Rýtingurinn (Athame) er eitt mikilvægasta verfæri hverrar nornar og tilheyrir frumefninu eldi. Hann er vanalega með dökku skafti og tvíeggja blaði. Hann er ekki notaður til að skera neitt nema í mesta lagi orku og hans aðal hlutverk er að beina orku og mynda hringinn sem nornin vinnur innan. Nornir eiga oft annan hníf sem þær nota til að skera með s.s. jurtir og tákn á kerti eða við og er hann vanalega með hvítu skafti. Sverð gegna sama hlutverki og athame en geta reynst frekar óhentug í þröngu rými en mjög flott í stórum athöfnum sem framkvæmdar eru utandyra.
Sprotinn (Wand) er einng mjög mikilvægur fyrir hverja norn. Hann táknar loft og er táknrænn fyrir Guðina. Hann getur komið í staðin fyrir Athame ef fólki er illa við að nota hnífa. Það er mjög mismunadi hvernig sprotarnir eiga að vera, t.d er mikið rifist um hvort hægt sé að nota hvaða tegund viðar sem er eða hvort leyfilegt sé að hafa hann úr málmi. Venjulega er hann hinsvegar úr viði og á að vera jafn langur og frá olnboga nornarinnar fram á fingurgóma. Hann getur verið einföld trjágrein eða skreyttur með myndum, steinum og fjöðrum. Oftast eru samt settir kristallar á sitt hvorn enda, einn sem táknar Guðinn og annan fyrir Gyðjuna til að halda orkunni í jafnvægi og auk þess hafa steinar krafta sjálfir en betur verður komið að því síðar.
Fimm arma stjarnan (pentacle) er vanalega diskur úr leir, málmi eða tré og er eitt helgasta tákn norna og er aðalega tengd frumaflinu jörðu. Ef stjarnan er ein og sér er talað um pentagram en pentacle ef hringur er dreginn utna um hana. Stjarnan táknar höfuðáttirnar og þá eiginleika sem þeim eru gefnir, þ.e. austur = loft og innsæi, norður = jörð og líf, vestur = vatn og viska, suður = eldur og ástríður og miðjan = akasha (andi) og orka. Stjarnan er miðja altarsins og eitt helsta verndartákn norna.
Potturinn (cauldron) er oftast úr járni og stendur á þremur fótum en þó eru ýmsar útgáfur til. Hann er táknrænn fyrir leg Móðurgyðjunnar og tengdur frumefninu vatni. Hann er notaður til að brenna í jurtir eða brugga seyði. Einnig má kveikja eld í pottinum til að koma í staðinn fyrir bál ef unnið er innandyra.
Bikarinn er hefðinni samkvæmt úr málmi en er einnig oft úr gleri eða leir. Hann er táknrænn fyrir frumefnið vatn og er að mörgu leyti svipaðs eðlis og potturinn. Bikarinn er oftast notaður undir vatn eða vín sem er drukkið við athafnir.
Reykelsisstandur og reykelsi eru loftsverkfæri. Þeirra helsta hlutverk er að brenna jurtir sem magna galdra. Það þarf ekki að vera góð lykt af þessum jurtum, af sumum er mjög sterk og vond lykt. Jurtirnar geta verið táknrænar fyrir það sem á að gera og ljá þá galdrinum krafta sína. Einnig er reykelsi hreinsandi og notaðar til að hreinsa svæðið af neikvæðri orku og er þá oftast notuð myrra, sandelviður eða rósmarín en það eru allrahanda jurtir sem má nota við nánast hvaða athöfn sem er. Reykelsi getur líka verið notað sem tæki til að hjálpa norn til að falla í trans en það er varhugavert að nota það án viðamikillar þekkingar á hvaða jurtir á að nota og í hvaða magni. Ef þær eru notaðar rangt geta þær verið hættulegar því þær jurtir sem notaðar eru eru oftast vímuvaldandi.
Kerti eru mikið notuð og tilheyra frumefninu eldi. Kerti eru notuð í mismunandi litum, stærðum og gerðum. Venjan er að nota tvö hvít kerti sem altariskerti og svo önnur í mismunandi litum allt eftir því hver tilgangur athafnarinnar er. Hver litur hefur ákveðna merkingu og ákveðinn mátt. Oft eru tákn rist í kertin til að skýra tilgang galdursins og borinn á þau olía til að magna þau.
Jurtir eru hverri norn mjög mikilvægar. Þær má brenna sem reykelsi, strá yfir altarið, nota í olíur og seyði eða bara til skrauts og fyrir táknrænt gildi. Sem sæmi má nefna að á Beltane er hefð að hafa ný blóm á altarinu til að tákna að hér sé um vor og frjósemisathöfn að ræða. Jurtir eru mjög kröftugar. Þær eru flokkaðar eftir því hverskonar orku þær hafa. Þær geta ýmist haft kvenkyns eða karlkyns orku, einnig hefur hver jurt sitt frumefni og plánetu sem þær tilheyra. Lítum til dæmis á blóðberg, jurt sem vex um allt Ísland. Í bóknni Cunningham’s Encyclopedia of Magical Herbs segir að það sé kvenkyns, tilheyri Venusi og frumefninu vatn. Kraftar hennar eru heilsa, heilun, svefn, skyggnigáfa, ást, hreinsun og hugrekki. Á eftir fylgir svo kafli sem segir meðal annars að ef þú setjir blóðberg undir koddann þinn tryggir þú rólegan og góðan svefn, ef jurtin er brennd hreinsi hún svæðið af neikvæðri orku en veiti mönnum hugrekki ef þeir bera hana á sér.
Steinar eru að mörgu leyti svipaðs eðlis og jurtirnar, þeir tilheyra ákveðnu kyni, plánetu og frumefni og eru mikið notaðir í göldrum. Einkum eru kristallar góðir til að safna orku. Steinar hafa mismunadi orkutíðni, jafnvel steinar sömu tegundar en hægt er að finna það með því að halda á þeim og smám saman finnur maður hvernig orkustreymið frá þeim er, og líkist það oft einskonar kitli eða þrýstingi.
Frumefnin eru mikilvæg í hverri athöfn en þau hafa mismunandi áherslur, til dæmis er gott að vinna með vatn til að öðlast visku, þekkingu eða til að sjá hluti í réttu ljósi. Þá myndi nornin leggja áherslu á þau verfæri sem tákna vatn. Ein aðferð væri að hún skrifað ósk sína á blað og kastað því í á eða læk og biður frumefnið vatn að sjá til þess að óskin uppfyllist. Þetta er líka hægt að gera með frumefnið eld hann stendur meðal annars fyrir ást og ástríður. Þá gæti nornin brennt blað með ósk eða táknum og látið eldinn sjá um að það uppfyllist. Athuga verður að frumefnin eru verur, þau eru lifandi og því verður að bera virðingu fyrir þeim.
(unnið með hliðsjón af Wicca; A guide for the solitary practicioner eftir Scott Cunningham)
www.blog.central.is/runin