Dyraverðir í fangelsi, sektir og skaðabótagreiðslur fyrir líkasmárás
Tveir dyraverðir á veitingahúsi í Reykjavík voru dæmdir í fangelsi og til greiðslu skaðabóta í dag fyrir harðræði gegn tveimur gestum staðarins. Annar varðanna var dæmdur í 18 mánaða fangelsi en hinn til 100.000 króna sektar en saman voru þeir dæmdir til að borga gestunum tæplega 4,8 milljónir króna í skaðabætur auk 700.000 króna málsvarnarlauna.
Dyraverðirnir tveir, sem eru á þrítugsaldri, voru dæmdir fyrir að hafa ráðist á gestina tvo en atvikið átti sér stað í nóvember 1999. Annar þeirra var og dæmdur fyrir að hafa sparkað í hægra auga stúlku með þeim afleiðingum að hún hlaut brot á augnbotni og mikla og varanlega sjónskerðingu. Með framburði vitna og lögreglu þótti sannað að hann hefði sparkað af ásetningi í andlit stúlkunnar. Hlaut hún alvarlegan áverka og stórfellt líkams- og heilsutjón í skilningi almennra hegningarlaga og hlaut hann því 18 mánaða fangelsi.
Saman skelltu dyraverðirnir unnusta stúlkunnar í gólfið og slógu hann margsinnis liggjandi og spörkuðu í hann með þeim afleiðingum að hann hlaut skurð á augabrún, mar á efra augnloki og kúlu aftarlega á höfði.
Dyraverðirnir neituðu staðfastlega að hafa beitt manninn harðræði er þeir tóku hann tökum umrætt kvöld. Nauðsynlegt hefði hins vegar verið, að þeirra sögn, að taka kæranda föstum tökum þar sem hann hefði ráðist á og kýlt annan þeirra en á þá skýringu féllst dómari ekki.
Sá dyravarðanna er fangelsisdóminn fékk hefur áður hlotið tvo refsidóma og gengist undir eina sátt. Nýkominn með bílpróf var hann sektaður fyrir ölvunarakstur og sviptur ökurétti í mánuð. Árið 1996 var hann dæmdur í 90 daga fangelsi, skilorðsbundið í þrjú ár, fyrir hegningarlagabrot, og fyrir annað brot ári seinna í tíu mánaða fangelsi.
Með seinni dómnum var sá fyrri tekinn upp og manninum gerð refsing í einu lagi fyrir bæði málin. Í ársbyrjun 1999 hlaut hann reynslulausn í eitt ár á eftirstöðvum refsingarinnar, sem voru hundrað dagar. Rauf hann skilorð reynslulausnarinnar með brotinu sem hann var sakfelldur fyrir í dag og hlaut því refsingu í einu lagi fyrir brotið og skilorðsrofið með hliðsjón af þeirri fangelsisrefsingu sem óafplánuð var.
og svo er ég frekar sammála því að dyraverðir virðast truflast yfir því að fá smá völd í hendurnar.
—————————–