Þetta er úr sömu ritgerð. Verði ykkur að góðu!

Stóru hátíðisdagarnir, svokallaðir Sabbats, eru átta talsins og er dreift jafnt yfiir árshringinn. Árið byrjar á Samhain (31. október) þegar Guðinn deyr með náttúrunni að hausti. En samt er hann lifandi því fræ hans er að vaxa í maga Gyðjunnar og fæðist hann aftur sem hin rísandi sól á Yule eða vetrarsólstöðum (kringum 20-22. desember). Næsti hátíðisdagur er Imbolc (1. febrúar) og þar næst vorjafndægur eða Ostara sem er í kringum 20-22. mars. Beltane (1. mai) er svo mikil frjósemisathöfn en fram að þessu hefur Guðinn verið að vaxa og fullorðnast og á Beltane verða Guðinn og Gyðjan ástfangin og verða elskhugar. Þau elskast á þessu kvöldi og hún verður þunguð. Svo kemur Litha, sumarsólstöður (20-22. júní) og Guðinn styrkist og þroskast eins og náttúran og á Lughnasadh (1. ágúst) hefur hann náð fullum þroska og er á hátindi krafta sinna og þau elskast aftur. Eftir það fer honum að hraka og kraftar hans þverra. Á Mabon, haustjafndægrum (kringum 20-22. september) er hann orðinn mjög veikburða á sama tíma og náttúran er að lúta í lægra haldi fyrir vetrinum og loks lýkur hringnum þegar hann deyr á Samhain.
Þessir hátíðisdagar snúast aðallega um Guðinn enda eru þetta dagar tengdir gangi sólarinnar en hátíðsdagar Gyðjunnar eru tengdir tunglinu, svokallaðar Esbats. Þær eru þrettán talsins á ári og eru á hverju fullu tungli. Tunglmánuðurinn er talinn endurspegla mismunandi andlit Gyðjunnar en hún er allt í einu, Meyjan, ung og saklaus, Móðirin, kona í fullum þroska, og Ættmóðirin, gömul og vitur. Vaxandi tungl endurspeglar Meyju andlitið, fullt tungl táknar Móðurina og minnkandi tungl táknar hana á lokatíma ævinnar. Einnig eldist hún yfir árið og fylgir Guðinum í þroska, að vori er hún Meyjan, á sumrin er hún Móðirinn og veturnar Ekkjan sem syrgir Guðinn.

Og vonandi birtir Snæugla ritgerðina í heilu lagi á Wicca.is
www.blog.central.is/runin