skjóðunni. Annars hafa fleiri spádómar hennar heldur ekki ræst, hún spáði því t.d. að Ameríkanar myndu eignast sinn fyrsta kvenkynsforseta á níunda áratugnum. Og jafnvel dauði Kennedy þykir ekki merkilegur spádómur, því hann er bara gömul lumma, þó hann sé merkilegur í sjálfu sér. Er Kennedy var uppi höfðu nefnilega allir forsetar sem voru kosnir eða endurkjörnir á tuttugu ára millibili síðan árið 1840 látist í valdatíð sinni. Þetta var kallað forsetabölvunin eða forsetaálögin og byrjaði með William Henry Harrison. Kennedy var kjörinn til embættis árið 1960, og voru því margir búnir að spá honum illum örlögum. Var það loks Ronald gamli Reagan sem “leysti málið”, en hann var kosinn til forseta árið 1980. Má þá segja að álögunum hafi linnt; honum var að vísu sýnt tilræði, en hann lifði það af.

Júlí 1999: Nostradamus spáði einhverju ægilegu sem átti að gerast í júlí árið 1999. Hann sagði að þá myndi “hinn mikli konungur óttans koma frá himnum, og á undan og á eftir mun stríð geysa”. Þetta má sjálfsagt túlka á ýmsa vegu, en víst er að margir biðu með öndina í hálsinum allan júlímánuð þetta ár. Ekkert gerðist þó, nema jarðskjálftahrina um allan heim, sem var að vísu ekki fyrr en í ágúst. Einhverjir túlkuðu spádóminn reyndar sem fæðingu And-Krists, sem þýðir að nú er And-Kristur litli að byrja í leikskóla og er sjálfsagt voða, voða vondur. Ég er viss um að hann segir við fóstruna þegar hún neitar að gefa honum nammi: “Helvítis druslan þín!”

5. maí 2000: Stjörnuspekingar voru búnir að spá heimsendi þann 5. maí árið 2000. Þá var nefnilega risavaxin plánetusamstaða, og þyngdarafl allra þessara pláneta átti að verka á ísinn sem ku hafa verið að safnast upp á Suðurskautinu í gegnum tíðina, með þeim afleiðingum að jörðin átti að umpólast. Menn gleymdu hinsvegar að taka það með í reikninginn að pláneturnar voru allar vitlausu megin við sólina og því ófærar að hafa nokkur áhrif á jörðina.

Þorláksmessa 2012: Hér er gamall Mayaspádómur fyrir þá sem enn lifa í voninni. Jörðin mun farast á Þorláksmessu árið 2012. Góðu fréttirnar eru þær að maður þarf ekki að hafa áhyggjur af jólagjöfunum það árið. Eða hvað? Eru þessir spádómar sem hér hafa verið taldir upp ekki góð vísbending um að það sé lítið sem ekkert að marka þessa vitleysu?