Svo virðist sem aðför Sjálfstæðisflokksins að Baugi og þeim virtu kaupsýslumönnum sem standa fyrirtækinu næst hafi að nokkru heppnast. Allavega fengu tveir keppnismenn, sem hafa glímt við ofurefli ríkisvaldsins um árabil, skilorðsbundna dóma í málinu. Það hefur verið hroðalegt að horfa upp á hvernig Sjálfstæðisflokkurinn og ríkisvaldið hafa lagt í umfangsmikinn fiskileiðangur í dómssal með tugi ákæra í farteskinu, sem flestum hefur verið hent til og frá í dómskerfinu. Þær hafa verið lagfærðar og endurmetnar eftir frávísun, og svo þegar loks kemur dómur er ljóst að ekki hefur fiskast nánda nærri eins vel og ákæruvaldið vonaðist eftir.
Hér er um að ræða einhverja þá hneykslanlegustu meðferð á almannafé sem um getur. Stórt gengi ofsækjenda hefur verið á launum við að elta uppi menn sem ekki mega vamm sitt vita. Teygir vefurinn sig upp í spilltustu kofa Sjálfstæðisflokksins niður í skjalakjallara ríkislögreglustjóra. Það er þýðingarmikið að almenningur láti í sér heyra við aðstæður sem þessar, og launi Sjálfstæðisflokknum lambið gráa í kosningunum.