Já aumingja litla Ísland.
Ég skil ekki þessa skilríkjaáráttu. Af hverju þarf að vera 22 ára aldurstakmark inn á flesta staði? Fólk er lögráða og sjálfráða 18 ára, má versla áfengi 20 ára en má ekki fara á almennilega dansstaði fyrren 22 ára!!! Fyrir mitt leiti má alveg lækka áfengisaldurinn niður í 18 ár (og endilega selja létt áfengi og bjór í matvöruverslunum), og setja aldurstakmörkin inn á staði niður í 18 ár, max. 20 ár.
Svona er þetta í mörgum nágrannalöndum Íslands, nema auðvitað í Svíþjóð (þar er jú allt bannað, og sums staðar er 23 ára fyrir stelpur en 25 fyrir stráka!). Eftir smá tíma munu staðirnir síðan þróast fyrir ákveðna hópa, en án þess þó að hækka aldurstakmörkin. Mér heyrist líka á fólkinu hérna að það vill helst skemmta sér með fólki á svipuðum aldri. Fólkið undir tvítugu vill bara komast inn, sama hvar það er, svo að það er lítið vandamál. Fólk upp úr þrítugu vill vera sér. Fólk milli tvítugs og þrítugs hefur það fínt saman, og síðan er fólk yfir fertugu síðast hópurinn. Ég skil ekki hvers vegna allir staðirnir á Íslandi þurfa að reyna að stíla inn á þotuliðið og pikköppliðið(22-30 ára), skýrir kannski stuttan lífstíma þeirra.
Kannski staðirnir ættu frekar að stíla inn á þann aldurshóp sem virðist stunda staðinn mest, frekar en að reyna að rembast við að krækja í sömu kúnna og einhverjir aðrir eru með. Það er svolítið þreytandi að skemmtistaðirnir séu alltaf að rembast og skipti um stíl á hverju kvöldi, sérstaklega þegar fólk þarf að punga út morð fjár til að komast inn. Ferlega svekkjandi að lenda í því að borga sig inn á stað og komast svo að því að það er svaka kántrýtónlist í gangi (nýr dj!), þegar maður enmitt hafði verið í svaka teknófílíng helgina áður á sama stað og aldrei skemmt sér jafn vel!
Ef ég var beðin um skilríki þegar ég var undir tvítugu gat ég alltaf talað mig í kringum það, leit ekki út fyrir að vera undir aldri. Strax daginn eftir að ég komst á aldur var ég beðin um skilríki!!! hahaha …
Ég hef upplifað að búa erlendis í nokkur ár og aldrei nokkurn tímann hef ég verið beðin um skilríki, og aldrei séð dyraverði biðja um skilríki. Inni í þeim stöðum sem ég hef verið á hef ég heldur ekki upplifað marga “krakka”. En svo gerðist svolítið skondið atvik í einni af mínum heimsóknum á klakann. Ég fór á Thomsen með vinkonu minni. Ég hafði aldrei farið þangað áður, staðurinn var ekki til þegar ég hafði verið á landinu síðast, og því um að gera að prufa. Vinkona mín er mjög barnaleg í útliti, við vorum 22 ára á þessum tíma en hún hefði alveg getað verið 16:) Nema að hún röltir inn, brosir sætt til dyravarðarins, sem rífur í aumingja mig og heimtar skilríki! Ég spurði hann hvers vegna, og svarið var einfalt, hann hafði ekki séð mig áður!!!!!!!
Nú vil ég taka fram að staðurinn var troðfullur af krökkum langt undir aldri svo að það er greinilega eftir hverju var farið við dyravörsluna. Ég fór aftur nokkrum dögum seinna á virkum degi með 17 ára systur minni, viti menn, ég er stoppuð! Nú hef ég aldrei verið álitin deginum yngri en ég er, og þess vegna var þetta nú hálfskondið. Systir mín hafði verið þarna kvöldið áður með kærastanum sínum, sami dyravörður … end of story.
En ég er nú ekki alveg búin með reynslusögu mína af dyravörðum dauðans. Ég fór annað slagið til Íslands, og var 26 ára þegar ég fór á pöbb með systur minni fyrrumtöluðu og vinkonum hennar (21-22 ára). Stelpurnar töltu inn fyrir eins og ekkert væri, en hver er stoppuð? Gamla kellingin! Ég sagði náttúrulega bara takk fyrir mig:) Ákvað að taka því sem hrósi að vera svona ungleg!
Mér finnst þetta gengið útí öfgar með þessi blessuðu aldurstakmörk. Ég er sjálf ekkert barnaleg, og það er afar sjaldan að fólk giskar á minn rétta aldur, yfirleitt tveimur þremur árum yfir:( (ekki alltaf gaman). Auðvitað er ekki gaman að vera álitin eldri en maður er, en ástæðan er mjög einföld, ég er næstyngst á vinnustaðnum og þess vegna spáir fólk ekki í því heldur telur að við séum öll á svipuðum aldri (við erum á aldrinum 25-39).
En mér finnst ömurlegt að vera beðin um skilríki af því að það var ekki mynd af mér í Séð og Heyrt í síðustu viku, eða af því að dyravörðurinn hefur ekki verið með neinni af vinkonum mínum. Og svo þegar maður loksins kemst inn á staðinn (er ekki beinlýnis tilbúin með skilríkin, á ekki von á að vera beðin um þau) þá kemst maður að því að staðurinn er troðfullur af smákrökkum sem hafa ekki einu sinni náð bílprófsaldri. Og hvernig skyldi þau nú hafa komist inn?