Sæl öllsömul! Nú hef ég ekki sent inn grein mjög lengi og fannst tilvalið að bæta aðeins úr því fyrst ég get ekki sofið á annað borð (klukkan er sko að verða hálfþrjú þegar ég skrifa þetta).
Undanfarið hef ég verið að velta fyrir mér tilgang lífsins og hvers vegna við erum hér. Ég sjálf trúi því að við séum hérna til þess að læra og að það sé líf eftir dauðann, svo endurfæðing og allur sá pakki. En því óviðkomandi þá hef ég verið að hugsa um fleiri hliðar málsins, t.d. hvað ef heimurinn væri EKKI svona eins og ég hef ímyndað mér.

Ég hef vissa hugmynd um það hvernig heimurinn virkar og það má vel vera að annað fólk hafi aðrar hugmyndir. Ég hef velt fyrir mér mörgum kenningum, blandað þeim saman og komin með svona þokkalega heilsteypta mynd af þessu öllu saman, þó svo ég verði að viðurkenna að mörgum spurningum sé ósvarað, en þó ekki fleiri en ef um hin algengari trúarbrögð væri að ræða. Ég minni á að ég er ekki að halda því fram að það sem ég segi sé einhver heilagur sannleikur og þó svo margt af þessu hljómi sem staðhæfingar, þá eru þetta fyrst og fremst kenningar. Fólk má vel vera ósammála mér í þessum efnum en þeir sem ekki kunna sig mega gjarnan láta það vera að koma með skítkast eða óþarflega dónalega gagnrýni á lífskoðun mína og hugmyndir. Ég frábið mér því allt slíkt og vona innilega að þið lesendur takið tillit til þess.

HVAÐ ER GUÐ?
Fyrst og fremst hugsa ég mér einhvers konar guðlegt afl eða orku sem er það sem flestir kalla Guð/Allah/Jehóva/Jahve o.s.frv. Þetta guðlega afl er uppspretta alls lífs og frá því koma allar sálir og þar enda allar sálir einstaklingsævi sína og verða „eitt með guði“ eins og talað er um. Það skiptir ekki máli hvað þú kallar þetta afl eða í hversu marga „guði“ eða „gyðjur“ þú skiptir því í, þetta er alltaf sama aflið, sami brunnurinn. Það má því sjá þetta sem aðskilda orkubolta sem eru í heild sinni einn og sami hluturinn, sameinaðir en þó ekki. Það má líka hugsa sér þetta sem mismunandi bita af sömu kökunni. Goð eru einfaldlega mismunandi birtingarform eða sýn manna á þetta afl og leið þeirra til að einfalda hið flókna og túlka hið óskiljanlega. Við sem mannverur á þessari jörð höfum hvorki þroska né burði til að skilja þetta afl til fullnustu í einveru sálar okkar. Við munum ekki fá þetta skilið fyrr en við höfum að fullu sameinast þessu afli. Skynjun eða upplifun nirvana er þá visst en þó takmarkað form sameiningar af þessu tagi.

