Indriði Indriðason, einn merkasti miðill heims! Fyrir þá sem hafa áhuga að lesa um, án nokkurs vafa, einn merkasta
miðil heims að mati dulspekinga um allann heim.

Þetta gerði ég upphaflega sem útvarpsumfjöllun fyrir skólann
Þetta er löng lesning en fróðleikinn er þess virði!

Vessgú!


Indriði Indriðason miðill

Nú ætla ég að flytja stutt ágrip af Indriða Indriðasyni, miðli og
Tilraunafélaginu sem var stofnað utan um hann til að kanna dulræn
fyrirbrigði og hvor það væri líf eftir dauðann .

(Eftirfarandi umfjöllun er byggð á frásögn Brynjólfs Þorlákssonar í
ævisögu Indriða Indriðasonar “Indriði miðill” eftir Þórberg Þórðarson
og það sem hægt var að komast í af veraldarvefnum)

Tilraunafélagið
Upphaf að stofnun og tilgangur

Tilraunafélagið var stofnað í október árið 1905 af hópi manna, en undir
forystu Einars H. Kvarans. Stofnun félagsins er rakin til rannsókna
Einars og nokkurra félaga hans á sálrænum fyrirbærum. Félagið var
reyndar stofnað utan um Indriða Indriðason miðil, sem stjórnað var af
frænda Indriða, Konráði Gíslasyni, prófessor. Konráð var þá látinn og
stjórnaði tilraununum að handan.

Aðalástæða þess að félag var stofnað um rannsóknirnar var einkum
fjárhagslegs eðlis. Innheimt var inntökugjald 25 krónur og árleg
félagsgjöld 36 krónur, til greiðslu húsaleigu og launa Indriða. Ljóst
þótti að Indriði yrði að geta einbeitt sér að miðilsstarfinu af fullum
krafti, til þess að rannsóknarstarfið yrði marktækt.

Stjórn og félagsmenn

Samanlögð gjöld voru á þeim tíma álitin jöfn mánaðarlaunum
verkamanns. Er því ljóst að félagsmenn voru ekki neinir almúgamenn.
Félagsmenn voru reyndar helstu áhrifamenn landsins á þeim tíma.
Má þar nefna Björn Jónsson ritstjóra Ísafoldar og síðar ráðherra, séra
Haraldur Níelsson, Skúli Thoroddsen ritstjóri Þjóðviljans og
alþingismaður og Páll Einarsson síðar fyrsti borgarstjóri Reykjavíkur,
auk margra annarra áhrifamanna. Eins og algengt er með félagastarfsemi
þá tengdust flestir félagsmenn Tilraunafélagsins innbyrðis, annaðhvort
í gegnum pólitískt vafstur eða gegnum kunningja og frændfólk.

Stjórn félagsins var skipuð þannig: Einar H. Kvaran formaður, Björn
Jónsson varaformaður og Haraldur Níelsson ritari.

Kjarni félagsins var svokallaður “innri hringur” sem í voru virkir
félagsmenn. Voru sumir fundir einungis ætlaðir þessum hópi fólks. Í
innri hring voru, auk áðurnefndra þremenninga, Þuríður Níelsdóttir
systir Haraldar, Júlíus Ólafsson, Kristín Símonar, Jón G. Hjörleifsson
og fleiri. Virðist sem um 12 manns hafi verið í innri hring. Mjög var
eftirsótt að komast í þennan hóp, þar eð fundir voru fleiri og
fyrirbærin á fundunum sterkari.

Flestir munu félagsmenn hafa verið um 100 í kringum 1908 og var
algengt að um 70 manns sæktu almenna miðilsfundi.

Starfsemi félagsins

Félagið var í fyrstu til húsa í Vinaminni í Mjóstræti 3, en flutti um
síðar í leiguherbergi að Laugavegi 18. Var það af ýmsum kallað
“Draugafélagið” eða “Andatrúarfélagið”.

Eins og ljóst má vera, voru margir sem efuðust um trúverðugleika
þeirra fyrirbæra sem fram komu á fundum Tilraunafélagsins. Var
miðillinn, Indriði Indriði, ýmist kallaður mesti miðill heims eða
falsmiðill. Auðvelt var þó að hrekja allar slíkar efasemdarraddir.
Staðfest hefur verið af fundarmönnum að þau fyrirbrigði sem gerðust
voru svo margvísleg og fjölskrúðug að ekki væri á valdi eins manns að
kalla þau öll fram. Fyrir utan þá staðreynd að allan tímann sem
fyrirbrigðin gerðust, engdist miðillinn sundur og saman í stólnum og
ýmist stundi eða veinaði.

Þeir sem stóðu að rannsóknunum voru margir efasemdarmenn, sem
höfðu það að markmiði að draga fram í dagsljósið skýringar og
staðfestingar á lífi fyrir handan, eftir því sem unnt var. Fyrir fundi var
oft leitað á miðlinum, Indriða Indriðasyni og í herberginu. Markmið
þeirra sem stóðu að félagsskapnum var því ekki að sanna eitt eða neitt,
heldur einungis að leita skýringa og reyna að fá svör við spurningum.

