Allir geta séð árur. Fólk hefur alla tíð getað séð árur. Mörg forn hellamálverk og helgimyndir sýna eins konar ljós í kringum höfuðið á fólki, þ.e. það sem margir kalla geislabaug. Þessir geislabaugar hafa líka sést á fornum myndum Egypta, Indverja, Grikkja og Ítala og draga sannarlega upp mynd af árum. Það er einnig minnst á árur í helgiritum flestra þjóða. En ég get glatt ykkur með því að það eru ekki bara englar og dýrðlingar sem hafa geislabaug heldur við öll. Áran er almennt talin vera eins konar útgeislun þess lífskrafts sem allar lífverur hafa og er yfirleitt marglituð. Hindúar kalla þessa orku prana, Húnar kölluðu hana mana, Paracelsus, svissneskur gullgerðarmaður og læknir frá 15. öld, kallaði hana munis, Mesmer, sem var austurrískur læknir og frumkvöðull, animal magnetism og svo lengi mætti telja, en skyggnt fólk í dag kallar hana yfirleitt á ensku „the etheric force“ . Almenna heitið er samt ára (aura á ensku).
Seint á fjórða áratug 20. aldar uppgötvaði rússneskur vísindamaður, Semyon Kirlian, fyrir tilviljun hvernig ljósmynda mætti áruna. Hann tók eftir litlu ljósi milli húðar sjúklings og rafskauts þegar sjúklingurinn var í raflostsmeðferð á geðsjúkrahúsi. Kirlian brenndi sig í fyrsta skiptið sem hann reyndi að mynda þetta ljós, en ljósmyndin sýndi vissulega einhvers konar útgeislun frá mannslíkamanum svo að sársaukinn gleymdist fljótlega. Kirlian og eiginkona hans, Valentina, eyddu yfir tveimur áratugum í að þróa þessa áruljósmyndun. Myndirnar eru ekki teknar með venjulegri myndavél, heldur er hlutnum sem á að mynda venjulega stillt upp milli tveggja sérstakra málmplata og situr filman á einni slíkri á móti þeim hluta sem á að ljósmynda. Þessar myndir hafa verið nefndar Kirlian myndir.
Kínverskir nálastungulæknar halda því fram að það séu vissir punktar á líkamanum, 700 talsins reyndar, þar sem lífsorkan streymir um og að þeir geti haft áhrif á líkamann með því að stinga nálum í þessa punkta. Séu teknar Kirlian myndir af mannslíkamanum sést greinilega að þar sem nálastungupunktarnir eiga að vera er bjartara ljós. Þetta höfðu kínverjar vitað í þúsunda ára.
Í dag eru árur yfirleitt myndaðar öðruvísi. Þá eru sérstakir skynjarar festir við húð fólks og skynja oftast nálastungupunktana og varpa samkvæmt þeim upplýsingum mynd af árunni á tölvuskjá. Þessi forrit eða myndavélar hafa verið bornar saman við Kirlian myndirnar og það sem skyggnt fólk segist sjá og hafa þannig verið þróuð til að sýna sem nákvæmasta mynd af árunni. Því miður mynda þessar vélar áruna rafrænt en ekki raunverulega mynd af henni. Það kemur þó ekki í veg fyrir að það sé ansi skemmtilegt að fá áruna sína myndaða á þennan hátt. Betra líf í Kringlunni býður upp á þessa þjónustu og er bæði hægt að fá videoupptöku og ljósmyndir af árunni ásamt upplýsingum um hvað litirnir þýða um persónuleika manns. Greinarhöfundur prófaði þetta sjálfur einn daginn og var ekki laust við að persónulýsingarnar sem fylgdu með ættu nokkuð vel við. Taka ber þó fram að slíkt ætti að taka af léttúð fremur en alvöru, enda að mestu leyti gert til gamans.
En hvernig er áran eiginlega? Í fyrsta lagi hefur hún tíu orkustöðvar en ekki bara sjö eins og flestir telja, þó þær séu vissulega megin orkustöðvarnar. Þessar þrjár orkustöðvar eru: 1. fyrir neðan fæturna (litur: magenta), 2. milli öklanna (litur: dökkrauður), 3. fyrir innan rófubeinið (litur: rauður), 4. 3-6 cm ofar (litur. appelsínugulur, 5. við sólar plexus (litur: gulur), 6. við hjartað (litur: grænn), 7. í hálsinum (litur: ljósblár), 8. í heilanum (litur: blár), 9. rétt fyrir ofan augabrýr (litur: indigóblár) og 10. fyrir ofan höfuðið (litur: fjólublár). Allar gegna þessar orkustöðvar sérstöku hlutverki en of langt mál er að fara með það hér. Hægt er þó að opna þessar stöðvar og stjórna þeim með mikilli þjálfun þó ekki sé mælt með því. Yogar telja það yfirleitt mjög hættulegt og kundalini yoga, sem vinnur með orkustöðvarnar, er ekki öllum fært og hafa sumir farið illa út úr því að stunda það og jafnvel orðið geðveikir.
En litir árunnar merkja líka eitthvað og er þá talað um persónuleika fólks og skapbrigði. Rauður fylgir venjulega fólki sem hefur gott sjálfsálit og vilja til að ná markmiðum sínum og velgegni. Þetta fólk er oft mjög hæft til stjórnunar. Appelsínugulur fylgir léttlyndu fólki sem auðvelt er að koma sér saman við og er jafnan jarðbundið. Gulur er litur þeirra félagslyndu. Þetta fólk er fullt af eldmóði, sveigjanlegt og fer sjaldnast mjög djúpt ofan í hlutina þó það kynni sér næstum alla hluti. Grænn er friðsamlegur og róandi litur og fólk með þennan lit er oftast mjög samstarfsfúst, traust og örlátt þó það geti átt það til að vera þrjóskt stundum. Fólk með bláan grunnlit er einlægt, heiðarlegt og segir yfirleitt alltaf það sem þeim finnst. Það hefur mikinn eldmóð þó það klári sjaldnast það sem það byrjar á. Indigóblár fylgir þeim sem hafa unun af því að hjálpa öðrum og líður yfirleitt best þegar þeir eru umkringdir ástvinum. Fjólublár er andlegur litur þó margir sem þennan lit hafa reyni að afneita þessari hlið lífsins. Það gerir það oftast að verkun að þeir eru óhamingjusamir og finnst þeir ekki finna sinn stað í lífinu. Þegar þeir átta sig á þessu fer ára þeirra að vaxa og lýsa meira. Aðrir litir eru silfur, gull, brons, bleikur og hvítur.
Fyrir þá sem hafa áhuga á að vita meira vil ég benda á allar þær bækur, sem fjalla nánar um árur og kundalini yoga, sem hægt er að nálgast í bókabúðum og Amazon.com.
Kveðja,
Divaa