Sælir,
Það skortir alvarlega einhvern sem heldur uppi málefnalegum málflutningi fyrir Ísreals hönd hérna á vefinn, svo einsleitar er allur málflutningur í þessu máli. Þetta er auðvita ekki svona svart og hvítt eins og menn vilja teikna upp hlutina. En allavega, ég er miklu frekar á bandi Palestínumanna, en allar hliðar ættu að koma fram. Ég týndi hérna til, frekar samhengislaust þó, ýmislegt sem hefur farið milli mín og eins manns á netinu, þar sem hann ver málsstað Ísrealsmanna. Þetta kann að virka alveg út í hött, en menn ættu auðveldlega að geta séð hvað um er rætt í hvert skipti. Ég nennti ekki að pósta allt, því efnið var gríðarlega mikið, og sleppti ég einnig svörum mínum og spurningum. Njótið vel.
–
Vissulega mega Palestínuarabar þola mannréttindabrot daglega. Ekki síst eru það þó palestínsk yfirvöld, sem gerast sek um það. Sjá t.d.
http://www.web.amnesty.org/web/ar2001.nsf/webmepcountries/PALESTINIAN+AUTHORITY?OpenDocumentStaðhæfingar hans um friðarvilja Arafats eru líka úr lausu lofti gripnar. Arafat sló hendinni á móti friðartilboði Baraks í fyrra án umræðu, hvað þá meir. Arafat hleypti svo í framhaldinu af stað Al-Aqsa intifödunni í (misreiknuðum) pólitískum tilgangi.
Palestínska sjálfstjórnarsvæðið er sjálfsagt eina landið í heiminum frá 1945 þar sem Mein Kampf hefur setið mánuðum saman á metsölulistum. Alþjóðasamfélagið hefur aukin heldur loks vaknað upp við vondan draum því meira að segja í skólabókum yngstu barna í Palestínu er alið á gyðingahatri, en af þeirri ástæðu hætti Evrópusambandið að styrkja námsbókaútgáfu í Palestínu í síðasta mánuði.
Annars er ágæt grein um þessi efni á
http://www.meforum.org/meq/june98/anti.shtml þó hún sé ekki alveg ný af nálinni.
Ég held engu fram um það hvort að Palestínumenn séu vont fólk eða ekki ekki fremur en mér dettur í hug að halda því fram að Þjóðverjar hafi verið illir allir sem einn meðan nazistar réðu þar völdum. En það segir sitt um afstöðu valdamanna hverskonar mannvonsku er þar haldið að börnum og það skiptir verulega miklu máli, að þetta er ekki bara áróður um að Ísraelsríki hafi gert hitt eða þetta á hluta Palestínuaraba, heldur er beinlínis haldið fram að gyðingar séu eðlislægt verra fólk en annað, hafi tilteknar lyndiseinkunnir og sé jafnvel ekki fólk í hefðbundnum skilningi. Þetta má finna í fjölda námsbóka fyrir börn allt niður í forskóla.
Ásakanir um kynþáttahyggju í Ísrael eru ekki bara rangar heldur sérdeilis ósmekklegar. Þar eru arabar og gyðingar ríkisborgarar, fölir ashkenazíar jafnt sem blámenn. Á hinn bóginn gætir fullrar tortryggni í garð araba, sem ekki eru ísraelskir ríkisborgarar og lái þeim hver sem vill. En það kemur ekki kynþáttahyggju við.
Ég er alveg sammála því að gyðingar ættu ekki að vera að standa í þessum landnámsbyggðum á hernumdu svæðunum, það er óskynsamlegt. En hverjir eru þá rasistar? Ísraelsmenn, sem hafa ekkert á móti 1,2 milljón araba í Ísrael (20%), eða Palestínuarabar, sem ekki getað þolað 183.000 gyðinga í 256 byggðum á Vesturbakkanum og Gaza (5%)?
Zíonistar töluðu fyrir “heimalandi” gyðinga, en lögðu enga áherslu á ríkisstofnun. Margir í þeirra röðum voru sósíalistar með syndíkalísku ívafi eins og enn sér raunar stað í samyrkjubúahreyfingunni í Ísrael. Zíonistar einblíndu síður en svo á Ísrael, sem sjálgefinn stað fyrir heimalandið. T.d. var rætt um hérað í Úganda, annað í Argentínu o.s.frv. sem mögulegan samastað þeirra. Uppruna síonismans má að hluta rekja til rómantísku stefnunnar, sem efldi þjóðernisvitund víða um heim (með vægast sagt misjöfnum árangri), en ekki síður urðu gyðingahreinsanirnar í Rússlandi og Póllandi mönnum umhugsunarefni, en á þessum tíma voru gyðingar á Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi búnir að koma ár sinni vel fyrir borð og héldu um hríð að fordómar fyrri alda væru loks úr sögunni.
