Í byrjun júní mánaðar bárust fréttir af því að ný skemmtanastjórn væri tekin við á Skuggabarnum , einum elsta skemmtistað Reykjavíkur. Boðuðu þeir Ásgeir Kolbeinsson og Gummi Gonzales breytingar og nýjar áherslur á staðnum og fyrstu helgarnar gekk allt að óskum. Staðurinn var vel sóttur af nýjum og gömlum fastagestum Skuggans og voru gerðar áætlanir um ýmsa spennandi viðburði í framtíðinni.
En skjótt skipast veður í lofti. Reykjavik.com hefur borist tilkynning frá Ásgeri og Gumma þar sem þeir tilkynna um starfslok sín á Skuggabarnum. “Kæru vinir og félagar. Við vinirnir, Ásgeir Kolbeins og Guðmundur Arnar höfum sagt skilið við Skuggabarinn eftir stutta en skemmtilega viðkomu. Ástæðurnar eru margþættar en þó helst þær að þau markmið sem við settum okkur í upphafi munu ekki ná fram að ganga þar sem Skuggabarinn verður ekki til í lok sumars, m.ö.o. honum verður breytt í hótel í byrjun september.”
Örlög Skuggabarsins verða semsagt þau sömu og Klaustursins á Klappastíg, sem nú er orðinn að Hótel Klöpp. Greinilegt er að þeir Ásgeir og Gummi eru ekki að yfirgefa Skuggabarinn í fússi. “Það var gaman að vinna á skemmtistað sem er jafn glæsilegur og Skuggabarinn er og vonumst við til þess að þið látið sem flest sjá ykkur þar það sem eftir er af þessu sumri og njóta seinustu augnablikana á þessum frábæra skemmtistað. Við þökkum fyrir alla þá aðstoð sem okkur hefur verið veitt á þeim tíma sem við höfum verið við stjórnvölin og óskum Skuggabarnum, Erni Garðars og starfsfólki hans góðs gengis.”
Samkvæmt okkar heimildum er DJ Nökkvi , sem áður sá um skemmtanastjórn staðarins, kominn í sitt gamla hlutverk
-www.reykjavik.com- -djamm-