Reynsla af dulrænum atburðum
Þegar ég var í barnaskóla vorum við krakkarnir oft að leika okkur í kletti sem var nálægt skólanum. Hann var þverhníptur á einn vegin og var fallið þar eitthvað á aðra mannhæð. Eitt sinn er við vorum að leika okkur uppi á klettinum, þá datt ég og rann á fleygiferð í áttina að staðnum þar sem kletturinn var þverhníptur, þá var gripið í mig á seinustu stundu og ég stoppaði með andlitið fram af brúninni. Það var ekkert uppi á klettinum sem hefði getað stoppað mig af, hvorki grjót né annað. Ég man það svo vel hvernig ég allt í einu snarstoppaði. Krakkarnir voru alveg sannfærðir um að ég myndi fara fram af klettinum, það er ekki gott að giska hvernig hefði farið fyrir mér ef ég hefði farið fram af.