Þetta verður fyrsti vikulegi pistillinn minn en búið er að banna mér að skrifa mikið um þessi mál en ég mun engu að síður nýta mér það málfrelsi sem ég held hér enn. Þessar greinar munu allar vera um sama málefni enda þörf á að auka áróður anti-rasista þegar rasistaflokkar stækka sem mest. Þessi fyrsta grein mín fjallar um skólamál á Íslandi.

Í Austurbænum í Reykjavík er skóli nokkur sem heitir Austurbæjarskóli og er skólinn ekki sérstakur nema fyrir þær sakir að fyrir skömmu var skólinn gerður fjölþjóðlegur og eru nú um 9% nemanda frá öðrum þjóðernum en Íslenskum.

Skólinn hefur á undanförnum árum og sérstaklega nú á því síðasta einbeitt sér að þessu verkefni að koma krökkunum saman og láta þau vinna saman með mismunandi menningar og hafa meðal annars alls kyns menningaviðburðir verið hafðir í þessum skóla þar sem foreldrum er boðið að mæta og fylgjast með börnum sínum og þeim börnum sem koma frá öðrum menningarsvæðum. Ég man eftir einum slíkum degi þar sem fólki var boðið að koma í skólann og smakka hinn ýmsa mat frá mismunandi löndum og var víst mikil ánægja með það.

Það er nú þannig með flesta skóla og menntaskóla á landinu í dag að það vantar alla fjölmenningu og gleði í skólana og því þætti mér það frábært framtak ef að allir skólar myndu nú taka Austurbæjarskóla sér til fyrirmyndar og koma af stað fjölmenningu í skólanum með hinum ýmsu skemmtunum og fleiru því að á undanförnum árum hefur Ísland fengið þann fjársjóð að fá innflytjendur til landsins af öllum kynþáttum og trúarbrögðum sem hafa bæði komið með gríðarlega mikið af nýjum lífsviðhorfum í sveitalega skerið okkar sem og að vera þekkt fyrir það að hafa unnið allra manna mest og meir að segja bjargað efnahaginum hér þar sem byrjað var að vanta fólk í störf áður en þetta fólk bauðst til að koma til landsins.

Það er orðið svo gaman að búa á þessu landi sem var einu sinni bæði fremur sveitalegt og með hálf einhæfan mat. Nú er jafnvel hálfpartinn hægt að komast í annan heim með því að labba inn á erlendu veitingahúsin. Þetta fólk hefur því eins og Bubbi Morthens sagði hreinlega auðgað Ísland gríðarlega og má líkja þeim við blóm sem hafa vaxið á meðal okkar, nokkurn veginn blóm sem hafa vaxið í kringum arfann sem var hér áður.

Ég skora því á alla skóla í landinu að gera skólana fjölþjóðlega með hinum ýmsu verkefnum og atburðum í tilefni þess. Það er líka svo gott upp á samskipti kynþáttanna og eyðir fordómum heimalinna Íslendinga sem hafa myndað sér fordóma og hatur gegn lituðum.