Er þetta framtíðin?
Mig dreymdi mjög raunverulegan draum í nótt. Mér fannst ég vera niðri í bæ og að ég væri að fara að skoða ráðhúsið í fyrsta sinn á ævinni (ég hef aldrei skoðað ráðhúsið) en þar sem ég var stödd í ráðhúsinu þá heyrast allt í einu miklar sprengingar og skothvellir. Mér bregður alveg rosalega og fer inn á einhverja skrifstofu þarna í ráðhúsinu en þar var þá staddur Davíð Oddson ásamt öðrum ráðherrum og þar frétti ég að japanir og kóreumenn hefðu gert árás á Ísland. Þeir voru með herskip í höfninni og landgöngulið sem fór um allan bæinn og drápu allt sem fyrir varð. Ég varð mjög hrædd við að heyra þetta og hleyp út og sé þá hvar allur miðbærinn var ein sprengjurúst og dautt fólk allstaðar. Mér tekst einhvernveginn að flýja inn í holræsakerfið en er elt af japönum með vélbyssur og í því sem þeir eru að ná mér vakna ég í svitabaði. Þessi draumur vakti mig aðeins til umhugsunar hvað við erum heppin að búa hér á Íslandi þar sem ekkert stríð er en líka hvað frelsið og friðurinn geta verið brothætt eins og við sjáum bara í dag þegar Ástþór Magnússon situr í gæsluvarðhaldi fyrir hótanir um hryðjuverk á Íslandi. Er þetta framtíðin sem við getum átt von á?