Starfsemi félagsins var hætt að mestu vorið 1996, fram á haust.

Indriði Indriðason
Uppvaxtarár og ættir

Indriði Indriðason fæddist 12. október árið 1883. Hann var sonur
Indriða Indriðasonar bónda og hreppsstjóra á Ballará og víðar og
Guðrúnar Eggertsdóttur konu hans. Indriði yngri hafði lítinn áhuga á
bústörfum og hafði í hyggju að leggja stund á prentiðn. Hann bjó á
Ísafirði í byrjun aldarinnar og nam prentiðn, en fluttist síðar til
Reykjavíkur og starfaði sem nemi í Ísafoldarprentsmiðju. Frændi
Indriða var Indriði Einarsson, skáld.

Hæfileikar Indriða koma í ljós

Indriði var fyrsti íslenski miðilinn sem fékk markvissa þjálfun undir
leiðsögn Einars Hjörleifssonar Kvaran. Tilraunir með dulræna
hæfileika Indriða hófust vorið 1905 með því sem kallað var
“borðdans”, þ.e. hreyfingar á borði. Var nóg að Indriði kæmi að borði
til að valda hreyfingum þess.

Ósjálfráð skrift

Einnig var Indriði látinn skrifa “ósjálfráða skrift” sem gekk ágætlega.
Töldu Einar og fleiri sig fá margfaldar sannanir fyrir því, að Indriði
vissi ekkert um það efni sem hann skrifaði með þessum hætti. Efnið
þótti merkilegt og benda til þess að ósýnilegar verur stjórnuðu
pennanum. Ritaði Indriði oft langan texta í einu og mun hraðar en
honum var unnt með venjulegum hætti.

Vorið 1905 var Indriði sem oftar heima hjá Einari og var að skrifa
ósjálfráða skrift. Sá sem stýrði pennanum kvaðst vera látinn
útgerðarmaður úr Stykkishólmi. Vildi hann láta landa sína vita um
líðan sína og gerði nokkra grein fyrir lífi sínu hinum megin. Haraldur
Níelsson hafði vitað nokkur deili á manni þessum í lifanda lífi, m.a. um
skipaeign hans og nöfn skipanna. Spurði hann því um skipastólinn og
fékk svör. Ekki bar svörunum þó saman við það sem Haraldur taldi
sig vita. Þegar málið var hinsvegar athugað nánar var allt rétt sem
skrifað hafði verið niður, en Harald hafði misminnt. Þetta áleit
tilraunahópurinn mikilsverða sönnun, því Indriði kvaðst ekkert hafa
þekkt til útgerðarmannsins. Einar skýrði síðar frá þessu atviki í
fyrirlestri sem hann kallaði “Dularfull fyrirbrigði”.

Miðilsstörf

Kvöld nokkurt er Indriði heima hjá Einari Kvaran og er að skrifa
ósjálfrátt. Galsi var í Indriða og talaði hann með nokkurri léttúð um
þann sem stjórnaði pennanum. Var þá skrifað: “Þú skalt ekki spotta
mig.” Stuttu síðar var skrifað: “Nú skal Indriði falla í trance.” Indriði
var ekki á því og kvaðst ætla að fara heim. Þá var aftur skrifað: “Hann
skal.” Lét Indriði þá undan. Ljósið var nú slökkt, borð sett fyrir
framan sætið með kodda á og lítið borð hægra megin við hann með
pappír og blýant. Indriði lagði höfuðið fram á koddann og féll stuttu
síðar í miðilsástand í fyrsta sinn.

Haustið 1905 gerðist atburður sem átti eftir að verða kveikjan að
fyrstu alvarlegu spíritistarannsóknum á Íslandi. Indriði lá þá oft
veikur. Í veikindunum varð Indriði í nokkur skipti var við
gráskeggjaðan karl, sem var að snúast í kringum sig. Hann skynjaði að
maður þessi væri ekki af þessu tilverusviði. Indriði skrifaði niður
orðsendingu frá gráskeggjaða manninum með ósjálfráðri rithönd.
Orðsendingin var í formi fyrirheits um að tilraunahópurinn myndi fá
mun sterkari sannanir en hingað til, gegn því skilyrði að hlýtt yrði
nákvæmlega ákveðnum fyrirmælum. Gráskeggjaði maðurinn sem
skrifaði orðsendinguna með hjálp Indriða og átti eftir að verða
stjórnandi miðilsins að handan kvaðst vera afabróðir Indriða, Konráð
Gíslason prófessor.

Tilraunahópurinn ákvað að ganga að skilyrðum Konráðs. Færðist nú
nýtt líf í tilraunirnar og í október 1905 var stofnað félag sem kallað var
Tilraunafélag. Indriði hætti prentnámi og sneri sér alfarið að
miðilsstörfum.

Með tilkomu Konráðs átti Indriði mun auðveldara með að kalla fram
borðdans og skrifa ósjálfráða skrift. Hann féll í trans og fólk að
handan hóf að tala í gegnum hann.

