Í fyrsta lagi geturðu líklega bent á að flest rök gegn tölvuleikjum eiga einungis við ofnotkun, en ekki eðlilega notkun. T.d. er ekkert óeðlilegra að spila góðan tölvuleik með félögunum, en að taka t.d. eina langa skák, eða spila eitthvað spil. Ég er sem sagt að tala um tölvuleiki sem áhugamál, en ekki sem lífsstíl.
Tölvuleikir hjálpa ungum krökkum að þjálfa samhæfingu huga og handa (gætu eflaust þjálfað fætur líka, ef einhver stýritól væru til fyrir þá - reyndar er til svona dansmotta fyrir Playstation sem gæti hugsanlega gegnt því hlutverki).
Tölvuleikir geta stuðlað að félagslegum þroska, upp að ákveðnu marki. Þ.e.a.s. tölvuleikir sem spilaðir eru með öðrum lifandi einstaklingum á neti.
Tölvuleikir geta hjálpað fólki að læra hluti, s.s. stærðfræði, tungumál, stafsetningu og margt fleira.
Það eru til tölvuleikir sem krefjast þess að sá sem spilar sé á sífelldri hreyfingu, s.s. leikir fyrir Wii, Eyetoy fyrir Playstation, Dance-eitthvað fyrir Playstation (með dansmottu) og jafnvel Guitarhero krefst ákveðinnar hreyfingar.
—
Á móti tölvuleikjum er t.d.:
1. Þeir geta verið ávanabindandi og valdið þeim sem ánetjast og aðstandendum þeirra miklu tjóni.
Svar:
Vissulega geta tölvuleikir verið ávanabindandi, en það á bara við um nánast allt í umhverfi okkar, s.s.: kynlíf, sjónvarp, áhætta af ýmsu tagi (spennufíkn), kaffi, kók, áfengi, sígarettur, vald, klám, matur, o.s.frv.
Viljum við banna allt sem getur verið ávanabindandi fyrir einhverja? Er þetta allt af hinu illa? Erum við ekki að tala um það að ofnotkun er slæm en notkun góð?
Er ekki nær að eiga úrræði handa þeim fáu sem ánetjast einhverju, hvort sem það eru tölvuleikir eða eitthvað annað?
2. Það gerir engum gott að hanga í tölvunni marga tíma á dag í stað þess að fara út og hreyfa sig, t.d. með því að taka þátt í íþróttum.
Svar:
Enn er verið að einblína á ofnotkun tölvuleikja og tölva almennt. Að sjálfsögðu er það slæmt að vera *alltaf* í tölvunni. Alveg eins og það er slæmt að vera *alltaf* að borða, *alltaf* sofandi, eða *alltaf* að hlaupa (það getur valdið ýmsum álagsmeiðslum, svo sem slit á hnjám og liðþófum og ofþjálfun er vandamál hjá mörgum).
Erum við samt á móti því að menn borði, sofi eða hlaupi? Að sjálfsögðu ekki.
3. Tölvuleikir eru dýrir og það getur farið illa með fjárhag heimilisins að eyða öllum peningum í tölvuleiki.
Svar:
Enn og aftur er verið að horfa á fíkla. Venjulegt fólk sem spilar tölvuleiki í frístundum á svipaðan hátt og menn skreppa í golf stöku sinnum, eða horfa á uppáhalds sjónvarpsþáttinn sinn, eyðir ekki fúlgum í að versla tölvuleiki.
Venjulegt fólk kaupir sér gjarnan góðan leik sem endist lengur en í nokkra daga. Sumir leikir geta enst mönnum árum saman jafnvel (ég t.d. keypti mér Battlefield 1942, árið 2002. Síðan keypti ég Battlefield 2 árið 2005 (eða 2004? Ég man það ekki alveg) og síðan hef ég ekki keypt mér nýjan leik).
0100100100100000011000010110110100100000010001000110000101110110011010010110010000100001