Blómskipun (e. inflorescence) fíkjutrjáa einstakt að gerð; innhvelfdur stöngul með mörgum blómum á innra borði sem snúa öll að holrými innan fíkjunnar. Að utan líkist fíkjan stöku aldini en er í bara frekar sértök gerð blómskipunar - blómin inni í þessum innhvelfda stöngli mynda margfalt aldin.  Yfirleitt eru fíkjur perulaga, 1-5cm í þvermál og með opi í miðju breiðari endanns sem kallast ostiole. Opið liggur að holri miðju í fíkjunni þar sem veggirnir eru þaktir í smágerðum blómum. Þessi blóm sjást því ekki nema að fíkjan sé opnuð. Hvert blóm í fíkjunni myndar svo eitt steinaldin - ef að blómið er frjóvgað. Hvert blóm myndar þannig eitt aldin í fíkjunni. Í einni fíkju eru um 100-1000 blóm.

Mynd 1 - Einstök blómskipun fíkjutrjáa. Dekkri fíkjurnar eru þroskaðari en þær grænu.

Frjóvgun blóma fíkjunnar er yfirleitt háð sérhæfðu samlífi við vesputegundir. Þessar vesputegundir sem lifa í samlífi við fíkjutré eru gjarnan kallaðar fíkjuvespur en þær skríða inn um opið á fíkjunni í leit að stað til þess að verpa eggjum sínum. Þegar eggin klekjast út þá bera nýfæddu vespurnar frjókorn til annarra fíkja og frjóvga blómin inni í fíkjunum. Án vespunnar gætu blóm fíkjunnar ekki frjóvgast og án fíkjunnar gæti vespan ekki verpt eggjum sínum. Þessar tvær gjörólíku lífverur eru því alveg háðar hvor annari og lifa í samlífi sem hefur verið í sífelldri þróun í um 80 milljón ár.

Sumar fíkjutegundir eru einkynja en aðrar tegundir eru tvíkynja. Hjá tvíkynja tegundum þá hefur ein fíkja bæði karlkyns og kvenkyns blóm. Hjá einkynja tegundum þá eru æxlunarfærin aðskild eftir einstaklingum; einstaklingurinn framleiðir fíkjur sem hafa annaðhvort bara fræfla eða bara frævur. Samlífið við fíkjuvespurnar er mismunandi eftir því um hvort einkynja eða tvíkynja fíkjutegund er að ræða. U.þ.b. helmingur allra fíkjutegunda eru einkynja og hinn helmingurinn tvíkynja - það er þó mismunandi eftir löndum og heimsálfum hvort einkennið er algengara.

Um 640 vesputegundum hefur verið lýst og þar af eru um 290 á Indó-Ástralíusvæðinu. Fíkjuvespur er víðtækt hugtak yfir vespur frá 5 fjölskyldum innan Chalcidoidea yfirfjölskyldunnar. Hver fíkjutegund er frjóvguð af einni eða fleiri vesputegundum og ein vesputegund getur frjóvgað eina eða fleiri fíkjutegundir. Samkvæmt erfðafræðilegu mati á 119 fíkjutegund þá voru 35% (41 einstaklingur) frjóvgaðar af tveimur eða fleiri fíkjutegundum. Rétta hlutfallið er þó sennilega hærra því ekki tókst að greina allar vesputegundirnar. Það er þó ekki aðeins fíkjutréð sem er háð vespunni heldur veita fíkjurnar einnig ákveðna þjónustu fyrir vespurnar; inn í fíkjurnar verða vespurnar eggjum sínum og þar fá eggin næringu og verndun. Þannig tekur fíkjutréð vespurnar í fóstur í skiptum fyrir frjóvgun.


Mynd 2 - Kvenkyns (vinstri) og karlkyns (hægri) fíkjuvespur. Karlarnir eru vænglausir og blindir andskotar.

Auk þess þá hentar sérhæfða samlífið fíkjutrjám sérlega vel vegna þess að þá þarf fíkjutegund ekki að vera í samkeppni við neinar aðrar plöntutegundir um frjóbera. Og þar sem að margar fíkjutegundir hafa eina tegund sem frjóbera þá þarf ein fíkjutegund ekki að vera í samkeppni við aðra fíkjutegund. Þéttleiki einstaklinga innan tegundar þarf heldur ekki að vera sérlega mikill til þess að frjóvgun eigi sér stað. Þetta er eitt af því sem stuðlar að margar fíkjutegundir geta lifað í sátt og samlyndi á smáu svæði.