Nú byrjuðu að gerast atburðir sem ekki höfðu gerst áður. Má þar
nefna “lyftingar” sem kallaðar voru svo. Hlutir, svo sem borð og
stólar hófust þá á loft án þess að séð yrði, að nokkur mannlegur
máttur kæmi þar nærri. Lyftust þung borð jafnvel svo hátt, að þau
rákust upp í andlit fundarmanna. Skipti ekki máli þótt þrír menn ýttu
fast á borðið. Stundum fóru þung stofuborð á annan endann.

Einnig fóru að heyrast högg í veggjum líkt því og bankað væri.
Færðust höggin til í herberginu, allt frá gólfi, upp í loft og á milli
veggja. Höggin voru notuð, ásamt tali miðilsins í transi og ósjálfráðri
skrift, til þess að svara spurningum fundarmanna.

Í nóvember 1905 færðist enn líf í fyrirbrigðin. Hófust nú að heyrast
smellir í lofti, líkast því þegar fingrum væri smellt hátt. Var hljóðið þó
nokkru hærra og hvellara. Heyrðust hljóðin víða um herbergið á
meðan fundurinn fór fram. Þegar andarnir voru spurðir um ástæður
smellanna svöruðu þeir því til, að smellirnir kæmu til þegar kraftar
framliðinna og lifenda mættust.

Einnig fór að bera á margvíslegum ljósafyrirbrigðum á fundum.
Fyrirbrigðin voru í formi ljósglampa, yfirleitt hvítra en einnig
rauðleitra. Stærð, lögun og litaafbrigði ljósanna voru fjölbreytt og
sáust þau á vegg næst miðlinum, en einnig á öðrum veggjum. Voru
ljósin stundum aflöng eða kringlótt, stundum þumlungur að þvermáli
en einnig stærri. Einn fundarmanna lýsti ljósunum sem “stjörnur um
allt herbergið”.

Einar H. Kvaran lýsti ljósafyrirbrigðum í fyrirlestri sem hann flutti.
Þar segir m.a.: “Þar kom nokkrum sinnum fram ljósbreiða yfir mikinn
hluta þils, sem er 6 álna breitt og 5 álna hátt. Stundum var að sjá
líkast nokkurs konar ljósneti með hringmynduðum möskvum, dálítið
dökkvari hringar utan um bjarta glampa. Aftur var birtan sundum
óslitin, líkust bjarma frá miklum eldi. Þessar ljósbreiður voru aldrei
eins hvítar eins og smáljósin voru oft, heldur rauðleitari.”

Eins og nærri má geta reyndi miðilsstarfið mjög á Indriða, enda gekk
oft mikið á á fundum. Var hann oft dauðhræddur í transi og mjög
lerkaður eftir fundina.

Ekki bætti nýtt fyrirbrigði úr skák, en það var lyftingar á miðlinum
sjálfum. Áður en varði var miðillinn kominn niður á gólf og var þar
dreginn endilangur fram og aftur. Lyftist höfuð hans síðan upp á borð,
en fæturnir voru á öðru borði. Fundarmenn fengu nú leyfi til að
kveikja á eldspýtu og skoða miðilinn í áðurnefndri stellingu. Þegar
slökkt var á eldspýtunni skall miðillinn í gólfið. Oft sveif hann alveg
upp í loft og rak höfuðið í og skall jafnvel í gólfið.

Á einum fámennum fundi gerðist það eitt sinn, eftir að Indriði var
fallinn í sambandsástand í litlum sófa, að miðillinn var hafinn á loft án
þess að nokkur yrði þess var. Stjórnandinn, Konráð, talaði í gegnum
miðilinn og bað viðstadda um að þreifa á sófanum, sem var í
brjósthæð, til þess að komast að raun um það sem gerst hefði og
fullvissa sig um að engin þekkt öfl væru það að verki. Nokkrir
viðstaddra þreifuðu um sófann og undir hann en fundu enga eðlilega
skýringu. Sófinn seig síðan hægt niður á gólfið aftur.

Einn var sá atburður sem athyglisverðastur þótti og var þó af nógu
öðru að taka. Var hann nefndur “handleggshvarfið” og gerðist í
desember 1905.

Annar atburður gerðist um sumar 1907 og allt fram í ársbyrjun 1908.
Upphaf hans átti sér stað vegna viðskipta Indriða við Jón Einarsson
frá Vestmannaeyjum.

Nánar um Indriða:

Eins og fram kemur hér að ofan, var Indriða oft legið á hálsi fyrir að
vera svikahrappur og loddari. Brynjólfur Þorláksson,
Tilraunafélagsmaður og góðvinur Indriða gefur eftirfarandi lýsingu á
persónu Indriða í bók sinni, Endurminningar Brynjólfs Þorlákssonar:
“Af viðkynningu okkar er það almennt að segja, að mér féll Indriði vel
í geð. Hann var skynsamur maður, umgengnisgóður og allra besti
drengur. Hann var að vísu ekki sérlega fastur í rásinni, sem svo er
kallað. Hann tók sér lífið fremur léttilega, var hálfgert náttúrubarn,
hafði mjúka skapsmuni, en var þó geðríkur, var gamansamur og dálítill
spilagosi, en allt hans gaman var græskulaust. Það bólaði aldrei á neinu
í fari hans, er bæri vitni um biturleik eða ótuktarskap. Hann var þvert
á móti góðviljaður og greiðvikinn, glaðvær og skemmtilegur í viðmóti.
Aldrei varð ég þess var, að Indriði beitti hrekkjum eða brögðum,
hvorki í daglegu lífi né miðilsstarfi sínu. Fyrirbærin, sem kringum
hann gerðust, voru mörg þann veg vaxin og birtust í slíkum aðstæðum,
að mínu viti er ofvaxið að skilja, hvernig þau hefðu getað verið runnin
undan leikaraskap og svikum Indriða. Það var og margsannað, að þessi
undur gerðust engu síður, þó að Indriði væri undir strangasta eftirliti
og allrar hugsanlegrar varúðar gætt í hvívetna.”.

