“Sumir munu nota sér þekkingu um blekkingu nasista til að reyna að komast til valda … ”
Og ef allir aðrir þekkja til aðferða þeirra, þá munu þeir sjá í gegnum slíkt.
En ókei. Segjum að þitt ná fram að ganga. Úr öllum sögubókum eru rifnar þær blaðsíður sem fjalla eitthvað um nasista og fleygt á bálköstinn, ásamt öllum bókum sem fjalla um nasista (“Þegar bókabrennur hefjast líður ekki á löngu þar til farið verður að brenna fólk.” - Heinrich Heine, sem reyndist skuggalega sannspár, einkum þar sem hann lést 1856). Öll vitneskja okkar um nasista, og þá óhjákvæmilega mikið af vitneskju okkar um Seinni heimsstyrjöld, mun þurrkast út. Enginn veit hvað hakakross er, nema kannske einhverjir öldungar meðal hindúa. Enginn veit hvað einum manni tókst að láta heila þjóð gera, með blekkingu og persónutöfrum einum saman.
Svo gerist það, einn blíðan júnídag árið 2075, að fram kemur nýtt afl í stjórnmálum, leitt af einum manni. Boðskapurinn sem fluttur er er afskaplega meinleysislegur, a.m.k. er ekkert ólöglegt við hann. Þessi eini maður sem leiðir flokkinn hefur alveg gríðarlega mikla persónutöfra og er afburðasnjall ræðumaður. Nú veit enginn lengur hvað afburða snjöllum ræðumönnum tókst að gera á fyrri hluta tuttugustu aldar, og raunar er það tímabil oft þekkt sem “Hinar minni myrku aldir” þar sem það vantar nokkuð af upplýsingum frá þeim tíma, sem er óvanalegt.
En enginn veit hvað sigldi í kjölfar þessarra miklu og hæfileikaríku ræðumanna, og því er enginn á varðbergi gagnvart þeim. Fólk hrífst af þessum nýja flokksleiðtoga og þeir hljóta mikinn meirihluta, eða a.m.k. fleiri atkvæði en aðrir, til að komast inn á þing. Og hægt og rólega endurtekur sagan sig, það sem gerðist á árabilinu 1922-1945 gerist aftur.
“Hvernig gat þetta gerst?” spyrja menn þegar allt er yfirgengið, með tilheyrandi styrjöldum, þjóðarmorðum og öðru ógeði. Þá finna menn, við fornleifauppgröft æfafornar sögubækur, þar sem þessum atburðum er lýst, nokkurn vegin eins og þeir gerðust, og það eina sem var ólíkt voru ártölin og þær þjóðir sem tókust á.
Það er betra að einn eða tveir falli í nasismann eftir að hafa kynnt sér hann aðeins, en að heilu þjóðirnar falli vegni þess að þær þekktu söguna ekki nógu vel.
Er best að setja harðari lög? Þau eiga aldrei eftir að ná þeim markmiðum sínum (þínum) að útrýma nasisma og rasisma. Það þarf svo ógnarmikla fjármuni til að framfylgja þeim - halda uppi stóru lögregluliði, “endurhæfingastofnunum” (eins og í Kína), og slíku. Það eru peningar sem væri betur varið í forvarnir.
Líkjum þessu við ölvunarakstur. Hvernig er best að koma í veg fyrir hann, með strangari lagasetningu og meira lögregluliði á mótorhjólum og í bílum sem fá frjálsar hendur til að stöðva hvern sem er, eða með auknum forvörnum og áróðri gegn ölvunarakstri?
Já, fjölmenningarsamfélög hafa verið til um margra alda og árþúsunda skeið. En þau hafa ekki verið mikið rannsökuð fyrr en á síðustu árum. Hugtakið sjálft ætla ég að sé frekar nýtt af nálinni. Og það fyrirbæri hefur einfaldlega ekki verið rannsakað eins mikið og nasisminn, þar sem það er bara um miðja síðustu öld að skarpskyggnir höfundar tóku að veita því athygli að hvítir gagnkynhneigðir kristnir karlar voru nær alvaldir í menningarlegu tilliti, og að í löndum eins og Frakklandi, en einkum BNA var líka mikið um annað fólk, með sína eigin siði og venjur, eins og svarta menn í Suðurríkjunum, og svo framvegis. Og það er ekki fyrr en þá sem menn fara að velta þessu fyrirbæri fyrir sér, þótt það hafi þekkst á Vesturlöndum síðan (í það minnsta) Alexander lagði undir sig Persaveldi 3xx fyrir upphaf okkar tímatals.
Það hefur verið hér mun lengur en í einhver átta ár. Þegar við lutum Danakóngi var hér eitthvað af embættismönnum sem hlutu alla sína menntun í Danmörku og voru hér dansk-íslensk yfirstétt, ef svo má að orði komast, í lifnaðarháttum og venjum um margt frábrugðnir íslenskum almúgamönnum. Þegar svo kaupstaðir, eins og Reykjavík, tóku að rísa, myndaðist svo önnur menning hér, bæjarmenningin sem var um margt ólík sveitamenningunni. Þegar ég var í grunnskóla, fyrir meira en átta árum síðan, þá voru hér þegar Víetnamar, með sína eigin tungu, siði og venjur. Þá þegar, er ég var um tíu-ellefu ára gamall, var gamla konan sem safnar dósum þegar komin og búin að vera hér um nokkurt skeið.<br><br>Þorsteinn.
“Að gera ekkert, og hvíla sig þess á milli - það er göfug list.” - Afi.