Lækningamiðillinn Einar Jónsson, eða Einar á Einarsstöðum eins og oftast kallaður, er einn sá manna sem ég hef hvað mestar mætur á af þeim sem stundað hafa þetta starf.
Einar er fæddur 5. ágúst 1915 að Einarsstöðum í Reykjadal og hann var þriðja barn foreldra sinna. Einar var mjög skyggn allt frá unga aldri og veittu menn því athygli að hann virtist sjá og heyra hluti sem enginn annar gat séð, heyrt eða skilið. Snemma fór hann einnig að ferðast utan líkamans og varð m.a. í þeim ferðum vitni að atburðum sem enginn gat vitað á þeim tíma. Fjölskylda hans hafði þó mikinn áhuga á andlegum málum en Einar lærði þó fljótt að hafa hljótt um þessa hluti enda skildu þetta fáir.
Einar var bóndi og tók við búi foreldra sinna ásamt bróður sínum Sigfúsi. Árin liðu og alltaf héldu sýnir og ferðalög Einars áfram. Það var ekki fyrr en árið 1955 að kona að nafni Guðrún Waage kom að Einarsstöðum. Hún var ein þeirra sem var miklum dulrænum hæfileikum gædd og hún sá strax á Einari að hann var einnig gæddur miklum hæfileikum. Hún sagði honum að hann væri kjörinn til starfa í þjónustu kærleikans og hvatti hann til að fara á fund sofandi miðils svo að læknar sem ættu erindi við hann næðu eyrum hans.
Árið 1956 fór hann til Akureyrar á fund Láru Ágústsdóttur miðils. Á fundinum kom fram maður sem hét Þórður Pálsson og var læknir hér á jörðinni. Hann sagði Einari meðal annars að 12 íslenskir læknar sem horfnir væru af jarðsviðinu hefðu fundið með honum hæfileika sem þeir gætu nýtt til að hjálpa sjúkum hér á jörðinni. Einari leist ekkert á þetta og kvaðst ekki vera neinn maður í svona starf. ,,Það er ekki þitt að segja til um það” svaraði Þórður, ,,við höfum fundið hjá þér hæfileika er okkur henta. Við erum þjónar Guðs og störfum í krafti frá honum, það ert ekki þú sem átt að lækna, heldur miklu fremur vera jarðsamband fyrir það starf er okkur er leyft að vinna” Einar færðist enn undan en það dugði ekki til. Næstu fundir voru haldnir árið 1957 þar sem læknarnir kynntu sig fyrir honum og upp úr því byrjaði starf Einars sem læknamiðill.
Einar þurfti aldrei að auglýsa sig, heldur spurðust störf hans út og þau undur sem gerðust í nálægð hans. Til eru ótal frásagnir af fólki sem notið hefur góðs af starfi hans og er ég meðal annars einn af þeim. Öll þau ár sem Einar starfaði sem læknamiðill var hann einnig bóndi á Einarsstöðum. Því starfi sinnti hann á daginn og þegar kvölda tók fór fólk að streyma á Einarsstaði til að leita hjálpar.
Þann 14. mars 1969 gekk hann að eiga Erlu Ingileifu Björnsdóttur. Hún átti eftir að reynast honum ómetanleg hjálparhella í starfi hans. Á meðan Einar var að sinna bústörfum þá tók Erla á móti ótal símtölum og hjálparbeiðnum sem hún kom svo áfram til Einars. Á nánast hverju kvöldi var biðstofan hjá Einari full af fólki sem kom og leitaði hjálpar. Þeir síðustu fóru oft ekki fyrr en um seint og síðarmeir og þá átti Einar eftir að biðja fyrir þeim sem hringt höfðu um daginn og ekki fyrr en eftir það gat hann lagst til hvílu. Þess má geta að Einar tók aldrei fé fyrir aðstoð sína, hann hvorki vildi það né mátti.
Einar lést þann 24. febrúar 1987. Hann sinnti starfi sínu sem lækningamiðill allt til dauðadags.
Ég stiklaði hér á stóru um Einar Jónsson og ef þið viljið lesa meira um hann þá get ég bent ykkur á bækurnar ,,Brú milli heima” eftir Jónas Jónsson og ,,Miðilshendur Einars á Einarsstöðum” eftir Erling Davíðsson.