Margar rannsóknir hafa verið gerðar á miðlum og eru til tvær gerðir þeirra, hugmiðlar og efnismiðlar. Hugmiðlar virðast í sumum tilvikum fá vitneskju úr umhverfinu sem þeir að öllu jöfnu ættu ekki að hafa neinn aðgang að. Rannsóknir að þeim beinast að því hve mikið er rétt af því sem þeir segja og að útiloka að þeir hafi getað nálgast upplýsingarnar eftir venjulegum leiðum. Rannsóknir á efnismiðlum beinast hins vegar að því hvort þeir geti stundum valdið breytingum eða hreyfingum á efni án þess að nein efnisleg orsök finnist fyrir því.
Til er fjöldi sjúkdóma þar sem fólk finnur fyrir óraunveruleikatilfinningu og fer að sjá ýmsa hluti. Geðklofi og fleiri geðsjúkdómar lýsa sér t.d. í undarlegum sýnum og einnig geta röng efnaskipti í skjaldkirtli, hormónatruflanir og sum lyf valdið ofskynjunum. Þar að auki getur viss tegund flogaveiki lýst sér eins og transástand hjá miðli og getur sumt fólk kallað hana fram sjálft við vissar aðstæður. Þess vegna getur maður stundum ekki treyst skynjun sinni og liggur því beint við að vísindi séu nauðsynleg til að skýra ýmsa hluti.
Áður fyrr beindust tilraunir að því að athuga hvort hugmegin og dulskynjun væru virkilega til og bentu þær sterklega til þess. Í dag er helst verið að athuga hvernig sambandi yfirskilvitlegrar gáfu kann að vera háttað við aðra þætti í sálarlífi mannsins, hvort fólki gæddu vissum eiginleikum gangi betur við tilraunir heldur en öðrum. Margir vísindamenn prófa einnig og þróa með tilraunum ýmsar kenningar sem settar hafa verið fram um yfirskilvitleg fyrirbæri. Á Íslandi var aðallega verið að rannsaka slík fyrirbæri á fyrri hluta 20. aldar og þá mest af þremur prófessorum, Guðmundi Hannessyni, Ágústi H. Bjarnasyni og Haraldi Níelssyni, svo og rithöfundinum Einari H. Kvaran, sem stofnaði ásamt fleirum hið svonefnda Tilraunafélag, sem var fyrsti félagsskapurinn ætlaður til að kanna yfirskilvitleg fyrirbæri.
Sá miðill sem þeir beindu helst athugunum sínum að var efnismiðillinn Indriði Indriðason. Þau fyrirbrigði sem virtust eiga sér stað í námunda við hann voru m.a. hreyfingar á hlutum, lyftingar á stórum þungum húsgögnum sem einnig gátu svifið um loftið og lyftingar á sjálfum miðlinum, þung högg á veggjum, smellir í lofti, ljós birtust og hljóðfæri liðu um loftið og spiluðu af sjálfu sér, mannleg form birtust, raddir heyrðust tala og í þrjú skipti virtist vinstri handleggur Indriða hafa gufað upp! Ef ekki væri fyrir umfangsmiklar rannsóknir sem gerðar voru á þessum fyrirbrigðum yrðu þau örugglega vera talin svik og brellur. Var Indriði rannsakaður af mörgum vísindamönnum en aldrei þó jafnvel og af Guðmundi Hannessyni, sem gerði síendurteknar athuganir þar sem hann beitti öllum þeim varúðarráðstöfunum sem honum datt í hug til að koma í veg fyrir hugsanleg svik og blekkingar af hálfu Indriða og/eða annarra manna. Indriði varð aldrei uppvís að svikum.
Haraldur Níelsson prófessor greinir frá eftirfarandi fyrirbrigði sem átti sér stað að næturlagi þann 10. desember 1907 í Tilraunafélagshúsinu: „Miðillin tekur nú aftur til að klæða sig, og fer í buxurnar. Þá hrópar hann enn einu sinni á hjálp. Brynjólfur Þorláksson stóð enn í fremra herberginu, en þýtur nú inn til miðilsins og sér að hann sveiflast á lofti, með fæturna út að glugganum. Hann tekur þá í hann, dregur hann niður í rúmið og heldur honum þar. Þá finnur hann að bæði honum og miðlinum er lyft upp og hrópar þá á Þórð Oddgeirsson til hjálpar. Þórður fer inn í svefnherbergið, en á móti honum er kastað stól sem féll niður hjá ofninum í fremra herberginu. Þórður sveigði til hliðar til að komast hjá stólnum og kom nú inn í svefnherbergið. Brynjólfur lá þá ofan á brjósti miðilsins, en Þórður lagðist ofan á kné hans, og var hann þá allur á iði í rúminu. Þá var undirkoddanum undir svæfli miðilsins kastað upp í loftið og féll hann niður á gólfið. Í sömu andránni komi kertastjakarnir sem voru í fremra herberginu og var þeim þeytt niður í svefnherberginu.“ Hugsið ykkur hvað það hlýtur að vera gaman að vera draugur…
Svo kemur restin á morgun…
Kveðja,
Divaa