Eftir langa gúrkutíð í Íslensku skemmtanalífi er loksins hægt að sjá ljósið!
Vinirnir Frímann og Arnar, betur þekktir sem Hugarástand eru búnir að finna sér nýjan samastað. Eftir sögulega niðursveiflu í djammmenningu Íslendinga verður Hugarástandskvöld á Astro þann 12. apríl næstkomandi.
Astro er greinilega á réttri leið um þessar mundir en þar á bæ eru væntanlegir ekki ómerkilegri menn eins og Josh Wink, Dave Clarke og Klute svo einhverjir séu nefndir. Stefna staðarins er greinilega að breikka aðeins þann hóp sem staðinn sækir og er það góðs viti.
Staðurinn er á besta stað í bænum og er án efa besta klúbbahúsnæði sem völ er á í Reykjavík. Frábært hljóðkerfi,gott dansgólf og toppaðstaða fyrir gesti staðarins í “lounginu”.
Hugarástand á sér rætur að rekja alla leið til ársins 1998 og byrjaði sem útvarpsþáttur á útvarpsstöðinni Skratz og síðar á X-inu. Klúbbakvöld á Thomsen fylgdu í kjölfarið og festu fljótt í sessi sem ein öflugustu klúbbakvöld fyrr og síðar norðan Þórshafnar í Færeyjum. Frábær danstónlist og góð stemning einkenna kvöldin og það er einmitt það sem verður í boði þann 12. apríl 2003 á Astro.
Eins og Frímann sagði mér í stuttu spjalli “er þetta vonandi byrjunin á góðu samstarfi við Astro ef þakið lyftist af húsinu er ljóst að það verður dansað á Astro í sumar”. Að lokum bætti Frímann við að “Það er allavega á hreinu að það verða ekki fleiri skemmtistaðir sem bjóða upp á sama kalíber af klúbbatónlist á komandi sumri”.
Fyrir þá sem hafa mætt á kvöldin hjá Frímanni og Arnari áður vita um hvað málið snýst og þið hin, ekki láta þetta kvöld framhjá ykkur fara.