Já ég er fúll og ég skammast mín ekkert fyrir það. Ég kemst annars alltaf inn þegar ég fer á skemmtistaði, en já maður getur stundum verið stressaður í ferlinu sem að getur verið leiðinlegt.
Eins og þú sérð á nickinu að þá er ég orðinn 18 ára gamall. Nokkur atriði sem að tengist því að vera orðinn svona gamall…
* Ég er orðinn sakhæfur.
* Ég get keyrt bíl.
* Ég get byrjað að reykja.
* Ég get gift mig.
* Ég get stundað kynlíf og keypt erótískt efni.
* Ég get fengið vinnu á skemmtistöðum.
* Ég er sakhæfur.
* Ég er FULLORÐINN samkvæmt lögum….
En ég get EKKI farið út í ríkið og keypt bjór eða kíkt inn á skemmtistað sem að selur áfengi. Svo auðvitað er ég fúll, þar sem það er komið fram við mann sem fullorðinn einstakling bara þegar það hentar þjóðfélaginu, þegar maður ætlar að kíkja út í bæinn að þá er maður allt í einu orðinn krakki aftur. Svo já ég er fúll að Íslandi hafi ekki 16-18 ára aldurstakmark eins og margar Evrópuþjóðir.
Margir taka það einmitt fram hérna að margir einstaklingar á þessum aldri eru ekki komnir með þroska til þess að fara með áfengi. En ég tel að það sé ekkert rosalega mikið meira á þessum aldri en t.d. hjá 20 ára einstaklingi, flestir Íslendingar kunna ekki að fara með áfengi, bæði gamlir og ungir. Og ef ég á að vera hreinskilinn að þá eru það frekar fertugar fyllibyttur sem að eru með vandræði á skemmtistöðum frekar en unga fólkið. En það sem hneykslar mig mest er að það sé gert minni þroskakröfur til þess að geta keyrt bíl en að geta keypt áfengi og/eða kíkt inn á skemmtistað. Margir 17 ára einstaklingar eru varla komnir með þroska til þess að geta farið með bíl.
Ég er virkilega kominn með leið á því hvernig viðhorf samfélagsins til áfengis er, en að mínu mati er þetta viðhorf (lögin endurspeglast af því) að gera meira slæmt en gott. T.d. þá lýta flestir Íslendingar mjög illa á það ef að foreldrar ákveða að kenna barninu sínu á unglingsaldri hvernig á að fara með áfengi, sem að er allt í lagi í mörgum löndum (sem að flest hafa líklega minni áfengisvandamál en við). Við erum svo hrædd við áfengi að það er bara nýbúið að leyfa það og allir eru en þá hræddir um að allt fari á annan enda, best að hafa 20 ára aldurstakmark bara svona til öryggis, viljum ekki skemma unga fólkið.
Staðreyndin er bara sú að einstaklingur sem að byrjaði að drekka t.d. með mat heima hjá foreldrum sínum er ekki jafn líklegur til þess að fara illa með það og sá sem að byrjaði að drekka í partý.
Ég hef heyrt líka að því yngri sem maður er að því meiri líkur eru að maður misnoti áfengi, en ég held að það sé frekar öfugt. Eða að sá sem að er líklegur til þess að misnota áfengi er líka líklegur til þess að byrja snemma, svo það hefði ekki breytt miklu ef að hann hefði beðið í nokkur ár. Líka hækkar það hlutfallið hjá unga fólkinu að þau eru líklegri til þess að hafa öðruvísi drykkjuvenjur út af þessum lögum og viðhorfum sem að gilda í samfélaginu okkar.
Annars þá hef ég heyrt að það verður kannski breytt aldrinum niður í 18 ára á næsta árinu sem að er strax skref í rétta átt, vonandi verður líka lækkað okurskattinn og leyft sölu í verslunum.
Ég veit að það eru annars margir sem að væla yfir þessu á þessum aldri og breyta svo þeirri skoðun þegar náð er 20 ára aldri, en ég hef hugsað mjög mikið út í þetta og fengið upplýsingar frá báðum hliðum, svo ég tel að skoðun mín verði örugglega svipuð þegar ég verð 20+ ára.
Ég vil annars taka það fram að oftast þegar ég fer á skemmtistaði að þá drekk ég ekki áfengi, þar sem ég drekk það frekar sjaldan. Bara að kíkja á lífið með félögunum, og ég tel mig alveg hafa aldur og þroska í það eins og meirihluti fólks á mínum aldri. Ég viðurkenn samt að 20 ára einstaklingar hafa oft meiri þroska í það að drekka áfengi og að kíkja á lífið, en það er hægt að segja það sama um margt annað. T.d. reykingar, fjármál, sjálfræði, bílprófsaldur og fleira.
Ég bara vil ekki lifa í ofvernduðu samfélagi þar sem öll aldurstakmörk fara út í öfga. Er það eitthvað rosalega hræðilegt ? Ég tel að þegar maður er talinn samkvæmt lögum vera fullorðinn, að þá á maður að vera nógu gamall fyrir allt. Hvort sem það sé að drekka áfengi, keyra bíl eða að giftast.