Ég er alveg innilega sammála. Hér á landi vantar alla rannsóknarblaða- og fréttamennsku. Ég þekki ágætlega til fjölmiðla hér á landi og vil meina að peningaleysi sé aðalorsök þessa. Svo lengi sem fjölmiðlar eru ekki sjálfstæðir heldur háðir ríkisstyrkjum og styrkjum frá ýmsum áhrifaöflum í þjóðfélaginu mun fréttastefnan ávallt verða ritstýrð af þessum aðilum. Menn mega þó ekki láta þekkta bitna á siðferðisþreki sínu.
Það eimir enn af áhrifum gömlu flokkablaðanna þó að þau hafi flest lognast út af, enda börn síns tíma og varla marktæk vegna einstefnuskoðanna sinna. Mogginn heldur þó áfram að vera málgagn hægrisinnaðra. Ég get því ekki tekið mikið mark á fréttastefnu þeirra (ekki af því ég sé á móti hægrisinnuðum, heldur vegna þess að ég veit að ekki er gætt hlutleysis og sum “óþægileg” mál beinlínis þögguð niður. Það er einfaldlega slæm fréttamennska, hvað sem öllum stjórnmálaskoðunum líður).
Af íslenskum fjölmiðlum finnst mér einna helst DV og Stöð 2 hafa einhvern vott af “rannsóknarfréttamennsku” á þann hátt að þessir fjölmiðlar birta oft fréttir af fólkinu í landinu og stöðu þess. T.d. hefur DV verið að fjalla um biðlista fatlaðra og fylgt málinu nokkuð eftir. Mogginn hefur ekki minnst einu orði á þetta fremur en nokkuð annað sem gæti kastað rýrð á ríkisstjórnina. Mogginn gefur sig út fyrir að vera “blaðið” en er í raun mest pólitískt ritskoðaði fjölmiðillinn á landinu. Þeir eru af mörgum taldir traustur risi í íslenskri fjölmiðlafljóru en ég gef ekki mikið fyrir það. Það eina sem mér finnst áhugavert í blaðinu er Lesbókin, Sunnudagskálfurinn og sum lesendabréfin (sem eru reyndar ritskoðuð, það má ekki skrifa um hvað sem er). Það má vel vera að listaumræða í Lesbókinni sé líka ritskoðuð þó ég hafi ekki tekið eftir því.
Stöð 2 er ágengari í fréttaflutningi sínum en RÚV og telja margir það þeim til foráttu. Mér finnast þó sjónvarpsfréttamenn oft vera alltof linir við viðmælendur sína, þ.e. stjórnmálamenn. Þeir spyrja spurninga en stjórnmálamennirnir snúa út úr og komast upp með það að svara aldrei spurningunum. Oft verða þessar umræður eins og pólistíksur sandkassaslagur: “Ég vil fyrst fá að koma því að (þ.e. ég vil ekki svara þessari spurningu) að hinn aðilinn er vondur og gerir allt vitlaust”…svo er baunað á “hinn aðilan” og menn koma sér hjá því að svara upphaflegu spurningunni.
Þess eru dæmi að sumir stjórnmálamenn hafi sett fjölmiðla í bann (þ.e. ákveðið að ræða ekki við viðkomandi fjölmiðil) ef sá fjölmiðill kemur við kauninn á viðkomandi stjórnmálamanni, þe.e. ef hann “hagar sér ekki rétt”.´ Svona á náttúrulega ekki að viðgangast. Hér áður fyrr komu stjórnmálamenn og ráðherrar ekki í viðtöl án þess að vera búnir að fá spurningarnar fyrirfram og þeir gátu neitað að koma í viðtöl ef þar voru spurningar sem þeir vildu ekki svara. Að sumu leyti finnst mér ekki margt hafa breyst í þeim efnum.