Margrét Jónsdóttir Thorlacius, eða Margrét frá Öxnafelli eins og hún var betur þekkt fæddist þann 12. apríl 1908 að Öxnafelli í Eyjafirði en hún var eitt af 13 börnum þeirra hjóna Jóns Thorlaciusar og Þuríðar Jónsdóttur. Margrét ólst upp við fátækt en fjölskyldan leið sem aldrei neinn skort.
Margrét var skyggn allt frá fæðingu og var hún m.a. ekki nema fjögurra ára þegar hún sá oft ljós á kvöldin í fjalli við bæinn, síðar fór hún einnig að sjá huldufólk þar.
Margrét sá jafnt blik fólks(áru), huldufólk, álfa, framliðna, löngu liðna atburði og fylgjur svo eitthvað sé upptalið. Einnig lék hún sér oft við huldubörn.
Upphaf dularlækninga Margrétar má rekja til þess þegar hún var tíu ára. Þá varð hún fyrst vör við Friðrik, en hún sá hann meðal huldufólks hjá Svörtuklettum. Hún spurði hann hvort hann væri huldumaður. Friðrik svaraði að hún mætti kalla hann það. Margrét telur að Friðrik hafi sagt þetta við sig til þess að hún yrði síður hrædd við hann. Seinna áttaði Margrét sig á því að Friðrik er mennskur, framliðinn maður.
Um þetta leyti var móðir Margrétar mikið veik. Þá var hún orðin kunnug Friðriki og spurði hann eitt sinn hvort hann gæti hjálpað móður sinni. Friðrik tók vel í það og Margrét varð meira en lítið undrandi þegar hann birtist í hvítum slopp eins og læknar nota. Móður hennar batnaði eftir þetta og komst á fætur skömmu síðar.
Hér læt ég fylgja orðrétt smá kafla úr bókinni ,,Skyggna konan” sem lýsir því þegar Margrét hóf líknarstarf sitt:
,,Einn af merkustu atburðum sem komið hafa fyrir mig, gerðist kvöldið eitt í Öxnafelli. Rigning hafði verið um daginn, en ég gekk út um kvöldið. Ég gekk upp fyrir bæinn og sá regnbogann í litskrúði sínu yfir sveitinni. Mér hafði verið sagt, að menn gætu óskað sér einhvers, ef þeir kæmust undir enda regnbogans.
Kom mér nú þetta í hug. Féll ég þá í einhverja leiðslu, þar sem ég sat á þúfu og sá fagurt, dásamlegt lithaf allt í kringum mig. Fannst mér ég vera komin undir enda regnbogans og eiga óskastund. Í þessu einkennilega hrifningarástandi óskaði ég þess af allri sálu minni, að mér mætti veitast það að geta hjálpað þeim, sem þjást, og linað þrautir þeirra. Óskinni fylgdi mikill fögnuður og hrifning. Enn man ég eftir þúfunni í túninu, þar sem ég sat, þegar þetta gerðist. Þessi stund er mér ógleymanleg”
Þetta sama kvöld byrjuðu lækningar Friðriks fyrir alvöru. Henni bárust mörg bréf með hjálparbeiðnum og í eitt skiptið barst henni 200 bréf í einu, hún var ekki nema 16 ára að aldri á þeim tíma.
Hróður Margrétar barst víða og eru ótal dæmi þess að fólk hafi hlotnast lækning eftir að hafa fengið aðstoð frá henni.
Margrét lést þann 19. mars 1989 en hún sinnti líknarstarfi sínu ásamt því að reka heimili og ala upp börnin sín allt til dauðadags.
Ég kynnti hér rétt aðeins sögu Margrétar frá Öxnafelli og ef þið viljið fræðast meira um hana þá get ég bent ykkur á bækurnar ,,Skyggna konan” og ,,Skyggna konan II” eftir Eirík Sigurðsson.