Hvað er að þurfa?
Hvað er nóg? Þú veist að ef við ætlum að miða það við það eitt að hafa í sig og á þá þurfa Íslendingar ekki bíla, við getum hjólað um allt. við þurfum ekki hjól, við getum gengið um allt.
Það er ekki til nein þurftar lína, bara mismunandi lífsgæði. Íslendingar fyrir 100 árum lifðu ágætist lífi á margfalt minni verðmætum en við gerum í dag, sama hvort við tölum um hátekju eða lágtekjufólk.
Auðvitað eru ekki bara tveir flokkar, hlutir sem fólk þarf og hlutir sem fólk þarf ekki… en fólk þarf mismunandi hluti mismikið.
Staðreyndin er einfaldlega sú að það er ákveðið tekjumark sem er ekki hægt að lifa undir, og til að tryggja að enginn sé undir því höfum við atvinnuleysisbætur, kjarasamninga og fleira.
Á eftir algerum nauðsynjum svo sem mat, rafmagni og rennandi vatni koma síðan hlutir eins og bíll, nettenging og fleira sem er ekki alger nauðsyn en samt mikilvægur partur af daglegu lífi fólks og ekki þægilegt að búa án.
Svona gengur þetta svo endalaust þangað til að fólk er farið að eyða fleiri milljörðum í húsnæði um allan heim, einkaþotur, þyrluferðir út um allt (man ennþá eftir sögunni um bankamennina í veiðiferðinni sem fóru á þyrlu til að fá sér pylsu og fóru svo aftur að veiða) og fleira og fleira.
Auðvitað hefur þetta fólk fullan rétt á að eyða sínum peningum eins og það vill og ég ætla ekki að fara að blaðra um hvað það sé nú arfasiðlaust að fólk lifi svona þegar aðrir hafa það svo erfitt, en þegar fólk er með það mikinn pening milli handanna að það hefur ekkert betra við hann að gera en að eyða hundruðum ef ekki þúsundum milljóna í það að sleppa við nokkurra tíma bið á flugvelli, þá hlýtur nú að vera óhætt að staðhæfa að þessir menn þurfa ekki peninga eins mikið og þeir sem verst standa.
Þannig eru þessir menn að fá svo óendanlega mikið minni lífsgæði fyrir hverja krónu en fólk sem verst stendur að auðvitað hlýtur sumum að finnast réttara að reyna að dreifa peningnum aðeins svo hann nýtist sem best, sem mest lífsgæði fáist fyrir hverja krónu.
Þetta er auðvitað ýkt dæmi en það sér hver maður að þetta gildir að einhverju leyti um allan launaójöfnuð.
Er það rangt að gram af gulli sé dýrara en gram af hveiti?
Þetta eru einfaldlega misverðmætar menntunir. Markaðurinn ætti að ráða því hvaða menntun er mikils virði og hver ekki.
En því miður eru flestir skólar ríkisreknir svo þú verður að benda á ríkið, ekki markaðinn, þegar þú vilt leiðrétta þennan misskilning.
Gramm af gulli er dýrara en gramm af hveiti af því að það er mun sjaldgæfara og mun erfiðara að “framleiða” (gull er auðvitað ekki framleitt, en það er erfiðara að vinna það, veist hvað ég á við).
Viðskiptafræðinga er hinsvegar ekkert erfiðara að framleiða en kennara, og þeir sinna engan veginn mikilvægara starfi og eru þannig engan veginn verðmætari vara en kennarar.
Ástæðan fyrir því að viðskiptafræðingar og flest allar aðrar stéttir háskólamenntaðs fólks fá hærri laun en kennarar er einfaldlega sú að fjármálastofnanirnar sem viðskiptafræðingarnir vinna fyrir hafa efni á að borga þeim mun hærri laun en ríkið hefur efni á að borga kennurunum. Ríkið sem er kannski vert að minnast á að hefur verið stjórnað af sjálfstæðisflokknum síðastliðin 18 ár.
Auðvitað segir kapítalisminn þá bara að fyrst vinna kennaranna sé svona mikið meira virði en launin þeirra þá eigi þeir bara að fara í verkfall og neita að vinna þangað til að þetta misræmi er leiðrétt. En dæmið er bara ekki svona einfalt…
Flestir vissu þeir ábyggilega að þeir gætu fengið hærri laun í annarskonar vinnu, en af einhverjum ástæðum völdu þeir samt þessa starfsstétt. Fyrst að peningar voru ekki ástæðan hljóta þeir að hafa valið hana vegna þess að þeim langar að vinna þessa vinnu, þeir telja hana mikilvæga, og þeir telja sig vel til fallna til að vinna hana.
En markaðurinn tekur ekki mark á slíku, það eina sem gildir er græðgi. Þú færð bara eins mikinn pening og þú ert tilbúinn til að berjast fyrir, og allt annað verður að vera í öðru sæti. Kennarar gera það sem þeir gera af því að krakkarnir sem þeir kenna þurfa menntun, og ef þeir neita að vinna þá fá krakkarnir ekki sína menntun.
Ef að kennarar færu allt í einu að fara fram á 400-500 þúsund á mánuði eins og fólk með svipaða menntun á öðrum sviðum og neituðu að vinna þangað til þeir fengju það þá yrði allt menntakerfið stopp. Í tíð sjálfstæðisflokksins hefði það vafalaust endað með því að menntakerfið eins og það leggur sig yrði einkavætt og aðeins börn efnaðs fólks fengju menntun.