Indriði átti síðari ár ævinnar við vanheilsu að stríða. Hann veiktist af
berklum, fékk lungnatæringu og andaðist á Vífilsstöðum 31. ágúst
1912, aðeins 28 ára gamall.

Frásagnir úr lífi og starfi Indriða Indriðasonar miðils

Jón Einarsson frá Vestmannaeyjum

Sumarið 1907 var Indriða boðið til Oddgeirs Guðmundsen prests í
Vestmannaeyjum. Dvaldi hann þar dagana 27. september til 3.
október.

Dag einn er Indriði úti á gangi ásamt tveimur dætra prests. Sér Indriði
þá berhöfðaðan og jakkalausan mann standa þar hjá. Var hann í
svörtum buxum með mjóa mittisól yfir um sig og í röndóttri skyrtu.
Indriði bendir á manninn og segir við systurnar: “Hvaða náungi er nú
þetta, rennvotur?” Systurnar urðu hvumsa við en þekktu manninn af
lýsingu Indriða. Að þeirra sögn hét maður þessi Jón Einarsson og
hafði hann drekkt sér í reiðikasti í Vestmannaeyjum tæplega ári áður.
Jakki hans og vesti höfðu fundist á sjávarbakkanum og virtist hann því
hafa tekið fötin af sér áður en hann fargaði sér. Indriði sá einnig konu
og barn hjá Jóni og var það að sögn systranna ekkja Jóns. Um þetta
hafði Indriði enga vitneskju haft.

Nokkru síðar var Indriði aftur á gangi með dætrum prestsins. Sá hann
þá sama manninn aftur fyrir utan hús eitt í Vestmannaeyjum. Hafði
Jón átt heima í því húsi þegar hann drekkti sér, en um það vissi Indriði
ekki.

Þegar Indriði kom aftur til Reykjavíkur varð honum ljóst, að Jón hefði
fylgt sér eftir frá Vestmannaeyjum. Fullyrti Indriði að Jón fylgdi sér
eftir og leitaðist við að gera sér ýmsa hrekki, svo sem að standa í vegi
fyrir sér og hræða sig. Indriði bjó þá í Tilraunahúsinu, sem var í eigu
Tilraunafélagsins. Gerðist Jón nú svo áleitinn að Indriði þorði ekki að
sofa einn í húsinu og fékk Þórð Oddgeirsson, son prestsins úr
Vestmannaeyjum, til að vera hjá sér um nætur.

Ekki leið á löngu áður en fór að bera á Jóni á sambandsfundum í
Tilraunahúsinu. Gerðist það fyrst 5. október en þó ekki að ráði fyrr
en tveim mánuðum síðar, eða þann 7. desember. Voru þá reimleikar
Jóns svo magnaðir að flest laust og jafnvel fast einnig, fór á fleygiferð.
Virtist sem Jón gerði allt sem í hans valdi stóð til að ráðast að Indriða
og virtist hann vera í mikilli hættu. Varð úr að þeir Einar H. Kvaran,
Haraldur Níelsson og Brynjólfur Þorláksson, auk Þórðar, skiptust á
um að vera með miðlinum um nætur. Aðfararnætur 9. og 10. desember
voru Einar og Haraldur hjá Indriða og urðu þá miklir reimleikar.

Aðfararnótt 11. desember voru Brynjólfur og Þórður hjá Indriða.
Þegar þremenningarnir voru lagstir til hvílu, féll Indriði í trans.
Stjórnandi Indriða, Konráð Gíslason, kom þá í gegn og varaði við því
að Jón væri á leiðinni til þeirra. Til varnar með Konráði voru tveir
menn aðrir, Sigmundur og norski læknirinn D. C. Danielssen sem voru
yfirleitt á fundum Tilraunafélagsins og voru að auki hálfgerðir
verndarar Indriða. Stjórnandinn skipaði nú svo fyrir að slökkt skyldi á
ljósum í herbergjum Indriða því að ljós kæmi Jóni betur en
verndurunum að handan.

Þórður og Indriði lögðust nú til hvílu í sitt hvoru rúmi en Brynjólfur á
bekk í fremra herberginu.

Næst gerist það að tveimur kertastjökum sem stóðu í fremra
herberginu er kastað í gólfið. Einnig er bursta sem var undir kommóðu
í sama herbergi hent á gólfið. Indriði hrópar nú á hjálp og segir: “Hann
er kominn!”

