Það er ekkert skemmtilegt að vera timbraður. Þrátt fyrir að flestum sé nú
kunnugt um afleiðingar áfengisdrykkju vaknar fólk um allan heim upp á hverjum
einasta degi og upplifir svefnherbergið hringsnúast, með ógurlegan verk í höfði
og eyðir jafnvel deginum öfugt ofan í klósettskálinni.

“Ég ætla aldrei að gera þetta aftur,” er viðkvæðið. En hvað orsakar þessa líðan
morguninn eftir? Einfaldasta svarið er auðvitað að of mikið áfengi hefur verið
innbyrt. Læknisfræðilega séð er vatnstapið helsta orsökin fyrir óþægindunum. En
áfengi örvar þvagmyndun sem örvar þ.a.l. vatnslosun úr líkamanum og það veldur
munnþurrki, þorsta, höfuðverk og svimatilfinningu. Flökurleiki, uppköst og
meltingartruflanir eru beintengd áfenginu sem truflar magavegginn.

Hvernig er hægt að koma í veg fyrir timburmenn?
Besta forvörnin er sú að drekka ekki…. en verum raunsæ! Ef þú hugsar vel um
líkamann mun hann svara þér í sömu mynt. Þannig skaltu forðast það að tapa of
miklum vökva, verðu magavegginn og drekktu tæpilega.

Hafðu eftirfarandi í huga áður en drykkjan hefst:
-borðaðu góða fituríka máltíð
-drekktu glas af mjólk

Kvöldið sjálft:
-blandaðu áfengið með vatni eða goslausum drykk
-drekktu í hófi og ekki of hratt
-drekktu a.m.k. 1 vatnsglas með hverju vínglasi

Áður en lagst er til hvílu:
-drekktu mikið af vatni eða fáðu þér orkudrykk
-taktu C - vítamín
-fáðu þér ristað brauð, eða göngu í fersku lofti

Í svona tilfellum, og aldrei annars, er feit máltíð tilvalin þar sem fita
meltist seint og hún verndar magaveggina frá óæskilegum áhrifum áfengis. Mjólk
hefur sömu áhrif auk þess sem hún hægir á upptöku áfengis.

Um kvöldið skal drekka vatn eða goslausan drykk á milli hvers áfengisglass sem
drukkið er. Forðastu godrykki því þeir auka áfengismagnið sem fer í blóðið. Til
er kenning sem felur í sér að ákveðin efni finnist í víni, litarefnum og
bragðefnum, sem eru talin auka timburmennina og hafa truflandi áhrif á
magaveggina. Þess vegna eru drykkir eins og hvítvín og vodka t.d. eru sögð
minnka timburmennina.

Áður en lagst er til hvílu er mælt með göngu í fersku lofti. Ef þú treystir þér
ekki til þess, skaltu taka bíl heim eða fá einhvern til að keyra þig sem hefur
ekki neytt áfengis en ekki keyra sjálfur. Drekktu slatta af vatni og
appelsínusafa því C - vítamínið í safanum hraðar efnaskiptum í lifrinni. Fáðu
þér ristað brauð eða orkudrykk því hann inniheldur allt það sem þú þarft fyrir
svefninn.

Ef þú vaknar upp með timburmenn. Hver hefur sína eigin lausn á timburmönnum.
Sumar þeirra ganga upp, aðrar ekki. Fyrirhyggja er góð en það er alltaf hægt að
taka parasetamól eða aðrar hliðstæðar verkjatöflur. Þjóðarmorgunmatur Breta
stendur fyrir sínu enda eggin stútfull af hvítu. En fylgifiskur áfengis, hinir
ógurlegu timburmenn, vara í um það bil 24 klukkustundir. Verið því þolinmóð -
það kemur nýr dagur eftir timburmenn!