HVERNIG VIRKA BÆNIR?
Sumt fólk kýs að biðja bara til eins guðs. Það hentar betur þeirra trúarhugmynd og er ekki jafnflókið og heill guðahópur. Þó má að vissu leyti sjá eingyðistrú sem mun flóknari en fjölgyðistrú því þú getur ekki útskýrt þennan eina guð. Hann hefur í rauninni eiginleika allra guða eða er ofar öllum slíkum eiginleikum sem menn vilja samsvara slíkum verum eða slíku afli. Mannkynið hefur alltaf persónugert guði sína og hafa „gert þeim upp“ skoðanir ef svo má að orði komast og sett fram reglur um hvernig guðirnir vilja hafa hlutina, hvað má og hvað má ekki. Oftar en ekki endurspeglast samfélagið af þessum reglum, ef ekki öfugt. Hvað sem því líður þá hefur þörfin fyrir að persónugera guði alltaf verið mjög sterk, enda höfum við alltaf fundið þörf fyrir að sjá guðaverurnar í mynd manns eða dýrs. Í gegnum aldirnar hafa sumir guðir fengið ákveðna eiginleika og er þá beðið til þeirra sérstaklega ef bónin á við þann eiginleika sem viðkomandi guð hefur, þ.e. fólk biður til viðeigandi guða eftir því um hvers konar málefni er að ræða. Ég tel að heimurinn sé samsettur af alls konar orku og að þegar maður biðji bæn þá sendi maður orku frá sér. Til dæmis ef maður biður um frjósemi þá einkennist sú orka sem þú sendir frá þér af þeim eiginleika og beinist að viðeigandi guði eða gyðju. Því oftar sem frjósemi er tengd við þessa guðaveru því sterkari verður sá eiginleiki í henni og því fleiri sem trúa á þessa veru því öflugri verður orka hennar. Þannig má í vissum skilningi halda því fram að menn hafi skapað guðina, en ekki öfugt. Þegar þú síðan biður bæn bæði sendir þú og sækir orku til viðeigandi guðaveru, í þessu tilviki orku sem á að verða þér til hjálpar og tengda frjósemi. Ef sannfæring þín um að verið verði við bón þinni byrjar þessi orka sem þú sendir frá þér að hafa áhrif á þær orkubrautir (sem ég útskýri seinna), sem hafa áhrif á líf þitt, og dregur einnig með sér meiri orku frá guðaverunni og verða áhrifin því meiri. Þannig má hafa áhrif á gang mála með bænum. Sumir vilja meina, þ.á.m. ég, að betra sé að hafa marga guði með mismunandi eiginleikum því þá sért þú bæði einbeittari og meðvitaðri um bón þína og sú orka sem þú sækir í einnig mun fókusaðri á þá hlut sem við á. Þar af leiðandi hefur bæn til slíkrar guðaveru mun skilvirkari áhrif og jafnvel fljótvirkaðri áhrif en bæn til veru sem ekki er skilgreind á neinn hátt.

UM ORKUBRAUTIRNAR
Mín lífsskoðun gerir ráð fyrir því að bænir séu einfaldlega visst form galdra. Þar af leiðandi geti galdraathafnir haft sömu eða jafnvel meiri áhrif á líf fólks og/eða atburði í lífi fólks. Ekki er alltaf nauðsyn að stunda galdur eða bænir til að hafa slík áhrif. Ástæðan fyrir því er sú að í þeim heimi sem við lifum eru orkubrautir sem við ekki getum séð. Þar sem ég trúi á endurfæðingu og að við ákveðum fyrirfram hlutverk okkar í hverju lífi og þá hluti sem við ætlum okkur að læra (lífið sé semsagt skóli með mismunandi brautum og fögum og þú útskrifast ekki nema þú takir öll fögin og náir prófinu í hverju fagi, en þú getur sjálfur ákveðið að miklu leyti í hvaða röð þú tekur þetta, alveg eins og í áfangakerfi í skóla). Með því myndum við ákveðna lífslínu fyrirfram og vilja sumir kalla það örlög -eða orkubrautir. Ég trúi því hins vegar að slíkum „örlögum“ megi vel breyta. Til dæmis ef þú hugsar þér að spáð sé fyrir þér í tarot (og ég gef mér það að tarotspil virki og að spákonan geti spáð) þá kemur upp staða í spilunum sem gefur til kynna hvað muni henda þig næstu daga, vikur eða mánuði. Hins vegar er þetta bara vísbending um hvað á eftir að gerast miðað við þá stöðu sem þú ert í á þeirri stundu. Daginn eftir má vel vera að þú gerir eitthvað sem breytir öllu, breytir orkubrautunum/afleiðingunum/örlögunum (úff… öll þessi mismunandi orð og orðatiltæki eru farin að gera þetta flókið!). Á þeim tímapunkti hefur þú annað hvort skapað þér ný örlög eða breytt þeim sem fyrir voru. Vissulega eru enn margir hlutir sem þú verður að takast á við og þú getur ekki sloppið við, enda eru þeir hlutir þá eitthvað sem þú hefur ákveðið sem skilyrtan lærdóm í þessu lífi og klárir þú hann ekki núna þá munir þú neyðast til að klára hann í öðru lífi. Svo má líka hugsa sér karma sem skapast milli tveggja einstaklinga/sálna. Ef þú t.d. gerir eitthvað á hlut einhverjum þá verður hann að borga þér það til baka, hvort sem það er í þessu lífi eða hinum næstu. Það má jafnvel vel vera að einhver annar einstaklingur borgi þér karmaskuldina til baka og svo koll af kolli þar til allir hafa greitt sína skuld. T.d. ef þú verður einhvern tíma fyrir heimilsofbeldi þá má vel vera að þú hafir einhvern tíma verið eða munir einhvern tíma verða gerandi heimilisofbeldis. Þannig tengist það sem þú ákvaðst áður en þú fæddist, gjörðir þínar í þessu lífi gagnart sjálfum þér og öðrum saman og myndar orkubrautir sem í raun beina þér í þá átt sem þú hefur skapað þér. Síðan getur margt orðið til að eitthvað breytist og eins getur þú meðvitað hjálpað sjálfum þér að breyta þessum orkubrautum eða búið til nýjar. Það kallast til dæmis að galdra.

