Heil og sæl öllsömul.
Nú er búið að vera frekar dautt yfir djamminu í Reykjavík í þó nokkurn tíma, ekkert sérstakt hefur verið að gerast…og þó stundum jú, bara ég hef allavega ekki haft tíma fyrir neitt nema skólann. En nú er öldin önnur, það er komið SUMARFRÍ og það þýðir tími fyrir djamm og læti!
Byrjar djammtíminn alveg afskaplega vel því núna á miðvikudaginn kemur stórstirnið DJ Sasha aftur til landsins og mun spila á NASA.
Þetta er tilvalið fyrir þá sem komust ekki í fyrra þegar hann spilaði svo eftirminnilega 16. júní 2003 á Gauknum og að sjálfsögðu fyrir alla hina líka!
Eftirfarandi texti er síðan tekin af www.becks.is:
Forsala aðgöngumiða verður í Þrumunni og hefst hún 5.maí. Það verða einungis 900 miðar til sölu og er miðaverð í forsölu 2.500 kr.
Miðaverð þeirra miða sem seljast um kvöldið verður 3.000 kr. En miðað við hvað salan gengur vel er búist við því að uppselt verði fyrir miðvikudagskvöldið.
Ljósakerfi og hljóðkerfi Nasa verður sérstaklega sett upp með það fyrir augum að trylla líðinn. Styrktaraðili kvöldsins er Becks og munu þeir bjóða upp á Becks og Becks Gold á góðu verði.
Stiklað á mjög stóru um Sasha:
Wales verjinn Sasha hefur fyrir löngu skipað sér sess meðal stærstu nafna danstónlistarinnar og þá aðallega sem plötusnúður þó svo að hann hafi lika getið sér mjög gott orð sem endurhljóðblandari og tónlistarmaður. Áhugasömum er bent á að kíkja inná heimasíðuna hans www.djsasha.com Þar er að finna biography, útgáfulista ásamt upplýsingar um staði sem hann hefur spilað á ásamt myndasafni.
Hann sló first í gegn sem plötusnúður í lok níunda áratugarins sem “resident” plötusnúður á Shelly´s en þar spilaði hann ameríska hústónlist sem var þá að ryðja sér til rúms á klúbbum Bretlands. Hann varð fyrst landsþekktur og jafnvel heimsþekktur þegar hann varð plötusnúður á hinum mjög svo fræga og mikið auglýsta Renaissance . Safndiskur með DJ mixi frá honum undir merkjum Renaissance kom honum svo endanlega í hóp þekktustu plötusnúða heims.
Á árunun 1993-1997 varð til plötusnúða dúó úr Sasha og John Digweed og saman gerðu þeir endurhljóðblandanir voru gríðarlega vel heppnaðar. Þeir ferðuðust um allan heim og spiluðu grimmt bæði á stærstu klúbbum heims sem og á stóru tónlistarhátíðunum sem voru í gangi á þeim tíma. Þeir gáfu út Northern Exposure sem geymdi þeirra efni og re-mix frá þeim. Hann hefur remixað listamenn eins og M-People, Pet Shop Boys, Simply Red, Madonnu og Gus Gus. Einnig gerði hann eigið efni fyrir DeConstruction.
Í seinni tíð hefur hann gefið út safndiska undir merkjum Global Underground og gefið út EP plötuna Xpander sem varð klúbbahittari 1999. Í samvinnu með Darren Emerson úr Underworld kom súperhittarinn Scorchio sumarið 2000. Í fyrra kom svo þótt ótrúlegt megi virðast fyrsta eiginlega breiðskífan frá Sasha, hin afar vel heppnaða AirDrawn Dagger.
Hann heldur alltaf mestri tryggð við plötusnúða starfið og er það ástæða þess að hann hefur ekki farið af TOPP 3 á lista DJ Magazine yfir plötusnúða heims frá því að listinn var fyrst birtur fyrir 7 árum síðan.
Dansþáttur þjóðarinnar heldur áfram að setja upp kvöld á Nasa í samvinnu við Plötuverslunina Þrumuna og Becks. Fyrst var það afmælishátíðin sem skartaði Layo & Bushwacka síðan, Misstress Barbara nú um páskana og svo núna á vormánuðum er komið að Sasha. Þetta samstarf hefur gengið mjög vel nú á síðustu mánuðum. Grétar úr Þrumunni og Party Zone hafa náttúrulega unnið saman með ýmsum hætti í gegnum árin. Fyrsta kvöldið sem Þruman og Party Zone héldu saman var hið magnaða kvöld með Timo Maas á Gauk á Stöng haustið 2001. Party Zone hefur nú haldið party undir nafni þáttarins í rúmlega áratug og hafa tugir erlendra listamanna og snúða spilað á þeim kvöldum. Mörg þeirra ógleymanleg en að fara yfir það er náttúrulega efni í heila grein. Það má benda á vefsíðu þáttarins www.pz.is fyrir þá sem vilja fylgjast með þættinum og starfssemi hans.
En við sjáumst á vonandi mögnuðu Sasha kvöldi á Nasa þann 19.maí.