Hvernig á að fara út úr líkamanum

Eftir Pannox

Sýndarveruleikinn og veraldarvefurinn eiga eftir að renna saman í nánustu framtíð. Þá situr maður ekki lengur fyrir framan tölvuskjá og bendir hingað og þangað með músinni til að ferðast um netið. Í staðinn hallar maður sér bara aftur í þægilegum stól, setur fisléttan hjálm með sérstökum gleraugum á höfuðið og stýrihanska á hendurnar, loggar sig inn á netið og svífur svo um í sýndarveruleikanum, frjáls eins og fuglinn. Hinar ýmsu heimasíður munu birtast manni sem byggingar, fjöll, tré eða annað, og inni á veraldarvefnum verða heilu borgirnar þar sem maður getur hitt annað fólk á netinu, átt við það samræður og jafnvel kynmök!

Þetta síðastnefnda er reyndar þegar til þó tæknin sé ekki mjög fullkomin; þá þarf sértakan búning með innbyggðum víbratorum á réttum stöðum, skjá og nógu öfluga tölvu. Þegar búið er að koma sér í samband, birtist hinn aðilinn á skjánum, og með músinni er stjórnað hvað maður gerir við líkama hans eða hennar, sem upplifir það svo með víbratorunum í eigin búningi - annarsstaðar í heiminum. Þessi tækni er kölluð “teledildonics”.

Framtíðin lofar semsagt góðu. Það verður gaman að geta farið út úr líkamanum, ferðast um í öðrum heimi og lent í ævintýrum. En dulspekingar hafa reyndar talað um sýndarveruleika frá örófi alda. Þá er venjulega átt við ósýnilega heiminn, veröldina þar sem framliðnar sálir hafast við. Þetta er heimur sem er áþekkur jörðinni. En hann er ekki efnislegur, þó hann sé raunverulegur þeim sem þar búa. Eða þá að hann er úr fíngerðara efni en hér þekkist; kannski bara annarri bylgjulengd. Venjulegt, lifandi fólk skynjar ekki þennan heim; maður þarf að vera skyggn til þess. En samkvæmt kenningunni búa allir yfir dulrænum hæfileikum - þeir eru bara misnálægt yfirborðinu. Það þýðir að allir geta séð inn í ósýnilega heiminn, og jafnvel ferðast þar um ef réttu aðferðinni er beitt.

Miðlar eru kunnir fyrir sálnaflakk, astralferðir eða sálfarir eins og svona ferðalög eru stundum kölluð. Miðillinn Hafsteinn Björnsson, sem þekkti stundum ekki muninn á dauðu fólki og lifandi er hann vann sem lyftuvörður, kynntist ósýnilega heiminum snemma á ferli sínum. Frá því er sagt í bókinni “Líf er að loknu þessu” eftir Jónas Þorbergsson, fyrrum útvarpsstjóra. Hafsteinn lýsti einni reynslu sinni á eftirfarandi hátt: “Það mun hafa gerst fyrir þremur kvöldum að ég kom heim… um klukkan 10.30. Konan mín var ein heima og var hún það sinni háttuð og sofnuð. Ég fór eitthvað að dunda, sem er ekki í frásögur færandi, og gekk síðan til hvílu. Ég las í bók dálitla stund, slökkti síðan ljósið og bjóst til að sofa. Ég hefi það fyrir venju, nær því ávalt, að leggjast fyrst á bakið og sofna þannig. Svo var að þessu sinni. Ég er oftast mjög þreyttur, er ég geng til náða og sofna fljótt og svo mun hafa verið þetta kvöld. Ekki mun hafa liðið á löngu uns ég heyri léttan þyt, ekki óþægilegan, en sem ég þó glögglega heyrði. Ég þykist opna augun og sé þá eitthvað út í óendanleikann, ef svo má segja. Það er blár himinn og nokkurt skýjafar. Jafnskjótt og ég sé þetta, tek ég eftir því að ég er kominn fram úr rúminu, en líkami minn liggur kyrr og hvílist. Um leið verð ég var við hvítklædda veru í svefnherbergisdyrunum.”

Er hér var komið sögu sá Hafsteinn inn í aðra veröld, hann greindi fjörð sem virtist vera “merlaður tunglsljósi.” Svo varð hann var við tvo menn, annan lítinn en hinn stóran, og sagði: “Og þegar ég hefi horft á þá um stund veit ég ekki fyrri til en við stöndum allir í litlu dalverpi, kjarri vöxnu að sjá öðru megin, en grasblettir líkir túnum hinum megin og lyngásar hið efra… Sé ég þá út yfir óravíðáttu af svo fögru landslagi, þar sem skiptast á lágir skógar, lyngásar og stöðuvötn sumstaðar á milli. Utar í mikilli fjarlægð sé ég annes og út frá þeim eyjar og sker.”

Hafsteinn sagði að allstaðar hafi verið bústaðir manna, allt lítil hús og allsstaðar var fólk. Sumt af því sá hann og yfir öllu var friður og samhljóman.

Lýsingar fólks sem hefur “dáið” og síðan komið til baka, eru áþekkar. Oft er talað um göng sem viðkomandi ferðast eftir inn í aðra veröld. Þessi heimur er fullur af ljósi og þar eru framnliðnir ættingjar og vinir.

Sjáandinn mikli, Emanuel Swedenborg sem var uppi var á átjándu öld, var á svipuðum nótum. Hann vakti mikla athygli er hann skynjaði stórbruna á meðan hann sat í veislu í órafjarlægð, lýsti öllu í smáatriðum fyrir furðu lostnum veislugestunum, sem urðu þó ennþá meira undrandi er þeir komust að því skömmu síðar að hann hafði haft rétt fyrir sér í einu og öllu. Swedenborg var rammskyggn, og hann ferðaðist út úr líkamanum hvað eftir annað. Hann skrifaði fjölmargar bækur um háspekileg efni, og lýsti því sem hann skynjaði mjög nákvæmlega. Segja má að sum verka hans séu nokkurskonar túristahandbækur fyrir sálnaflakkara.

