Hvern þarf maður að drepa á landi hér til að fá sómasamlegan drykk á skemmtistað?
Þurr Martini er konungur kokkteilanna en það er hægt að telja á fingrum sér þá barþjóna í bænum sem geta sloppið frá þessari MJÖG einföldu blöndu. Þeir eru nokkru fleiri sem hafa heyrt um þurran Martini en flestir myndu ekki þekkja hann þótt þeir smökkuðu hann.
Máli mínu til áherslu (ég er pirraður) vill ég benda á að algengt er að kokkteilabókum sé skippt í tvo kafla: Martini og aðrir kokkteilar.
Það eru margar útfærslur af þessum drykk en í grundvallar atriðum er hann einfaldur: Innihald er gin og þurr vermúð (td. Martini Extra Dry) ásamt grænni ólífu alla jafna. Eins og ég sagði, útfærslurnar eru jafn margar og þeir sem drekka Martini. Svo þarf þessi venjulegu bar áhöld ásamt Martini-glasi. Það er ekki alltaf til frekar en grænar ólífur, já eða bara lime sneiðar út gin og tóníkið manns.
Þar sem mér er að renna versta reiðin (ég fékk vondan Martini í gær) ætla ég að láta fljóta með uppskrift sem mér líkar vel að “þurrum” martini. Áður en þið farið að gera grín að mér þá ætla ég að taka fram að kvikmynda James Bond kann ekkert á Martini, fyrir utan að hann drekkur útfærslu af Vodkatini eða Martini byggðum á vodka (það má alveg líka).
5 hlutar Tanqueray London Dry Gin (það besta sem fæst, Gordon´s eða Bombay Sapphire Gin dugar í neyð)
1 hluti Martini Extra Dry Vermouth (eða sambærilegt)
1-2 ólífur á kokkteilpinna/tannstöngli pr. glas
Hlutföllin eru smekksatriði og þetta má alls ekki vera daufara fyrir mig. Byrjendur gætu prófað 2 á móti 1 eða 3-1. Ef hver hluti hér að ofan er 1 sjúss myndi þetta henta vel í tvö glös.
Best er að frysta ginið og helst glasið líka! Annars má láta klaka sitja í því á meðan verið er að blanda. Markmiðið er þó alltaf að fá sem kaldastan Martini með sem minnstu af aukaefnum (vatn, H20, banvænt eitur!!!). Gininu og martini/vermúð er helt í ílát með klaka og hrært létt. Síðan er blöndunni hellt af klakanum í Martini-glas (ef það var kælt með klaka skal hann fjarlægjast). Bætið út í 1 eða 2 ólífum á pinna eftir smekk (vítamín börnin góð!) Ef ykkur finnst ólífur vondar getið þið prófað t.d. að setja smá flysju af sítrónubörk í staðinn og kannski kreista einn dropa af safa með í leiðinni.
Svona nokkuð er frábært til að starta kvöldinu… og ljúka því snarlega ef maður lætur ekki fyrstu 1-2 duga! :)
Ef einhver vill prófa svona á bar held ég að það sé óhættast að prófa Kaffibrennsluna. Fékk fjandi góðan þar um daginn. Hefði varla gert betri sjálfur (nema það hefði mátt vera meira gin!)