Allt stefnir í heljarhátíð í Eyjum um næstu helgi. Uppselt er í ferðir Herjólfs og hefur einni næturferð verið bætt við og flugsætum til Eyja fer fækkandi.
Góður gangur er í skipulagningu Þjóðhátíðar í Eyjum sem fram fer í Herjólfsdal um komandi helgi en þar er brennan að taka á sig mynd og helstu mannvirki í dalnum eru komin upp. Ýmislegt á þó eftir að gera, enda ekki nema þriðjudagur, en yfir 800 sæti eru í boði yfir flóann hjá Flugfélagi Íslands fyrir gleðiþyrsta Íslendinga.
Valgeir Ágúst Bjarnason hjá Flugfélagi Íslands segir mjög mikið bókað til Eyja en að dæmigerð helgartraffík fylgi flugi til annarra áfangastaða á landinu. Verð á flugmiða til Eyja er á bilinu 11-12 þúsund krónur og ólíkt venjulegu flugi hækkar verðið ekki eftir því sem fyllist í vélina. Valgeir mælir þó ekki með að fólk bíði fram á síðustu stundu, enda er fátt meira svekkjandi en að missa þannig af Þjóðhátíð.
Næturferð hefur verið bætt við hefðbundna áætlun Herjólfs milli lands og Eyja og eru örfá sæti laus í hana en annars er uppselt í dallinn. Forsala miða í Eyjar lauk í gær og seldust töluvert fleiri miðar í ár en í fyrra og eru mótshaldarar himinlifandi með árangurinn.