Brynjólfur bregður skjótt við og hleypur að rúmi Indriða. Finnur hann
þá að miðillinn hefst á loft í rúminu og leggst ofan á hann til að halda
honum niðri. Næst gerist það að borði sem stóð við gluggann er lyft
upp og lagt í rúm Þórðar. Brynjólfur tekur borðið niður aftur og setur
á sinn stað.


—–
Verður nú hljótt nokkra stund og fer Brynjólfur aftur fram í fremra
herbergið. Hrópar þá miðillinn aftur úr rúmi sínu að Jón sé nú
kominn aftur. Brynjólfur snýr við aftur og ætlar að hlaupa inn í
herbergið. Þegar hann er staddur í dyragættinni fær hann vatnsgusu
framan í sig og dettur síðan vatnskanna á gólfið. Vatnskannan hafði
staðið á þvottaborði sem var 1 til 2 metra frá fótagafli Indriða. Þegar
Brynjólfur kemur að rúmi Indriða verður allt kyrrt um stundarsakir.
Segir þá Indriði nokkuð skelkaður að nokkrir sjódauðir menn hafi verið
með Jóni og hafi þeir talað um sín á milli, að þeir þyrftu að fara og ná í
meiri kraft.

Nokkur stund líður og segir þá Indriði: “Nú koma þeir. Þeir koma
þarna gegnum vegginn.” Það var veggurinn yfir rúmi Indriða.
Náttpotti sem var undir rúmi Indriða er nú hent fram í fremra
herbergið þar sem hann brotnar á gólfinu. Síðan er rúmi Indriða rykkt
frá veggnum, þrátt fyrir að Brynjólfur spyrni við fæti að miklu afli.
Um leið finnur Brynjólfur að verið er að lyfta Indriða upp í rúminu og
verður hann að beita miklu afli til að halda honum niðri. Þórður hyggst
nú koma Brynjólfi til hjálpar. Er þá borð eitt hafið á loft og skellt
niður á bak Þórðar og borðplötunni lamið nokkrum sinnum í höfuð
hans.

Þeim félögum, Brynjólfi, Þórði og Indriða þótti draugagangurinn í
herbergjum Indriða nú orðinn svo mikill að ekki væri þar vært lengur.
Ákváðu þeir þá að best væri að flýja til heimilis Einars H. Kvaran en
báðu stjórnandann áður um leyfi. Svaraði stjórnandinn: “Já, í öllum
guðanna bænum!” Þeir kveiktu nú á olíulampa og þremur kertum.
Allt í einu er Indriða skellt niður í rúm sitt, en hann var þá nýbyrjaður
að klæða sig.
Brynjólfur hleypur til hans en mætir þá könnu sem kemur á fleygiferð
í áttina til hans. Kannan hitti Brynjólf þó ekki heldur strýkst fram hjá
honum, breytir um stefnu og fer út í horn þar sem hún mölbrotnar.
Verður nú örlítið hlé á látunum.

Indriði reynir enn að klæða sig en hrópar nú aftur á hjálp. Brynjólfur
hleypur til hans að nýju en sér þá sjón sem hann kvaðst aldrei mundu
gleyma. Indriði lá þá láréttur í loftinu í brjósthæð Brynjólfs og
sveiflast þar fram og aftur með fætur í átt að glugga. Virtist Brynjólfi
sem sá kraftur sem héldi honum á lofti væri að reyna að ýta miðlinum
út um gluggann. Brynjólfur grípur þá um Indriða og þrýstir honum
niður í rúmið. Finnur hann þá að þeim er báðum lyft upp. Hrópar
hann nú á Þórð að koma þeim til hjálpar. Þórður hleypur til og hyggst
fara inn í herbergið en mætir þá stóli sem kemur fljúgandi. Þórði tekst
að sveigja frá stólnum, sem lendir við ofn í fremra herberginu. Þegar
Þórður kemur að Indriða og Brynjólfi, liggur Brynjólfur ofan á Indriða
og reynir að halda honum niðri. Þórður grípur nú um hné Indriða og
er Indriði þá á hreyfingu í rúminu. Nú er undirkoddi rifinn úr rúmi
Indriða og honum kastað upp í loft. Um leið og koddinn fellur á gólfið
er kertastjökum sem voru í fremra herberginu þeytt inn í
svefnherbergið.

