Tarotspilin eru til í óteljandi útgáfum. Það eru meira að segja til James Bond tarotspil, en þau komu á markaðinn eftir frumsýningu myndarinnar Live and Let Die með Roger Moore í aðalhlutverkinu. Jane Seymore lék þar saklausa vúdúnorn sem hafði aðsetur í búð að nafni Oh! Cult! Shop og las úr tarotspilunum af ótrúlegri nákvæmni. Margir þekktir og alræmdir galdramenn hafa líka búið til sínar eigin útgáfur af tarotspilunum, og nægir þar að nefna spil Aleisters Crowley og Arthurs Edwards Waite. Fleiri hafa skapað frumleg tarotspil, þar á meðal er myndlistamaðurinn H.R. Giger, sem fékk óskarsverðlaunin fyrir Alien-skrýmslið, og svo eru líka til tarotspil sem byggja á hugmyndafræði sálfræðingsins Carls Jung. Meira að segja í rykföllnu Guðspekifélaginu hafa verið haldnir há-andlegir fyrirlestrar um “þroskaleiðina” og “mystískar upplifanir” sem tengjast tarotspilunum.

Ýmsir þöngulhausar innan dulspekigeirans halda því fram að tarotspilin séu eldgömul og komi frá Egyptalandi til forna.Gamall hippi - sem nú er prestur - sagði mér eitt sinn ábúðarfullur á svipinn að vitur maður í Egyptalandi hafi gert sér grein fyrir því að þó ekki væri hægt að treysta kostum mannsins, væri hægt að reiða sig á galla hans. Því hafi hann sett alla visku heimsins í tarotspilin, því hann vissi að spilafíknin myndi fylgja manninum um ókomna tíð. Það hefur hún líka gert fram að þessu, tarotspilin voru lengi vel ekki aðeins notuð sem spáspil heldur einnig eins og venjulegi spilastokkurinn í dag. En í rauninni er samt ekkert vitað með vissu um uppruna tarotspilanna, þó margar kenningar séu til. Í dag er komin hefð fyrir því að tengja tarotspilin kabbalismanum, sem er dulhyggjuhefð gyðinga og er nýlega orðinn að hálfgerðum trúarbrögðum í Hollywood.

Hvert tarotspil er mynd af ákveðinni hlið hins svonefnda tré lífsins, sem er miðpunktur kabbalismans og sú heimsmynd sem kabbalisminn grundvallast á. Tré lífsins er einskonar kosmískt landakort, því á trénu eru tíu heimar og eru þessir heimar tengdir saman af 22 leiðum eða greinum. Neðsti heimurinn er Jörðin, efnisheimurinn sem við skynjum með skynfærunum fimm. Fyrir ofan eru svo níu aðrar veraldir, hver annarri háspekilegri. En ákveðnar frummyndir (erkitýpur) tengjast öllum þessum heimum og eru þær allstaðar í kringum okkur. Þetta eru gjarnan sömu frummyndirnar og stjörnuspekin fjallar um - næst neðsti heimurinn á Tré lífsins er t.d. táknaður með tunglinu og öllu því sem tunglið stendur fyrir - þ.á.m. fortíðinni og móðurinni, síðan kemur merkúr - hið vitsmunalega, svo venus - tilfinningamálin, og þannig koll af kolli. Það má því segja að tré lífsins sé kort af mannsálinni og hinum ólíku kröftum í kringum okkur.

Eins og áður sagði eru tarotspilin myndræn túlkun á öllum hliðum trésins. Spilin eru 78 talsins, þar af 22 trompspil sem standa fyrir leiðirnar 22 á milli heima trésins. Síðan eru 40 venjuleg spil, tíu í hverri sort og eru tíurnar fjórar þá tákn neðsta heimsins á trénu, sem er númer tíu og stendur fyrir jörðina eins og þegar er komið fram; níurnar standa fyrir tunglið og heim númer níu á trénu, átturnar fyrir merkúr, og svo framvegis. Að lokum eru fjögur mannspil í hverri sort sem tákna ólíkar birtingarmyndir elementanna, þ.e. höfuðskepnanna fjögurra.

Tarotspilin eru venjulega notuð sem spáspil, og er hvert spil tenging við ákveðna frummynd. Þessar frummmyndir, eða kraftar, eru í okkur öllum og af því leiðir að allir geta notað spilin. Þau geta gefið ágæta innsýn inn í það sem er að gerast inn í manni, hver rót einhvers tiltekins vandamáls sé - og svo er líka hægt að nota spilin í hugleiðslu með því að hafa þau sem nokkurskonar byrjunarreit á flakki um innri heima.

Fallegustu spilin eru án efa þau sem Crowley gamli hannaði, en forvitnilegasta útgáfan í seinni tíð líklega New Orleans vúdútarotspilin, sem sameinar vúdútrúna og tarotheimsmynd kabbalismans. Því miður hef ég ekki séð vúdúspilin í búðum hérlendis, en hægt er að panta þau á Netinu, t.d. á amazon.com.

Tarotspil eru tilvalin tækifærisgjöf, því eins og segir í laginu Crowleymass eftir Hilmar Örn Hilmarsson: “Bráðum koma blessuð Krjólin, börnin fara að hlakka til. Allir fá þá eitthvað fallegt, í það minnsta tarotspil.”

Pannox

PS: Krjól er tilraun til að íslenska Crowleymass, sem er að sjálfsögðu fæðingarhátíð frelsarans… Hún verður auðvitað að ríma við jólin!!!