NIÐURSTAÐA
Við erum hér á jörðu til að læra og þroskast. Við alskiljumst frá einingunni guði til þess eins að reyna að sameinast henni á ný en það getum við ekki gert nema ljúka þessu þroskaferli. Við endurfæðust þar til við höfum lokið þessum áfanga eða þessari braut og eftir það tekur við svipað ferli „hinu megin“. Þú getur aldrei farið aftur í þroska en það má vel vera að þú þurfir að læra sumar lexíur aftur og aftur þar til þú getur lokið þeim rétt. Þess vegna er engin lausn að fyrirfara sér því maður er í raun ekki að flýja nein vandamál, því maður þarf hvort sem er að vinna úr þeim eftir dauðann -því maður deyr í rauninni aldrei. Því væri mun réttara samkvæmt þessari kenningu að tali um umskipti frekar en dauða.


TRÚLEYSISKENNINGIN
Hugsum okkur að ekki sé til neinn guð og engin orka eða tilgangur á bak við lífið sjálft. Í raun erum við þá eins og við sjáum dýrin, bara með ögn þróaðri heila sem gerir okkur kleift að gera mun fleiri hluti en þau. Þá á darwinskenningin mjög vel við, enda snýst þá lífið ekki um annað en að hinir hæfustu lifi af og fjölgun sinnar tegundar, þó svo að í mennsku þjóðfélagi sé það núorðið orðið nokkuð brenglað. Þú fæðist, þú eignast afkvæmi, kemur þeim á legg og deyrð. Það er ekkert fyrir lífið og ekkert eftir lífið. Þú varst ekki til áður en þú fæddist og þú ert ekki til eftir að þú deyrð. Allar trúarlegar eða dulrænar upplifanir eru ekkert nema heilaboð sem orsakast af einhverjum hlutum sem við höfum ekki enn rannsakað. En með þekkingu, lærdómi og rannsóknum má útskýra og færa sönnur á allt. Draugar eru ekki til og eru bara ímyndun. Fólk sem sér árur á við augnsjúkdóm að stríða. Fólk sem hingað til hefur verið talið skyggnst sér ofsjónir og er haldið vissri tegund geðveiki sem ekki hefur enn verið greind. Persónuleiki okkar mótast af erfðaefnum, efnaboðskiptum og umhverfinu. Það útskýrir samt ekki hvers vegna eineggja tvíburar geta verið mjög ólíkir þó svo að um eins uppeldisaðstæður séu að ræða, en sú útskýring mun finnast. Þá eru trúarbrögð bara hugarburður mannsins og ekki hægt að hafa áhrif á ganga mála með öðrum leiðum en veraldlegum. Ég gæti haldið svona endalaust áfram en ég geri ráð fyrir að þið skiljið hvað ég er að fara.

Jæja, nú er ég búin að skrifa svo langa grein að ég er farin að efast um að nokkur eigi eftir að nenna að lesa hana svo það er víst best að láta gott heita. Flestir sem stunda þetta áhugamál vita nokkurn veginn hvernig lífsmynd hinna algengari trúarbragða er svo ég tel það óþarft að telja það allt saman upp að auki. En mér þætti samt vænt um ef þið gætuð sagt mér hvernig þið sjáið lífið og tilveruna fyrir ykkur, þ.e. ef þið nenntuð að lesa þessa grein til enda!

Kveðja,
Divaa