Indriða tekst nú loks að klæða sig og lögðu þeir félagar af stað heim til
Einars. Þórður heldur á lampa í vinstri hendi en heldur með þeirri
hægri um vinstri handlegg Indriða. Brynjólfur gengur við hina hlið
Indriða og heldur um hægri handlegg hans. Þannig gengu þeir aftur á
bak út úr svefnherberginu og inn í fremra herbergið. Kemur þá leirskál
úr innra herberginu fljúgandi beina leið í átt til þeirra, en breytir um
stefnu á miðri leið og fer fram hjá þeim félögum og brotnar á ofni í
stofunni. Þegar Indriði er að skjóta sér út um dyrnar á stofunni segist
hann sjá Jón munda vatnskönnu og ætli hann sér að kasta henni á eftir
Þórði, sem var síðastur út úr stofunni. Þórður lokar dyrunum á eftir
sér. Daginn eftir fannst kannan mölbrotin á gólfinu í stofunni.
Þegar þremenningarnir voru komnir fram í forstofu, setur Þórður
lampann á gólfið og slekkur ljósið. Að því búnu fóru þeir út úr húsinu
og læstu hurðinni. Þeir héldu nú í átt að heimili Einars og var Indriði á
milli Þórðar og Brynjólfs sem fyrr. Indriði var mjög óttasleginn og var
sífellt að líta aftur. Sagðist hann sjá Jón og félaga. Þegar þeir voru
komnir að Duus húsi við Vesturgötu lítur Indriði aftur. Segir hann þá
að Jón hefði tekið upp stein úr götunni og hent til þeirra þremenninga,
en Sigmundur og norski læknirinn hefðu breytt stefnu steinsins.
Komust þeir nú heim til Einars og settust inn í stofu. Þar urðu
nokkrar hræringar og hentust smáhlutir til og borð hreyfðist úr stað.
Voru hræringar þessar þó ekkert í líkingu við gauraganginn í
Tilraunahúsinu. Að sögn þeirra að handan var skýringin sú, að komið
hefði verið fyrir “kraftböndum” eða “kraftbeltum” í Tilraunahúsinu og
gæti hver sem væri í þeirra heimi notað þær orkuleiðslur.
Indriði gisti hjá Einari um nóttina en Þórður og Brynjólfur héldu á
brott.
Eftir þá atburði sem áður var greint frá var ekki árætt að halda
tilraunafundi fyrr en að kvöldi 16. desember. Jón gerði vart við sig á
þeim fundi, en því er ekki lýst nánar í bók Brynjólfs.
Aftur varð Jóns vart kvöldið eftir á heimili Einars, 17. desember.
Indriði hafði óskað eftir að fá að gista hjá Einari um nóttina og var það
auðsótt. Á heimilinu voru þá Einar H. Kvaran, kona hans, Gíslína
Kvaran og sonur þeirra, Einar E. Kvaran. Einnig voru þar staddir
þetta kvöld Guðmundur (Jónsson) Kamban, Hinrik Erlendsson
læknanemi, sem talinn var vera skyggn, Brynjólfur og Þorkell bróðir
Brynjólfs.

Indriði kvaðst nú finna að einhver ósýnileg vera væri komin. Var
ljósið þá slökkt. Kveðst Indriði þá sjá mann með grímu og dettur
fyrst í hug að þar sé Jón kominn, en er þó ekki viss. Er nú
gluggatjaldið dregið fyrir. Sér þá Hinrik Erlendsson mann standa hjá
miðlinum en ógreinilega þó. Miðillin virtist móka og tautaði: “Farðu
burtu, Jón!”
Nú fór að korra í miðlinum og var þá kveikt á ljósi. Var þá augljóst að
miðillinn var í transi. Stuttu síðar talar rödd í gegnum miðilinn og
segir: “Slökkvið þið ljósið!” Héldu þá viðstaddir að það væri Jón sem
talaði og slökktu ekki ljósið. Var þá endurtekin skipunin um að
slökkva ljósið og þekktu þá viðstaddir rödd stjórnandans, Konráðs
Gíslasonar. Ljósið var þá slökkt. Stjórnandinn segir þá að hann og
hans menn hafi átt í harðri baráttu, því Jón hafi náð valdi á miðlinum
og hafi ætlað að tala í gegnum hann. Þetta hafi verið mikil áreynsla
fyrir miðilinn, því þeir hafi báðir ráðist að honum í einu og Jón búi nú
yfir miklum krafti. Þá segir hann að norski læknirinn sé upp í
Tilraunahúsi að búa til efni til að sefa Jón. Verði stjórnandinn nú að
fara og hjálpa honum en Sigmundur myndi taka við stjórninni á meðan.
Aftur heyrist korrhljóð frá miðlinum og er öllum ljóst að hann er
hræddur. Hann sparkaði í kringum sig og í sama mund er talað í
gegnum hann heljarröddu og greina menn þar rödd Jóns. Tók nú Jón
til við að bölva öllu og öllum en viðstaddir reyndu að sefa hann og
beina honum á rétta braut með því að tjá honum hversu illa það væri
gert af honum að hrekkja þá svona þar sem þeir höfðu aldrei gert neitt
á hans hlut. Eftir nokkra stund verður Jón var við að stjórnandinn og
norski læknirinn eru komnir aftur og er Jón þá tekinn úr sambandi, en
stjórnandinn tekur við. Segir hann að þeir hafi hellt einhverjum efnum
á enni miðilsins. Hafi efnin farið inn í höfuð miðilsins og eytt krafti
Jóns. Bað hann viðstadda nú að þreifa á enni miðilsins. Var það gert
og fundu viðstaddir að ennið var vott eins og af olíu. Sagðist hann ekki
lengur hafa áhyggjur af því að Jón kæmist í samband í gegnum
miðilinn, því læknirinn hefði nú efnin til að eyða kraftinum. Einnig
skýrði hann frá því að nokkrir menn hefðu fengið það verkefni að taka
Jón í meðferð. Upplýsti hann viðstadda hverjir þeir væru, en þeirra er
ekki getið að öðru leyti.

