Sálfræðingurinn Carl Jung hélt því fram að trúarhvötin væri ein af frumhvötum mannsins. Það er örugglega alveg rétt; flestir hafa a.m.k. þörf fyrir að trúa á æðri máttarvöld einhverntíman á lífsleiðinni. Ég held þó að maður verði að TRÚA til að bænin virki; það er ekki nóg að biðja svona: Ó Guð – ef Guð er til, frelsaðu sál mín – ef ég er með sál.

Þetta sannar eftirfarandi saga, sem gerðist í Bandaríkjunum fyrir nokkrum árum. Í lítilli sveitakirkju sem lak eftir miklar rigningar, fór andlit Jesú smám saman að birtast. Kraftaverk tóku að eiga sér stað, fólk haldið ólæknandi sjúkdómum fékk fulla heilsu, blindir fengu sýn og svo framvegis. En áfram rigndi og myndin af Jesú skýrðist meir og meir. Á endanum kom í ljós að hún var plakat af sveitasöngvaranum Willie Nelson, sem málað hafði verið yfir löngu fyrr. Kirkjan hafði nefnilega áður verið félagsheimili, og þegar því var breytt í guðshús var bara málað yfir það sem var á veggjunum. Málningin þoldi hins vegar ekki lekann.

Þetta sýnir að trúin er máttug, að hugurinn er kröftugri en maður ímyndar sér. Og ef betur er að gáð má líka túlka þetta sem svo að Jesús sé ekki endilega sá sem hann virðist vera. Nú er ég ekki að halda því fram að Jesús sé endurfæddur sem sveitasöngvari, en það er ósennilegt að það sem sagt er frá í Nýja testamentinu hafi í alvörunni gerst. Jesús er einn af þessum svokölluðu sólarguðum sem dóu og risu upp aftur eins og sólin var fyrr á öldum talin gera á hverjum degi, eða, í stærra samhengi, á hverju ári. Það er ástæðan fyrir því að Jesús átti að hafa fæðst 24. eða 25. desember. Um þetta leyti eru vetrarsólstöður, þegar ljósið fæðist táknrænt á ný og daginn tekur að lengja. Sama ástæða er fyrir því afhverju Jesús á að hafa dáið og risið upp til himna á páskunum. Páskarnir eru alltaf haldnir skömmu eftir vorjafndægur, þegar dagurinn er orðinn lengri en nóttin. Þá hefur ljósið sigrað myrkrið og Kristur sigrað dauðann.

Fólk veit það almennt ekki, en hinir svokölluðu heiðingjar, þúsundum ára fyrir Kristni, dýrkuðu líka “son Guðs”. Frelsari þeirra fæddist á jólunum, hann breytti vatni í vín, dó á páskunum og gaf hold sitt og blóð í heilagri kvöldmáltíð. Og að sjálfsögðu var mamma hans hrein mey. Goðsagnirnar um hann voru síðan endurskrifaðar sem guðspjöllin um Jesú Krist, og voru allt í einu orðnar að sögulegum staðreyndum, hver svo sem ástæðan var.

Meira að segja hin frægu orð Krists, “Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið” eru miklu eldri en tvö þúsund ára og voru upphaflega höfð eftir egypska guðinum Ósiris, er einnig reis upp frá dauðum og sneri aftur – í goðsögunum – sem dómarinn mikli. Það er einmitt í Ósirisardýrkun Egyptalands sem raunverulegt upphaf Kristninnar er að öllum líkindum að finna, en dýrkun Ósirisar breiddist víða á sínum tíma þó nafni hans væri breytt eftir landsvæðum.

Þetta afsannar auðvitað ekki að Jesús hafi verið til. En hafi hann verið söguleg persóna hefur tilvist hans augljóslega blandast goðsögnum sem eru miklu eldri. Nú er erfitt að henda reiður á hver var hinn eiginlegi Jesús, hvað raunverulega gerðist og hvað er aðeins táknmynd fyrir það sem er handan við tíma og rúm, en það skiptir kannski ekki höfuðmáli. Mikilvægari er sú staðreynd að Guð er ekki bundinn tilteknu formi, þó hann geti tekið á sig ólíkar myndir og kallast mismunandi nöfnum.

Mér finnst hollt að hugsa um þetta, sérstaklega núna rétt eftir jólin, sem þurfa ekki endilega að vera bara minningarhátíð um mann sem fæddist - eða fæddist ekki - fyrir tvö þúsund árum. Jólin eru miklu eldri en kristnin og eru í rauninni alheimsleg hátíð endurkomu ljóssins. Það er því hægt að hugleiða það sem raunverulega skiptir máli í lífinu og jafnvel halda upp á fæðingu nýs andlegs lífs innra með okkur um jólin, án þess Biblían komi þar nærri.

En hvað er það sem skiptir mestu máli? Flest allir andlegir meistarar segja tilgang lífsins vera að þroskast, að finna sannleikann, að komast æ betur í snertingu við það sem er æðra. Okkur er sagt að lífið sé eilíft, og dauðinn sé ekki endir alls. Er það ekki kjarni Kristindómsins? Dauði, hvar er broddur þinn? Minningar um fyrri jarðvistir þrjú þúsund barna hafa verið rannsakaðar af vísindamanninum Dr. Ian Stevenson og öðrum, og niðurstaða þeirra er sú að sterkar vísbendingar séu um að við lifum eftir dauðann og komum til jarðarinnar í nýjum líkama aftur og aftur.

Þetta hlýtur að vera hinn stóri sannleikur, að lífið sé eilíft, að Guð sé til og búi í öllu. Engin trúarbrögð hafa einkaleyfi á því, og það er ekki nóg að prestar eða einhverjir aðrir segi manni hvað sé satt og hvað ekki. Hver og einn verður að upplifa sannleikann fyrir sjálfan sig, og ég held að leitin að honum sé kjarni allra trúarbragða. Ef þetta er haft í huga, að grundvöllur allra trúarbragða sé hinn sami, þá er auðveldara að rækta með sér umburðarlyndi og verða ekkert vondur þó aðrir hafi aðrar trúarskoðanir en maður sjálfur.

Pannox

(sjá THE JESUS MYSTERIES eftir Freke & Gandy; ennfremur “The Gnostic Christ and Historical Jesus” úr LECTURES eftir Massey og OSIRIS, THE EGYPTIAN RELIGION OF RESURRECTION eftir Wallis Budge)