Það er fráleitt að nota orðið “lebensraum” í þessu samhengi, enda er ekki eftir miklu landi að slægjast á þessum slóðum. Einstakar landnemabyggðir á Vesturbakkanum tengjast nær allar (allar nema ein held ég) sérstökum trúarsöfnuðum og lendur þeirra eru ekki miklar. Þá má ekki gleyma því að orðið landnám á ekki alltaf við, í sumum tilvikum er um fornar gyðingabyggðir að ræða, þó svo vissulega hafi fjölgað í þeim síðustu 30 árin. Síðan má spyrja af hverju Palestínuarabar eigi síður að sætta sig gyðinglega ríkisborgara en Ísraelsmenn arabíska.
Ásteytingarsteinninn hefur fyrst og fremst falist í öryggishagsmunum Ísraels. Stjórn Arafats hefur ekki getað (eða viljað) tryggja öryggi gyðinga á Vesturbakkanum. Einnig hefur ekkert lát verið á hryðjuverkaárásum þaðan inn í Ísrael, en miðað við það lögregluríki, sem Arafat rekur, er með ólíkindum að honum og stjórn hans sé ókunnugt um skipulagningu þeirra.
Við skulum ekki heldur gleyma því hvað hér teflir um afskaplega lítið landssvæði. Þar sem Ísrael er breiðast er álíka langt frá austurlandamærunum að Miðjarðarhafi eins og frá Hveragerði og í bæinn. Þar sem Vesturbakkinn skagast lengst í vestur er hins vegar jafnlangt að fara eins og frá Gróttu að Elliðaám. Það má því lítið bera út af í varnarviðbúnaði áður en Ísraelsmenn standa í fjöruborðinu og þurfa að synda.
En “lebensraum” hvað? Ísraelar tóku Sínaí á sínum tíma en skiluðu. Þeir hernámu Vesturbakkann (Júdeu og Galíleu) en reyndu aldrei að innlima það, sem þeir hefðu vafalaust getað de facto ef ekki de jure. Sömu sögu má segja af Gaza. Þeir höfðu suðurhluta Líbanons á valdi sínu um hríð, en reyndu ekki að innlima hann. Þeir hafa Gólan-hæðir á valdi sínu, en hafa ekki reynt að innlima þær, þvert á móti hafa þeir viljað skila þeim til Sýrlands með fororði um að þær verði herlausar, en það vilja Sýrlendingar ekki heyra.
Meðan Egyptar hersátu Gaza reyndu þeir á hinn bóginn að innlima svæðið, harðstjórn Jórdana á hernámssvæðinu á Vesturbakkanum var ekkert minna en svívirða, Sýrlendingar hersitja enn Líbanon og svo er það sérkennilegasta af öllu: Palestínuarabar minnast aldrei á stærsta hluta Palestínu, sem heitir Jórdanía
Mér finnst raunar afar hæpið að taka tillögurnar frá 1948 út einar og sér. Hafa ber í huga að áður höfðu verið settar fram ýmsar tillögur, sem gerðu ráð fyrir mun minna svæði til handa gyðingum, en arabar höfnuðu þeim öllum umræðulaust: 1917, 1922, 1937, 1939 og 1947. Á þessum tíma voru gyðingar um 1/3 hluti íbúa Palestínu, en arabar um 2/3 (hafa ber í huga að til araba töldust ýmis þjóðabrot, trúarhópar o.s.frv., sem ekki deildu endilega draumnum um íslamskt arabaríki í Palestínu).
Raunar áttu gyðingar mun meira en þau 7% landsins, sem Kundera vísar til, menn hafa vanalega talað um 12%. (Einnig er rétt að hafa í huga að arabar áttu einungis um 17-20% eftir því hvernig er talið, megnið var í eigu landstjórnarinnar.) Ekki síður skipti þó máli, að það land, sem beinlínis var í eigu gyðinga, þeir höfðu með öðrum orðum keypt fullu verði. Það var því ekki um það að ræða að þeir hefðu hrifsað það til sín með einhverjum hætti, eins og oft er gefið í skyn. Kundera minnir svo á að SÞ hafi skenkt gyðingum meira en helming landsins þegar til kom. Þá gleymist að 60% af þessu mikla landsvæði er Negev-eyðimörkin, sem enginn kærði sig neitt sérstaklega um þá frekar en nú. Það er því nær að segja að arabar hafi fengið 70% landsins, sem um var deilt, og gyðingar afganginn.