Ókyrrð á miðilsfundum

Jón tók nú upp á því að tala á tilraunafundum án þess að nota rödd
miðilsins. Olli hann nokkurri úlfúð meðal fundarmanna svo sem með
því að snerta þá með kaldri hendi og kippa upp tröppunum að
ræðustólnum, sem voru þó negldar niður. Eitt sinn tók hann
vatnskönnu sem stóð á hillu yfir stólnum og hellti úr henni yfir einn
fundarmann og í vasa hans.
Kvöld eitt voru þeir Brynjólfur og Indriði staddir inni á skrifstofu
Björns Jónssonar ritstjóra í Austurstræti 8. Björn bauð gestunum sæti
og gaf þeim sitt eplið hvort. Þegar Brynjólfur byrjar að éta sitt epli
þeytist það skyndilega úr höndunum á honum, yfir endilanga
skrifstofuna og klessist á veggnum beint á móti. Segir þá Björn: “Já-já!
Það er þá svona.” Stuttu síðar tekst stóll sem staðið hafði á gólfinu á
loft, alveg upp í loft sem var þó allhátt og dettur síðan niður á gólf og
brotnar. Ákveða þeir félagar nú að hverfa á braut áður en skaðinn yrði
meiri. Þessi fyrirbæri voru tengd Jóni.
Mestir urðu reimleikar Jóns þann 4. janúar 1908. Var þá staddur á
tilraunafundi í stóra salnum stúdent, sem var skyggn. Var þá ýmsum
hlutum kastað um salinn og sá stúdentinn að þar var Jón að verki.
Eins og oft áður var haldið um báðar hendur og fætur miðilsins og
hafðar á honum gætur. Stóllinn sem hann sat á var mölbrotinn og
nokkrum brotanna kastað í austurvegg salarins en öðrum í hengilampa
sem hékk yfir miðjum salnum. Við höggið slitnaði ein festin á
lampanum og féllu einstakir hlutir lampans niður á höfuð Björns
Jónssonar, svo að blæddi úr.

Dularfullt hvarf Indriða

Síðar um kvöldið fóru þeir Indriði og Brynjólfur, ásamt Jóni Fjeldsted
klæðskera og Þorkeli, bróður Brynjólfs, inn á Hótel Ísland (Hótel
Ísland stóð þá við Vallarstræti þar sem Ingólfstorg er nú). Settust þeir
niður við borð og ætluðu að drekka kaffi og spjalla saman. (Nú verða
þeir Brynjólfur og Þorkell ekki sammála um hvað gerðist næst.
Samkvæmt frásögn Brynjólfs byrjaði borðið að hreyfast til og dugði
ekki að halda því kyrru þótt stutt væri fast á það. Ákváðu þeir þá að
fara allir út úr húsinu og út í port. Standa þeir þar nokkra stund og
tala saman og tekur Brynjólfur þá allt í einu eftir því, að Indriði er
horfinn. Gat hann enga skýringu fundið á hvarfi Indriða. Samkvæmt
frásögn Þorkels var óróleiki í borðinu ekki ástæða þess að þeir félagar
urðu að fara út og hafi þeir reyndar ekki farið allir út í einu. Minnist
Þorkell þess að Indriði hafi skyndilega orðið þögull og einkennilegur.
Hafi hann staðið upp frá borðinu og horfið út í vestri sal. Eftir nokkra
stund fór þá þrjá sem eftir voru að lengja eftir Indriða og fóru að leita
hans inni í hótelinu. Þegar þeir fundu hann ekki inni, fóru þeir út.
Ekki bar á öðru en að Indriði hefði einfaldlega gufað upp, því hann gat
ekki farið út úr hótelinu öðruvísi en í gegnum eystri salinn, þar sem
aðrar útgöngudyr voru læstar, en í eystri salnum höfðu þeir félagar
setið). Héldu þeir Brynjólfur og Jón Fjeldsted nú norður Aðalstræti
og niður á Duusbryggju og þaðan upp á Mjóstræti 2, þar sem var
heimili Einars H. Kvaran. Þorkell fór heim til sín.
Samkvæmt frásögn Haraldar Níelssonar, sem byggð var á gerðabók
tilraunafélagsins, virðist sem Indriði hafi komið inn á heimili Einars í
miðilsástandi, á um það bil sömu mínútu og hann hvarf sjónum
þremenninganna á hótelinu. Við stigann ávarpaði norski læknirinn
Einar Kvaran og sagðist þurfa að tala við hann. Miðillinn fór upp á
loft og sest þar niður á stól. Viðstaddir voru fjölskylda Einars og
Guðmundur Kamban. (Ekki kemur fram hvað varð af Brynjólfi og
Jóni Fjeldsted).