Líkt og áður kom fram þá eru sumar fíkjutegundir einkynja en aðrar tvíkynja og lífsferill vesputegunda er mismunandi eftir því hvort þær lifa í samlífi við einkynja eða tvíkynja tegundir. Lífsferill fíkjuvespu sem lifir í samlífi við tvíkynja fíkjutegund hefst með því að kvenkyns vespa skríður inn um opið (e. ostiole) á fíkjunni. Gatið inn í fíkjuna er einstefna og því mun vespan aldrei aftur líta dagsins ljós. Við bröltið inn í fíkjuna þá missir vespan vængina og meiri hluta fálmara sinna. Þegar vespa hefur skriðið inn í fíkjuna þá lokar fíkjan gatinu (e. ostiole) með límkenndri kvoðu.

Inni í fíkjunni verpir vespan eggjum sínum (sem eru nú þegar frjóvguð). Innri veggir fíkjunnar eru þaktir í litlum blómum, bæði karlkyns og kvenkyns; sum þessara blóma munu verða að aldinum en önnur verða að vöggum fyrir fíkjuvespur. Hverju eggi er kemur vespan fyrir inni í eggbúi (eða frævísi) blóms með varppípunni sinni og við bröltið í kringum blómið þá frjóvgar vespan blóm fíkjunnar. Aldinið tekur í raun við egginu, vefur það inn í hjúp og myndar hylki sem kallast gjall (e. gall). Gjallið er þroskunarstaður eggsins og svo síðar lirfu vespunnar. Lirfan nærist á fræhvítu eggsins í 2-23 vikur þar til hún verður fullþroska (mismunandi eftir tegundum) og bítur sér svo leið út úr gjallinu.


Mynd 3 - Lífsferill fíkjuvespu og frjóvgun fíkju í tvíkynja fíkjutré.

Karlkyns vespurnar eru vænglausir og frekar sjóndaprir. Þeirra eina hlutverk í lífsferlinum er að makast við systur sínar og að hleypa þeim út úr fíkjunni. Þegar kvenkyns vespurnar hafi klakist úr egginu og þeirra eigin egg eru frjóvguð þá þurfa þær að ná sér í smá frjókorn frá fíkjublómum. Í sumum tilvikum þá berast frjókorn á kvenkyns vespurnar þegar þær eru að brölta inni í fíkjunni en í öðrum tilvikum þá taka vespurnar frjókornin meðvitað með sér og bera þau í litlum vösum á bringunni. Þegar karlkyns vespurnar hafa makast við systur sínar þá nota þeir stóru kjálkana sína til þess að bíta gat á fíkjuna og hleypa kvenkyns vespunum út. Stuttu síðar deyja karlkyns vespurnar - þeir hafa lokið sínu hlutverki. Eftir margra vikna þroskun og vöxt þá eru þeir bara lifandi í nokkra klukkutíma.



Mynd 4 - Kvenkyns (efri) og karlkyns (neðri) fíkjuvespur. Magnaður andskoti.

Kvenkyns vespurnar munu ekki borða neitt eftir að þær fara frá fíkjunni en nær alla næringu og orku fengu þær á lirfustigi. Þær lifa því aðeins í nokkrar klukkustundir (eða örfáa daga) eftir að þær brjótast út úr fíkjunni og því er mikilvægt að þær finni aðra fíkju til að frjóvga og verpa eggjum sínum í sem fyrst. Afkoma vesputegundarinnar er háð því að rétt fíkjutegund sé til staðar innan raunhæfar fjarlægðar og öfugt, þ.e.a.s. að afkoma fíkjutegundarinnar er háð því að rétt vesputegund sé til staðar innan raunhæfar fjarlægðar. Sé þetta samband ekki til staðar þá þroskast fíkjurnar ekki og þar með þroskast fræin ekki heldur. Ef að vespunni tekst að finna fíkju af réttri tegund þá verpir hún eggjum sínum og lífsferlinum er lokið. Eftir varp þá deyr kvenkyns vespan yfirleitt eftir tiltölulega stuttan tíma.


Mynd 5 - Lífsferill fíkjuvespu og frjóvgun í einkynja fíkjutré.