Vilji menn gera sér grein fyrir því um hvað menn voru að ræða þegar skipting Palestínu var til umræðu geta menn glöggvað sig á kortum á
http://www.kamikaze-bros.com/andres/israel/Á hitt ber að líta að arabar voru ekki að berjast fyrir hinu sama þá og nú. 1948 litu Palestínuarabar ekki á sig sem þjóð, heldur var þjóðernisvakning þeirra miklu fremur samarabísk. Það kom t.d. fram í dagbókum Bernadotte greifa (samningamaður SÞ 1948) að það hafi valdið sérstökum vandræðum að samningamenn araba höfðu engan sérstakan áhuga á ríkisstofnun, heldur vildu þeir fremur sameinast Transjórdan, sem seinna varð Jórdanía. Áhugi á sérstöku ríki Palestínuaraba vaknar í raun ekki fyrr en eftir svarta september, þegar Hussein Jórdaníukonungur fyrirskipaði stórkostleg fjöldamorð á Palestínuaröbum, en hann óttaðist valdatöku þeirra í bandalagi við Sýrlendinga.
En eftir situr að arabar geta að miklu leyti kennt sjálfum sér um hvernig málum er komið, því þeir vildu aldrei semja um nokkurn skapaðan hlut. Jafnvel nú, geta þeir ekki fallist á að Ísrael hafi sjálfstæðan tilverurétt, burtséð frá því hvar hugsanleg landamæri kunna að falla.
Það er líka afar sérkennilegt að enginn minnist á langstærstan hluta Palestínu í þessum umræðum öllum, en hann er yfirleitt nefndur Jórdanía og var um 80% landsins.
Allar áætlanir um hugsanlega skiptingu landsins milli gyðinga og araba miðaðist við það hvar hvor aðilanna var í meirihluta. Fyrir vikið voru fyrstu tillögurnar fremur óraunhæfar, a.m.k. hefðu landamæri Ísraels verið óverjandi gagnvart arabaríkjunum í kring.
Til þess að flækja málin enn frekar höfðu arabar flykkst til þeirra svæða, sem gyðingar helst settust að á, vegna þess efnahagsuppgangs sem fylgdi þeim. Því er ekki rétt að ræða einungis um innflutning gyðinga, því arabar fluttust tugþúsundum saman til Palestínu og helst þangað þar sem voru öflugar gyðingabyggðir.
Palestínuaröbum var boðið að stofna eigið ríki 1937, 1939 og 1947. Því var ávallt hafnað umræðulaust vegna þess að arabar (ekki síst arabaríkin í kring) höfnuðu skilyrðislaust nokkrum möguleikum á sérstöku ríki gyðinga.
Oftast er talað eins og Palestínuarabar hafi verið þar frá alda öðli, en gyðingar allir flust til Palestínu upp úr fyrra stríði. Hið rétta er að gyðingar höfðu búið óslitið frá fornöld víðsvegar í Palestínu, þó þeir hafi vissulega verið orðnir afar fáir á 19. öld, sjálfsagt innan við 20.000. Helstu byggðir þeirra voru í Jerúsalem, Nablus, Hebron, Safad og víðs vegar í Galíleu. Á hinn bóginn er rétt að hafa í huga að arabar í Palestínu eru mjög margbrotinn hópur og í raun hæpið að ræða um þá sem þjóð fyrr en eftir stofnun Ísraelsríkis og jafnvel ekki fyrr en upp úr 1970, þó hér sé auðvitað um mikið tilfinningamál að ræða og erfitt að slá nokkru föstu í þeim efnum.
Hersveitir Ísraelsmanna stökktu án nokkurs vafa mörgum þeirra á brott og einnig er afar sennilegt að aðrir hafi verið hraktir burt af gyðingum, sem ásældust land eða aðrar eignir þeirra.
En langflestir flúðu Ísrael að áeggjan arabaríkjanna í kring, sem beinlínis skipuðu þeim að fara til þess að sigursælir herir araba gætu gengið milli bols og höfuðs á öllum gyðingum í Palestínu án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því að greina á milli gyðinga og araba, sem er hreint ekki auðvelt, sérstaklega í borgunum.
Til eru átakanlegar frásagnir t.d. frá Haífa (þar sem gyðingar og arabar höfðu búið saman í mesta bróðerni) þar sem borgarfulltrúar gyðinga grátbændu arabíska kollega sína um að vera áfram, vegna þess að borgin legðist ellegar nánast í eyði. Þeir svöruðu því til að þeir vildu gjarnan vera, en að fjölskyldum þeirra hefði verið hótað grimmilegum hefndum ef þeir sýndu óvininum slíkt samstarf.