Yfirbót Jóns

Stjórnandinn, Konráð Gíslason, talar nú af vörum miðilsins og segir, að
Jón Einarsson sé þar hjá þeim og sé honum umhugað um að biðja alla
afsökunar og fá fyrirgefningu. Þyki Jóni leitt hvernig til tókst með
lampann og Björn Jónsson. Jón segist nú vera undir handleiðslu
Hallgríms Péturssonar og lofar bót og betrun. Segist hann ekki muni
koma á tilraunafund aftur, fyrr en hann geti bætt fyrir óskunda þann
sem hann hafi valdið. Biður hann viðstadda um að biðja fyrir sér.
Stjórnandinn og þrír aðstoðarstjórnendur hans tala nú í gegnum
miðilinn, hver eftir annan og votta gleði sína vegna þeirra umskipta,
sem orðin séu. Um flutninginn á miðlinum segir Konráð svo frá, að
þeir að handan hefðu tekið Indriða upp úr portinu, sem þá var lokað
og borið hann flatann í loftinu og tekið hann síðan niður á götuna
(líklega við hús Einars Kvaran). Kom fram hjá Konráð að Jón
Einarsson hefði staðið fyrir flutningnum, en Konráð, Danielsen og
Sigmundur hjálpað til.

Næst urðu menn varir við Jón mánudagskvöldið 17. febrúar. Var það
á fundi með innri hring (sem var eingöngu fyrir félagsmenn) og talaði
hann fyrir utan miðilinn. Mætti hann á marga fundi eftir þetta. Jón
var nú breyttur maður og gerðist hjálparmaður stjórnendanna og
verndari miðilsins. Að sögn lét honum vel að hreyfa til jarðneska
hluti. Hann talaði í gegnum lúður, sveiflaði lúðrinum hátt og lágt í
loftinu, lét spiladós, sítar, fiðlu og fiðluboga svífa um fundarsalinn,
færði til hluti á gólfinu, til dæmis stórt borð og fleira. Hann talaði oft
við fundarmenn fyrir utan miðilinn eins og maður við mann.

Handleggshvarfið
Atburður þessi gerðist á heimili Einars H. Kvaran dagana 18. - 20.
desember 1905.
Á tilraunafundi um kvöld 18. desember þegar miðillinn, Indriði
Indriðason var fallin í trans og venjulegur undirbúningur hafði verið
gerður, tók stjórnandinn Konráð Gíslason við stjórn. Miðillinn var þá
í millibilsástandi og hóf að biðja sér griða um að vera látinn í friði. Bað
hann þá sem að handan komu að hætta að meiða sig og urðu nokkur
orðaskipti. Veinaði hann síðan: “Nei, ekki með hnífinn”.
Sú skýring var gefin af stjórnanda fundarins að samstarfsmenn hans
fyrir handan væru að teygja aðeins á handlegg miðilsins, en tilfinning
miðilsins var sú að verið væri að taka handlegginn af. Væri það liður í
tilraun sem ekki væri ástæða til að óttast. Gerðist ekki fleira markvert
það kvöld.

Daginn eftir (19. desember ) skrifaði miðillinn heima hjá sér ósjálfrátt,
áminningar um að á tilraunafundi um kvöldið yrðu viðstaddir að hafa
hljótt um sig. Gera átti “operation” eða skurðaðgerð á miðlinum og gat
líf miðilsins verið í veði ef gestir væru ekki rólegir og hljóðir. Um
kvöldið gerðist það eftir venjulegan undirbúning, að miðillin fer (í
transi) inn í byrgi sem í húsinu var. Heyrðust nokkrar kvalastunur í
miðlinum úr byrginu og kemur miðillinn út aftur. Stjórnandinn,
Konráð, bauð nú Einari Kvaran að þreifa á vinstri handlegg miðilsins.
Gerði hann það en fann ekki vinstri handlegginn. Miðillinn var síðan
færður inn í byrgið aftur og látinn leggjast fyrir. Eftir nokkrar stund
vaknaði miðillinn og kvartaði yfir dofa í vinstri hendinni, en virtist
heill að öðru leyti.

Kvöldið eftir (20. desember) gerðist sama fyrirbrigðið aftur. Var það
þá athugað af 5 viðstöddum og voru ljós kveikt hvað eftir annað á
meðan. Enginn þeirra fann handlegginn á miðlinum. Þrír fundarmenn
fundu hinsvegar hönd strjúkast við andlit sín úti í salnum, á meðan
miðillinn lá inni í byrginu.
Sama fyrirbrigði kom óvænt fyrir aftur löngu seinna um vetur. Þá var
það athugað af 7 fundargestum við birtu frá ljósi, þar á meðal af
Brynjólfi Þorlákssyni.
Einar H. Kvaran var einn þeirra sem athuguðu fyrirbrigðið í það
skiptið. Segir hann svo frá að hann hafi fengið öruggari vissu en í hin
skiptin. Miðillinn stóð þá á gólfinu og strauk Einar frá öxl niður eftir
síðunni og bakinu, eins og áður. Einnig strauk hann hringinn í kringum
miðilinn, hátt og lágt, en fann ekki handlegginn.
Atburður þessi var mikið umtalaður í Reykjavík á þeim tíma og þótti
eitt dularfyllst þeirra fyrirbæra sem gerðust á fundunum.


Endilega komið með athugasemdir um þetta (til þeirra sem sofnuðu
ekki eftir þennan fjórtán tíma lestur)