Nei, siðferði manna hefur þróast á þann máta að morð, sem er mannsdráp af ásettu ráði, er álitið rangt. Frá þessu hafa hins vegar alltaf verið undantekningar, svo sem þegar þú drepur mann í sjálfsvörn, til þess að verja föðurlandið gegn óvinum o.s.frv. Það má því segja að morð sé stundum í lagi og má færa fyrir því ýmis rök. Undantekningarnar hafa hins vegar þróast af eðlilegum ástæðum, í dag myndi það líklegast teljast refsivert morð að skilja gamalmenni út í frost og snjó þegar það er farið að há samfélaginu, þetta tíðkaðist þó meðal eskimóa af skiljanlegum ástæðum ef menn skoða eðli þess samfélags. En sambærilegar skoðanir fyrir finnast innan nútíma samfélags, svo sem þykir eðlilegt undir sumum kringumstæðum að drepa menn sem eru algjörlega meðvitundarlausir og er ekki hugað líf í lengri tíma. Við höfum meira að segja skapað kerfi í kringum þetta til þess að auðvelda málin með því að útbúa sérstaka seðla sem fólk getur fyllt út ef það vil ekki láta halda sér á lífi ef svo vildi til að það myndi verða fyrir slysi sem veldur áðurnefndu ástandi.
Í umtöluðu tilviki lá fyrir að stúlkan myndi aldrei lifa af fæðinguna, sem sætir varla furðu sökum aldurs. Sömuleiðis lá fyrir að fóstrin gætu aldrei lifað utan móðurkviðar. Það gefur því augaleið, ef við setjum þessi líf á vogarskál, að til þess að varðveita rétt sem flestra til lífs varð að eyða fóstrunum.
Ef við ætlum að fara að tala um fóstureyðingar almennt verður að segjast að það er töluvert flóknara en þetta dæmi. Hér var, í mínum huga, ekki hægt að aðhafast annað. Fyrir það fyrsta verðum við að athuga hvort það er einhver hefð fyrir fóstureyðingum, hvers vegna getur fólk almennt litið svo á að það sé í lagi að eyða fóstri? Þegar það mál er skoðað ofan kjölinn kemur í ljós að ungbarnadráp og fóstureyðingar hafa tíðkast í samfélögum í gegnum árþúsundin, það er því ekki einkennilegt að mennirnir hafi mikið þol gagnvart fólki sem kýs að drepa börnin sín, fædd eða ófædd. Það hefur samt augljóslega breyst töluvert hvað varðar ungbarnadráp, fyrir því eru ákveðnar ástæður. Í hinum vestræna heimi þar sem við búum við ríkidæmi og fjöldinn allur af fólki er tilbúið að ættleiða eða taka að sér umönnun barna virðist tilgangslaust að drepa ungbörn, það er því skiljanlegt að hér hafi óþolið minnkað enda enginn leið að skilja hvers vegna einhver þarf að drepa börn. Því miður þurftum við að troða þessum gildum yfir á aðrar vanþróaðri þjóðir, það er hugsanlegt að það hafi aðeins ýtt undir óþarfa fólksfjölgun og aukið fjölda glæpamanna (en tölfræðin liggur fyrir, börn sem foreldrar vilja ekki virðast miklu frekar verða glæpamenn, sbr. bókina Freakonomics; þegar fóstureyðingar voru leyfðar í Bandaríkjunum minnkaði glæpatíðni til muna og reyndist erfitt að finna aðra útskýringu en þessa).
Sama gildir í reynd um fóstureyðingu. Þol okkar í garð fóstureyðinga er mikið vegna þess að skilningur allra er, réttilega, að þær eru stundum nauðsynlegar. Oft á tíðum eru málin þó ekki svo einföld, en þá kemur til kastanna enn flóknari réttlæting sem tekur tíma að útskýra. Fyrir það fyrsta er vitað mál að fóstureyðingar eiga sér stað, hvort heldur sem þær eru löglegar eða ekki. Við vitum hins vegar að í ríkjum þar sem fóstureyðingar eru löglegar er tíðni þeirra í reynd lægri en annars staðar. Ekki nóg með það, heldur er margfalt hættulegra að fara í fóstureyðingu þar sem það er gert með ólöglegum hætti (enda herðartré ekki hentugt tæki til þess!). Þegar þetta er allt saman sett á vogaskálar er augljóst að skaðinn sem verður að völdum lögbanns er meiri en lögleiðing, það eitt og sér réttlætir lögleiðingu fóstureyðinga. Það má færa fyrir þessu mörg önnur rök, en ég ætla að láta hér við sitja.