Nú hefur margur raftónlistarunnandinn grátið í koddann sinn upp á síðkastið. Ekki vegna talsetningar Malcolm-þáttann á SkjáEinum, nei, heldur vegna þess hve klúbbasenan á Íslandi hefur verið í mikilli lægð. Margar hugsanlegar ástæður hafa verið taldar upp. Gæði tónlistarinnar að minnka, minna framboð eða jafnvel bara leti fólks til að mæta á það sem er að gerast. Ég ætla mér ekki að reyna að kryfja til mergjar hér hver ástæðan er, aðallega vegna þess að ég hef ekki mikla hugmynd um það.
En nú eru teikn í lofti um það að senan sé að vakna aftur til lífsins. Að minnsta kosti er ég að upplifa þetta þannig. Ég er í hópi nokkurra frábærra einstaklinga sem að halda úti heimasíðunni og skemmtanabatteríinu Breakbeat.is. Þegar ég byrjaði mína plikt hjá Breakbeat.is í mars síðastliðnum þá var ansi dauft yfir þessu öllu saman. Mætingin á kvöldin var tiltölulega slök og ekki var mikið um gestagang á heimasíðunni. En við létum samt ekki bugast og reyndum að bæta í og hafa gaman af þessu.
Árangurinn er að skila sér. Síðustu tvö fastakvöld Breakbeat.is hafa verið gríðarlega vel heppnuð, frábær mæting og stemningin upp úr öllu valdi. Það hefur e.t.v. hjálpað til að samtímis hafa verið menntaskólabjörkvöld á efri hæð Vídalín (heimili Breakbeat.is kvöldanna). Þessi bjórkvöld hafa vera frábær bónus fyrir okkur. Staðurinn fyllist ennþá betur, og ekki spurning að litlir junglistar hafi fæðst þessi kvöld, fólk sem hefur uppgötvað hvað einn plötusnúður, 2 spilarar, mixer og plötutaska geta skapað gríðarlega stemningu.
Og að sjálfsögðu má ekki gleyma kvöldi sem haldið var í síðasta mánuði á Akranesi með Ofur-hetjunum Magga & Óla Val. Það var fyllt rúta í bænum sem að brunaði á Skagann. Frábært kvöld í alla staði, sem var nokkurs konar virðingarvottur við Ofur-krúið sem hefur verið að gera ótrúlega hluti við að halda uppi klúbbasenu í litlu bæjarfélagi. Þetta verður heldur ekki eina skiptið sem verður haldið með þeim félögum, því það er að vænta Ofur-innrásar í höfuðborgina í vetur.
Svo er vert að minnast á skemmtistaðinn Kapital. Margeir er búinn að opna virkilega flottan stað og virðist hafa metnaðinn í lagi. Þarna verður gjörsamlega allt að gerast á Airwaves-hátíðinni, meðal annars verður gamli Íslandsvinurinn og drum’n’bass goðsögnin John B að spila á vegum Breakbeat.is fimmtudaginn 16. Október. Kapital, Vídalín og Grand Rokk eru nokkurn veginn einu skemmtistaðir bæjarins sem eru opnir fyrir klúbbatónlist.
Þegar minnst er á Vídalín og Grand Rokk þá dettur manni alltaf einn maður í hug. Rauðhærður sláni sem er kallaður Addi en er töluvert betur þekktur sem Exos. Hann er einn rosalegast techno-snúður sem um getur og er líka ótrúlega duglegur að halda klúbbakvöld á þessum tveimur stöðum. Electric Massive kvöldin eru frábær viðbót við það sem hann hefur verið að gera, fjölbreytileiki er alltaf af hinu góða. Það er einmitt honum Exos að þakka að old skool hardcore dúettinn ódauðlegi Ajax munu verða með live comeback næstkomandi laugardag á Vídalín. Eitthvað sem enginn heilvita maður má missa af!
Ég ætla að láta þetta duga í bili, vona að ég hafi náð að koma öllum mínum hugsunum til skila. Hvet fólk endilega til að skoða www.breakbeat.is til að m.a. skoða myndir af síðustu kvöldum sem voru svona rosaleg.