Þannig að þú fyrirgefur að ég móðgist fyrir hönd kennarastéttarinnar þegar þú talar um “misverðmætar menntunir”… hreinn kapítalismi hreinlega gengur ekki, ekki frekar en hreinn kommúnismi, sem er jú ástæðan fyrir því að öll þróuðustu lönd heims búa við blandað hagkerfi. Mismunandi þjóðir eru síðan mislangt til hægri eða vinstri… og að mínu mati, og margra, margra annarra, erum við íslendingar einfaldlega komnir of langt til hægri.
Mér finnst rangt að ein manneskja ákveði í sinni öfundsýki (sem ég skil ekki að fólki finnst réttlætanleg. Það er einhvern veginn í týsku í dag að segja að græðgi sé vond og að öfundsýki sé góð) að taka eignir annarra, sem hann skapaði upp á eigin spýtur, til að nota fyrir sjálfan sig.
Þetta er bara ekki svona einfalt… fólk skapar ekkert bara mismikið af verðmætum og raðast í launastéttir eftir því. Sumir eru einfaldlega í betri samningsstöðu en aðrir þegar kemur að því að fara fram á hærri laun. Ekki bara vegna þess að vinna þeirra er mikilvægara en vinna annarra, það eru svo margir aðrir þættir sem spila inn í.
Sumir til dæmis þekkja bara rétta fólkið, í eins litlu samfélagi og við búum í getur það haft töluverð áhrif á stöðu fólks að þekkja fólk í réttum stöðum. Mikið af ríkum fjölskyldum þekkjast og hjálpast að við að halda hvor annarri í æðstu stöðum samfélagsins.
Svo er þetta oft spurning um siðferði, sumir eru tilbúnir að ganga mun lengra en aðrir til að bæta stöðu sína, mikið skortir á viðskiptalöggjöf hér á landi eins og er svo hægt er að komast ansi langt á því að gera hluti sem mörgum þættu ósiðlegir, en eru ekki endilega strangt til tekið ólöglegir. Auðvitað er ósanngjarnt að skella allri skuldinni á þetta fólk þegar það var jú ekki að brjóta nein lög, stjórnvöld bera sína sök á þessu líka, en það breytir því ekki að þetta skiptir fólki upp eftir því hversu langt það er tilbúið að ganga og þannig á þetta auðvitað ekki að vera.
Svona mætti lengi telja svo mér finnst þessi hugmynd um að “skapa sinn auð upp á eigin spýtur” sem þú tönnslast endalaust á full einfölduð, hljómar svolítið eins og þú lifir í einhverjum fullkomnum heimi þar sem fólk týnir bara mismörg epli og skiptist þannig í stéttir.
Hvers vegna ætti hin manneskjan þá að hafa fyrir því að skapa verðmætin í fyrsta lagi ef ég veit að þau eru tekin af mér? Hvers vegna ætti ég að hafa fyrir því að týna 100 epli ef ég veit að öll epli umfram 70 verða tekin af mér? Þá einfaldlega hættir fólk að týna epli umfram 70, minni verðmæta sköpun verður í samfélaginu og allir tapa.
Þetta dæmi auðvitað nær engri átt og minnir mig helst á
straw man greinina sem einhver postaði link á hérna, þar sem þetta er klárt dæmi um slíka röksemdarvillu.
Þú tekur hugmyndina um aukna hlutfallslega skattlagningu á hátekjufólk og ýkir hana þannig að skattprósentan sé orðin 100% þegar ákveðnu tekjumarki er náð. Þannig fari allar tekjur umfram það mark í skatta og launaþeginn fái því ekki krónu meir útborgað og hafi því enga ástæðu til að vinna harðar og sækjast eftir hærri launum.
Það veit auðvitað hver heilvita maður að engum stjórnvöldum dytti í hug að setja á slíka skattlagningu. Launþegi kemur ALLTAF til með að fá meira útborgað eftir því sem laun hans fyrir skatt hækka, og ég er orðinn frekar þreyttur á staðhæfingum sumra hérna um annað.
Jújú, auðvitað hækka laun hátekjufólks minna við hverja launahækkun ef lagður er á það hátekjuskattur og það myndi leiða til þess að fólk sæi ekki jafn mikla ástæðu til að vinna harðar að sér og sækjast eftir hærri launum… en þegar fólk er komið upp í segjum 700 þúsund+ þá efast ég um að þessi peningur skipti það það miklu máli hvort sem er. Til hvers að sækjast eftir hærri launum þegar þú hefur allt sem þú þarft? eins og ég fór út í áðan fær fólk minni lífsgæði fyrir hverja krónu eftir því sem launin þeirra hækka þar sem fleiri og fleiri þörfum þeirra er mætt og hver þeirra skiptir fólk minna máli. Þannig gerist það að fólk hefur minni og minni ástæðu til að sækjast eftir hærri launum hvort sem lagður er á það hátekjuskattur eður ei.
En það hefur sannað sig gegnum tíðina að fólk vill alltaf fá meira, og þó það hækki launin sín aðeins hægar þá heldur það samt áfram að sækjast eftir launahækkunum svo lengi sem þær eru í boði, það er bara í eðli mannsins…