Ef að fíkjuvespan lifir í samlífi við einkynja fíkjutegund þá eru nokkur atriði í lífsferli vespunnar sem eru frábrugðin fyrri lýsingu. Lífsferill vespunnar hefst í fíkju karlkyns einstaklings á sama hátt og hjá tvíkynja einstaklingi; karlkyns vespurnar makast við systur sínar, þær taka upp frjókorn og hann bítur leið fyrir þær út. Kvenkyns vespurnar fara síðan af stað og finna sér fíkjur til þess að frjóvga og verpa í. Sumar finna kvenkyns fíkjur en aðrar finna karlkyns fíkjur. Karlkyns fíkjurnar framleiða blóm sem hafa stuttan stíl og því varppípa vespunnar nógu löng til þess að hún geti verpt eggjum sínum í eggbúin. Kvenkyns fíkjur framleiða hinsvegar blóm sem hafa langan stíl og þá er varppípan ekki nógu löng til þess að vespan geti verpt eggjum sínum í frævísana (eggbúin). Þær vespur sem finna karlkyns fíkjur verpa eggjum sínum þar og lífsferill þeirra heldur áfram þó svo að þær frjóvgi ekki fíkjuna. En þær vespur sem finna kvenkyns fíkjur geta ekki verpt eggjum sínum þar en frjóvga samt sem áður blóm fíkjunnar.
 
Fíkjur kvenkyns fíkjutrjáa eru á vissan hátt gildrur vegna þess að eftir að vespan skríður inn í fíkjuna þá kemst hún ekki út aftur. Ástæðan fyrir því vespurnar læra ekki einfaldlega að fara ekki inn í kvenkyns fíkjurnar er að kvenkyns fíkjur eru nákvæmar eftirlíkingar af karlkyns fíkjum - þær eru eins að stærð, lit, lögun og ekki síst þá lykta þær eins en vespurnar nota aðallega lyktarskyn til þess að hafa upp á fíkjunum. Kvenkyns vespurnar sem frjóvga kvenkyns fíkjur deyja og eru brotnar niður eða “meltar” inni í fíkjunni. Það sama kemur fyrir karlkyns vespurnar inni í öðrum fíkjum.
 
Eftir að vespurnar hafa yfirgefið fíkjurnar þá fara fíkjurnar að þroskast á miklum hraða; þær missa græna litinn og verða þess í stað gular eða brúnar. Laufblöð trésins hafa séð fyrir sínu og framleitt gífurlegt magn af sykri fyrir fíkjurnar. Þessi sykurforði laðar að sér fjöldann allan af dýrategundum sem borða fíkjurnar og færin þar með. Fræin berast svo í gegnum meltingaveg dýrsins og endar svo á skógarbotninum (vonandi langt frá foreldrum sínum) í næringarríku umhverfi dýraskíts. Þar spírar fræið og nýr einstaklingur vex upp frá fræinu.
 
Fíkjur tvíkynja fíkjutrjáa þroskast í kaprífíkjur (e. caprifigs) sem eru vissulega ætar en eru ekki sérstaklega eftirsóttar til manneldis. Dýr regnskóganna eru ekki eins matvönd og við mennirnir og borða því kaprífíkjur. Fíkjur karlkyns fíkjutrjáa þroskast ekki í ætar fíkjur - þeirra eina hlutverk er að veita fíkjuvespum öruggan stað fyrir þroskun eggjanna. Fíkjur kvenkyns fíkjutrjáa þroskast eftir frjóvgun og verða að hinum gómsætu fíkjum sem margir dá og dýrka. Þessar fíkjur eru meðal annars notaðar í hinar geysivinsælu Fíkjurúllur (e. Fig rolls) en gerð þeirra er eitt af mörgum dularfullum leyndardómum lífsins.
Skipun undirættkvíslanna hefur verið umdeild nýverið og mikið verið stokkað upp eftir að erfðafræðilegar greiningar litu dagsins ljós. Þar af hefur komið í ljós að aðeins ein undirættkvísl hefur verið rétt greind / flokkuð en hinar ættkvíslirnar eru meira á reiki. Flestar þær erfðafræðilegu rannsóknir á fjölskyldutré fíkjutrjáa hafa verið gerðar með mið af samlífi þeirra við vespur og því verður umfjöllun þessar ritgerðar það einnig. Rannsóknirnar hafa leitt í ljós að Ficus ættkvíslin sé að minnsta kosti 80-90 milljóna ára gömul. Upprunalega hefur ættkvíslin einkennst af tvíkynja einstaklingum en einkyni hafi síðar komið fram í mörgum mismunandi undirættkvíslum og tegundum. Upprunalega voru einstaklingar frjóvgaðir með vindi en samlífi við skordýrafrjóbera hefur komið fram að minnsta kosti tvisvar sinnum.

Fig Roll, Egyptian Delicacy
Mynd 6 - Fíkjurúllur (e. figrolls). Sérstaklega góðar með mjólkurglasi. Góðar gegn hægðartregðu og slæmum móral. 
Áhugamaður um alvarleg málefni.