Hljómalind sættir sig ekki við að Reykjavík Music Festival verði ekki í sumar og því setti Kiddi saman sína eigin tónlistarhátíð, Reykjavík Mini-Festival. 2. júní koma fram í Laugardalshöllinni. Blonde Redhead sem er samansett úr japanskri söngkonu og ítölskum tvíburabræðrum. Sveitin er undir talsverðum áhrifum frá Sonic Youth og Fugazi sem hafa unnið mikið með þeim. Maus þekkja allir en þeir hafa verið stöðugt vaxandi frá því þeir unnu Músíktilraunir Tónabæjar árið 1994 og eru þeir að vinna að sinni fimmtu breiðskífu. Fjölmiðlar á Íslandi hafa ekki sparað hrósið á hljómsveitina Kuai. Orð eins og bjartasta vonin í íslenskum tónlistarheimi og fleiri hafa sést í gagnrýni um sveitina. Þeir eru að vinna að sinni fyrstu skífu. Úlpa er fersk sveit sem er undir áhrifum frá öllum en um leið mjög nýjungargjörn, mætið og hlýðið á þessa frábæru stráka. Plötusnúðar kvöldsins verða Propellerheads og þarf ekki að kynna þá frekar því ef þú þekkir þá ekki ertu hálfviti. 3. júní koma fram í Laugardalshöllinni Sigur Rós. Sveitin hefur brætt mörg hjörtun á ferð sinni um Bandaríkin og skiptir þá engu hvort það séu þá óþroskaðar unglingsstúlkur eða hálf-fimmtugir harðkjarnatrommarar eins og Lars Ulrich sem sendi strákunum þakkarbréf eftir að hafa verið viðstaddur tónleika með þeim. Hljómar, já Rúni Júl, Gunni Þórðar. Besta óuppgötvaða sixties-hljómsveitin í heiminum í dag. Eitthvað sem bæði aldnir og ungir verða að sjá. Gras mjög athyglisverð sveit. Margir okkar bestu tónlistarmenn hafa nú komið saman í bluegrass hljómsveit sem flytur alla sína tónlist órafmagnaða. Meðal meðlima eru Tena Palmer, Dan Cassidy, Jón Skuggi, Guðmundur Pétursson og Magnús Einarsson. Alex Gifford úr Propellerheads kemur nú aftur fram en nú sem sólóisti. Miðasala fer fram í Hljómalind

www.nulleinn.is