Leiðtogar arabaríkjanna játuðu það margir síðar að þetta hefðu verið hrapaleg mistök, sem þeir bæru vissulega ábyrgð á. Menn geta svo dregið ályktanir af þeim fjölda araba, sem kaus þrátt fyrir allt að vera áfram á heimilum sínum og urðu ísraelskir borgarar. Ýmislegt bendir til þess að flóttinn hafi fremur verið af trúarlegum toga en öðru, því kristnir arabar fóru flestir hvergi meðan hinir íslömsku voru mun líklegri til þess að taka til fótanna.
Það breytir ekki því að í hinu nýstofnaða Ísraelsríki var fullt af eignum án eigenda. Boðnar voru bætur fyrir eitthvað af þeim, sem sennilegast voru lægri en raunvirði, en þeim var alfarið hafnað. Sú ákvörðun var sjálfsagt fyrst og fremst pólitísk og hefði tæpast verið önnur þó bæturnar hefðu verið tvöfaldar raunvirði, enda þótt hún hafi aldrei verið borin undir hina raunverulegu eigendur. En burtséð frá því verður að bæta því við arabaleiðtogunum til varnar að viðtaka slíkra bóta hefði hugsanlega getað stefnt í hættu stöðu Palestínuaraba sem flóttamanna, sem er flókið lögfræðilegt mál. Eftir á að hyggja var það kannski ekki klókt, en þá var engin leið að sjá það fyrir frekar en aðra framtíð.
Löngu síðar (á 8. áratugnum) voru greiddar fullar bætur fyrir mikið af eignum Palestínuaraba, en þorri þeirra situr þó enn óbættur á Gaza og Vesturbakka. Nú orðið veldur það svo auknum vanda að flestir upprunalegu eigendurnir hafa safnast til feðra sinna og þá verður vandi að deila bótunum til erfingjanna. Meðal flestra þeirra gilda nefnilega mismunandi erfðareglur um land og aðrar eignir, elsti sonur á að erfa landareign, en hið sama á ekki endilega við um fasteignir eða rekstur í borgum o.s.frv. Til viðbótar þessu hefur verið gífurleg barneignasprengja meðal flóttamanna síðustu 20 ár, sem dreifir auðnum frekar og gerir þannig ólíklegra að menn uni bótunum. Í einhverjum tilvikum væri hægt að láta menn fá upphaflega eign aftur, en það er alger undantekning þegar svo er. Svo bætast við hefðbundin vandamál eins og breytt landamerki, hvernig eigi að meta jarðabætur o.s.frv. Ég er afar svartsýnn að viðunandi lausn finnist á þessum vanda öllum.
Það verður að segjast eins og er að það brýtur öll lögmál tilviljana hversu mörg börn og unglingar hafi fallið í valinn. Annað hvort hafa ísraelskir hermenn sérstaka unun af því að skjóta börn eða að þeim er sérstaklega att á vaðið.
Fréttir benda til þess að þetta eigi einkum við þar sem arabískar leyniskyttur hafa verið að störfum, en það er með ólíkindum hversu oft hafa reynst hópar palestínskra barna milli þeirra og herstöðva Ísraela. Menn geta síðan dregið eigin ályktanir af lýsingum, sem birtust í New York Times af sumarbúðum palestínsku landstjórnarinnar, þar sem 25.000 börnum var kennt að taka í sundur Kalashnikova, hvernig best sé að gera fyrirsátir o.s.frv. Sjá
http://www.nytimes.com/learning/students/pop/articles/080300palestinian-camp.html og aðra lýsingu ekki fegurri úr The Times
http://www.freerepublic.com/forum/a39f70a267e70.htmAuðvitað eru til kynþáttahatarar í Ísrael eins og annars staðar. Í Ísrael eru menn hins vegar lögsóttir fyrir að láta slíkt í ljósi. Fyrir nokkrum árum var t.d. ísraelsk stúlka staðin að því að hengja upp skopmynd þar sem Múhameð spámaður var teiknaður í svínslíki. Mig minnir að hún hafi verið dæmd í 2 ára fangelsi þar sem sumir tóku þetta nærri sér. Ekkert slíkt gerist Palestínumegin, þvert á móti, þar ala yfirvöld – veraldleg sem geistleg – á gyðingahatri og hvetja börn til ofbeldisverka. Dæmi hver fyrir sig…
—
Skemmtileg úttekt ekki satt?
kv.
kundera