“…eða svo segir samfélagið okkur.”
Og hverjum er ekki hjartanlega sama hvað samfélagið tautar og raular? Við ættum ekki að láta það hafa nein áhrif.
Varðandi börnin:
Ég hef einmitt heyrt þveröfuga hluti með börn og nammi: Ef maður lætur einn krakka fá nammi í poka og setur hann í hóp af öðrum börnum, þá gefur það með sér. Eða þá, ef nammi er sett í skál, þá byrja þau á því að skipta jafnt, svo enginn fái meira en aðrir.
Hvers vegna ættum við annars að miða við börnin þegar við tölum um eðli manna? Börn hafa t.d. enga kynhvöt eða þörf fyrir að fjölga sér. Jú jú - þeim finnst gott að fitla við eigin kynfæri og það allt, en það er hins vegar ekki merki um að þau hafi kynhvöt - eina sem það þýðir er að þau sækjast eftir því sem lætur þeim líða vel. Kynfæri eru síðan þannig úr garði gerð að “rétt tegund” af fitli við þau er afar ánægjuleg og góð. Semsagt; fitl við kynfæri veitir vellíðan, og þar sem að börn leita eftir vellíðan, þá fitla þau við kynfærin. Þau hafa hins vegar enga sérstaka löngun til að fitla við kynfæri annarra (og það er vert að hafa það í huga að ég er að tala um afar ung börn). Börn hafa semsagt dálítið öðruvísi hvatir en fullorðnir (þetta er sérstaklega greinilegt ef við kíkjum á hin dýrin), og það telst því varla vera almennilegur rökstuðningur fyrir því að græðgi sé eðlislæg að benda á börnin.
Svo er það einmitt ekki græðgi að taka minna þegar maður græðir meira á því heldur en að taka allt. Matgráðugur maður, svo dæmi sé tekið, etur og etur, jafnvel þegar honum er fulljóst að hann myndi græða miklu meira á því að hætta þegar hann er orðinn saddur.
Ég er ekki að neita því að manni sé eðlislægt að vilja hafa góða hluti í kringum sig, hafa það gott og svo framvegis. En það er einfaldlega allt annað en að vera gráðugur, sérstaklega að vera gráðugur að eðlisfari. Annars leiðist mér allt tal um að eitthvað sé “eðlilegt” og “óeðlilegt” þegar verið er að tala um menn. Þetta hugtak hefur verið notað svo mikið - misnotað svo mikið - að það er eiginlega orðið hálf-merkingarlaust, og mest allt tal um mannseðli endurspeglar fyrst og fremst gildismat þeirra sem nota orðið, en segir oftast fjarska lítið um eitthvað sem hægt væri að kalla eðli manna. Og það kemur mér raunar á óvart, hvað ég (og aðrir) er reiðubúinn að tala um það, þegar menn eru eins gífurlega fjölbreyttir og raun ber vitni: Það eru til nasistar, strætóbílstjórar, sjálfboðaliðar í hjálparstarfi, munkar og nunnur, samkynhneigðir og gagnkynhneigðir, fólk sem sankar að sér peningum sem það notar ekki og fólk sem gefur allt sem það á til góðgerðarmála (þegar það er búið að borga leigu, rafmagn og mat, auðvitað). Menn eru eiginlega of fjölbreyttir til að það sé eitthvað vit í því að tala um eðli manna.
Svo verður mannseðlið, eins og einhver kann að skilgreina það, stundum að afsökun fyrir einhverri ákveðinni breytni sem er annars engin góð og gild afsökun á: “Hvers vegna hataru alla sem eru ekki ”hvítir“ á hörund?” - “Bara, það er í eðli manns að hata það sem er frábrugðið manni sjálfum”; “Hvers vegna gefur þú, margmilljónerinn, ekki svo lítið sem hundrað krónur til einhverra góðgerðarmála?” - “Bara, það er í eðli mannsins að hjálpa engum nema sér og þeim sem tengjast manni blóðböndum, sem hafa eitthvað af sama erfðaefni og maður sjálfur”. Og svo framvegis. Þegar málin eru komin á þetta stig, þá er eiginlega bara um heigulshátt að ræða - maður þorir þá ekki að horfast í augu við sjálfan sig, sínar skoðanir og lífssýn. Þetta er líka kjörin leið til að afneita frelsi sínu - því maður þarf ekki að vera gráðugur og nískur, maður þarf ekki að hata þá sem eru ólíkir manni á litinn, og svo framvegis. Maður þarf ekki að fara eftir þessu “eðli”, og það er alls ekki alltaf rétt að gera það.
Og nú virðist þú mér vera helsti talsmáti þess að menn eigi að vera eins “eðlislegir” og hægt er. Segðu mér þá: Eru menn hræætur í eðli sínu, eða er þorri vesturlandabúa svona gífurlega óeðlilegur? Því við erum greinilega ekki rándýr, eða, ef við erum rándýr í eðli okkar, þá erum við langflest óeðlileg - hve margir veiða sér að staðaldri til matar? Flest etum við kjöt af dýrum sem aðrir hafa drepið, og höfum sjálf ekki átt neinn þátt í að ala það eða slátra. Það þýðir að við erum ekki að borða okkar eigin bráð; við erum að borða bráð annarra, kjöt af dýri sem við áttum lítinn þátt í að fella. Við erum hýenur (sem eru reyndar óhemju svöl dýr - ég er ekki einu sinni viss um að við náum þeim, því þær veiða jú stundum), ekki úlfar eða ljón.
En helsta ástæðan fyrir því að ég kæri mig lítið um tal um mannseðli (ég hef þó ekki enn náð að venja mig af þessum hugsunarhætti, og fell stundum í gamla farið aftur) er sú, að þá fara menn að tala um að eitt og annað sé “óeðlilegt” - hvað svo sem það er (aftur, slíkir dómar endurspegla fyrst og fremst gildismat þess sem dóminn fellir) - og fara þá gjarnan að tala um að slíku verði að eyða, eða eitthvað álíka. Og mér leiðist slík vitleysa.
“Þessu er ekki hægt að neita. Allavega ekki með rökstuðningi sem er virkilega rökréttur.”
Það þarf raunar afar lítinn rökstuðning og hversu rökréttur hann er skiptir óttalega litlu máli; það þarf ekki annað en að benda á heiminn, að benda á fólk sem er ekki í líkamsrækt til að vera stæltari en aðrir, kaupir ekki sportbíla til að eiga flottari bíl en hinir, dembir sér í rit Platóns til að vita meira um hann en margir aðrir og svo framvegis. Fólk er líka í líkamsrækt vegna þess eins að líkami þess er í órækt og ef þau vilja lifa lengi þá verða þau að hugsa vel um skrokkinn, eða kannske finnst því bara gaman að lyfta lóðum og reyna á sig; fólk kaupir sér fína sportbíla vegna þess að það er búið að vera með brennandi áhuga á sportbílum síðan það var lítið; það dembir sér í Platón vegna þess eins að Platón er gífurlega áhugaverður og gefandi höfundur. Það er auðvitað til fólk sem er að þessu til að vera betri en aðrir; það er líka til fólk sem gerir þetta vegna þess að telur að þetta hafi gildi í sjálfu sér, en þjónar í sjálfu sér engum “æðri” tilgangi.
All we need is just a little patience.