Borgarstjórnarkosningar

Ég ætla að leggja fram smá spá um borgarstjórnarkosningarnar sem fara fram í Reykjavík í vor. Að mínu mati geta orðið tvær atburðarrásir. Byrjum á þeirri fyrri og líklegri.

Fylgi Besta flokksins er nokkuð ofmetið í dag, en hann kemur engu að síður einum manni að, Jóni Gnarr sem á svo sannarlega eftir að hrista upp í pólitíkinni. Sjálfstæðisflokkurinn tapar miklu en verður áfram stærstur, með þriðjung atkvæða. Borgarbúum eru boðnir átta slakir kostir en Hanna Birna þykir ill-skást, engu að síður bætir Samfylkingin við sig lítilega sem og Vg. Framsóknarmönnum verður spáð feigð fram að kosningum, en eins og alltaf koma þeir manni að. Meirihlutinn fellur en með nokkurri „reisn“. Spáin mín er svona:

B - Framsókn: 6,5% - 1 fulltr.
D - Sjálfstæðisfl.: 33,2% - 5 fulltr.
E - R.víkurframb.: 0,5% - 0 fulltr.
F - Frjálslyndi fl.: 1% - 0 fulltr.
H - Framb. um heiðarl.: 0,8% - 0 fulltr.
S - Samfylkingin: 30,2% - 5 fulltr.
V - Vinstri Græn: 17,0% - 3 fulltr.

Ríkisstjórnarflokkarnir ná meiri hluta, en fá ekki meirihluta atkvæða. Sanfylkingin og Vg mynda með sér meirihluta og bjóða Framsóknarmönnum með sér til fulltingis. Sá meirihluti hefði sterkt umboð og góðan meirihluta atkvæða og borgarfulltrúa.
Dagur B. Eggertsson verður borgarstjóri þangað til hann verður kjörinn formaður Samfylkingarinnar á landsfundinum 2011. Þá fer hann í landsmálin, tekur sæti í ríkisstjórn; væntanlega sem forsætisráðherra. Ég sé Oddnýju Sturludóttir, sem er í öðru sæti Samfylkingarinnar í kosningunum, ekki fyrir mér sem borgarstjóra og því er líklegt að Sóleyju Tómasdóttur gæti hlotnast sá heiður að verma sæti borgarstjórans og fá af sér fína styttu. En þetta er nú útúrdúr.

En þá að atburðarrás tvö, sem mér finnst ólíklegri en möguleg.
Kjósendur gefa skít í stjórnmálamenn en kjörsókn verður einungis um 70%. Fylgi Besta flokksins verður svipað og jafnvel meira en spáð hafði verið. Sjálfstæðismenn tapa miklu, fá um fimmtung atkvæða sem og Samfylkingin sem stendur í stað í fylgi. Vg stendur í stað og fær tvo fulltrúa. Bæði Frjálslyndir og Framsóknarmenn missa fulltrúa sína.

B - 5,0% - 0 fulltr.
D - 25,5% - 4 fulltr.
E - 0,5% - 0 fulltr.
F - 1,0% - 0 fulltr.
H - 0,5% - 0 fulltr.
S - 25,5% - 4 fulltr.
V - 15,5% - 2 fulltr.
Æ - 26,5% - 5 fulltr.

Flokkarnir eru hundfúlir út í Besta flokkinn og vilja ekki sjá samstarf við hann. Þar kæmi „þjóðstjórnarhugmynd“ Hönnu Birnu að góðum notum. Sjálfstæðismenn og Samfylkingin gætu komið sér saman um óháðan borgarstjóra sem mundi njóta stuðnings Vg og eftir atvikum Besta flokksins. Það er hins vegar ekki víst að það fyrirkomulag myndi ganga upp. Ekkert segir, svo ég viti, að aðeins einn borgarstjóri eigi að vera í Reykjavík. Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin eru jafn há í fylgi, þó sjálfstæðismenn hafi fengið örlítið fleiri atkvæði. Það þýðir því ekki endilega að sjálfstæðismenn geti gert afgerandi kall til borgarstjórastólsins. Dagur B. og Hanna Birna gætu því verið borgarstjórar samtímis. Það myndi sjálfsagt virka betur en það að Hanna Birna væri borgarstjóri í tvö ár og Dagur B. í tvö ár.
Það er þó ekki víst að þetta samstarf D og S, með þáttöku V, myndi ganga vel og þá gæti Jón Gnarr jafn vel orðið borgarstjóri einhvern tíman á kjörtímabilinu.

Hvernig sem úrslitin verða, þá verður kjörsókn heldur dræm og lítill áhugi verður fyrir kosningunum. Heil átta framboð eru í boði í vor, en aðeins fimm eiga raunverulegan möguleika á því að koma inn fulltrúa; hinn hefðbundni fjórflokkur og Besti flokkurinn. Hin framboðin eiga erfitt uppdráttar. Frjálslyndi flokkurinn er illa leikinn eftir borgarstjóratíð Ólafs F. Magnússonar, H-listi Ólafs sjálfs er varla til umræðu og Reykjavíkurframboðið sér varla annað en flugvöllinn.
Það er nefnilega það.