Swedenborg og fleiri segja að ósýnilegi heimurinn sé afar margbreytilegur. Þar séu veraldir fegurri en orð fái lýst, en einnig viðbjóðslegar vistarverur þar sem framliðnar verur á afar lágu plani hafast við. Það þýðir að ef maður skildi slysast út úr líkamanum, er best að sækja í fegurðina og ljósið en ekki myrkrið og ömurleikann þar sem púkar og dauðir rónar búa. Maður vill ekki hafa svoleiðis hyski í kringum sig.

Kenningin á bak við sálfarir er að við séum í raun með fleiri en einn líkama. Efnislíkama, og líka fíngerðari líkama - fleiri en einn, sem lifa áfram þó jarðlíkaminn deyi. Oftast er talað um svonefndan astrallíkama, eða geðlíkama, og líka orsakalíkama, eða innsæislíkama, sem er ennþá fíngerðari en astrallíkaminn. Svo mun einnig vera til huglíkami, sem er mitt á milli hinna tveggja. Eiginlega eru allir þessir líkamar eins og föt; útigallinn er efnislíkaminn, gallabuxurnar og skyrtan eru astrallíkaminn, og nærbuxurnar huglíkaminn; innsæislíkaminn hlýtur þá að vera pungbindið… Svo er til einhver kjarni líka sem er innst, og takmark allrar andlegrar iðkunar er að komast í snertingu við hann.

Allir þessir líkamar eru tengdir hver öðrum, en þegar maður fer út úr líkamanum er efnislíkaminn skilinn eftir. Viðkomandi sér þá sjálfan sig liggja sofandi í rúminu, sem getur verið áfall af verstu sort. Bara það er nóg til að maður skutlast til baka á augabragði, með hjartslátt og í svitabaði. Samt er ekkert að óttast, það er engin hætta á ferðum. Engar líkur eru á að græneygður púki að handan yfirtaki efnislíkamann á meðan maður skreppur frá, eins og margir óttast. Ekki heldur að maður deyi á meðan. Og til að komast til baka er bara nóg að vilja það.

Sumir segja að fara alveg út úr líkamanum eins og Hafsteinn miðill lýsti hér að ofan, sé erfitt og að það sé miklu auðveldara að ferðast í flugvél. En aðrir benda á að margir draumar séu í raun “ómeðvitaðar” sálfarir, og það þýðir væntanlega að allir geti ferðast til landsins að handan. Maður verði bara að komast í einhverskonar draumaástand eða trans, án þess þó að sofna. Það er ofureinfalt, og hér á eftir fara leiðbeiningar í sálnaflakki.

Byrjaðu á því að fara í djúpslökun. Liggðu á gólfinu, því í rúminu er þér hættara við að sofna. Ýmsar aðferðir eru til við að komast í mikla slökun; þú gætir byrjað á því að spenna og slaka á hinum ýmsu líkamshlutum, og þegar þú hefur náð góðri vöðvaslökun, telurðu aftur á bak, frá hundraði niður í núll og í leiðinni ímyndar þér að þú sért að ganga niður tröppur, niður í einhverja fagra veröld þar sem ekkert getur angrað þig. Svo geturðu líka látið sem þú sért í huggulegum sumarbústað þar sem kindurnar gala og beljurnar kvaka, og smalinn sendir þér sætt bros :)

Þegar þú ert orðin(n) nógu afslöppuð/afslappaður hættirðu að finna fyrir líkamanum og vitund þín er frjáls til að ferðast hvert sem er. Þá áttu að ímynda þér að þú farir út úr líkamanum og
sjáir hann liggja á gólfinu. Sjáðu því næst fyrir þér dyr sem í þínum huga skilur á milli þessa heims og hins. Þegar þú sérð dyrnar nógu skýrt skaltu opna þær og ganga inn fyrir. Lokaðu dyrunum á eftir þér, og ímyndaðu þér veg eða göng sem þú gengur eftir þar til þú kemur að öðrum dyrum. Þetta eru dyrnar inn í hinn heiminn; þú opnar þær líka, ferð inn og lokar á eftir
þér. Að ímynda sér að það séu tvær dyr og stígur á milli er mikilvægt, því á meðan þú ert að fara á milli þeirra ertu í leiðinni að losa þig við alla líkamsvitund. Dyrnar eru táknrænar, og að loka þeim á eftir þér þýðir að þú ert að loka á efnisheiminn um stundarsakir.

Þegar þú ert komin inn í hinn heiminn skaltu gefa þér tíma til að skynja allt sem þar er. Astralskynfærin eru stundum smá tíma að taka við sér, svo best er að vera þolinmóður. Ekki er óalgengt að fólk sjái fyrst allt í þoku, en smám saman mun henni létta.

Þarna geturðu verið eins lengi og þú vilt, en þegar þú vilt fara til baka, skaltu fara aftur að dyrunum tveimur, opna og loka á eftir þér, og svífa svo mjúklega í líkamann á ný.

Vonandi koma þessar leiðbeiningar að notum. Til eru fjölmargar bækur um sálfarir, og vil ég sérstaklega benda á tvær sem eru sérlega gagnlegar. Þetta eru The Inner Guide Meditation eftir Edwin C Steinbrecher (Samuel Weiser 1988) og Visual Magick - A Manual of Freestyle Shamanism eftir Jan Fries (Mandrake 1992). Báðar þessar bækur ættu að fást á http://www.amazon.com.

Góðar stundir!