Graffiti á Íslandi
Undanfarin 15 ár eða svo hefur menning í kringum graffiti verið í stöðugri mótun á Íslandi. Á þessum stutta tíma hafa einföld veggjaskrif með pennum þróast yfir í háþróað listform sem stundað er af sífellt fleiri einstaklingum.
Yfirvöldum yfirsást þessi stórkostlega þróun listformsins og einblíndu á veggjaskrif og óvönduð uppköst. Í stað þess að leitast við að fræða var farin þveröfug leið sem fólst í að eyða burt ummerkjum listformsins graffiti. Sumarstarfsmenn máluðu yfir allt sem virtist koma frá úðabrúsum eða pennum og var miklum fjármunum varið í þessar aðgerðir. Nú er búið að keyra strangara kerfi af stað sem snýst um að þyngja refsingar og sekta þá sem gripnir eru með úðabrúsa.
Beita á svokallaðri „engin miskunn"-aðferð sem mistekst alls staðar sem hún er reynd nema stöðugt meira fjármagni sé varið í hreinsun og yfirmálun frá ári til árs.
Sú þróun sem hefur átt sér stað í graffiti á þessu ári er alveg nákvæmlega sú sem ég spáði fyrir á fundi mínum við borgarfulltrúa í vor, þ.e. að graffiti myndi verða mun sýnilegara og ágengara, og að tilraunir borgaryfirvalda til að útiloka graffiti væru ekki mjög líklegar til að skila árangri.
Það er gefið mál, að mínu mati, að þar sem engin fræðsla er til staðar og enginn opinber stuðningur eða aðhald fæst myndast bæði ringulreið og mikil andspyrna.
Jákvæðar hliðar graffiti-menningar
Þó svo að eðli graffiti sé að vera mjög ótamið og frjálst, sem erfitt er að temja og móta, er möguleiki til staðar til að beita ákveðnum áherslum og þróa menninguna sem listform. Iðkendur graffiti-listar tileinka sér nánast undantekningarlaust starfsvettvang á sviði hönnunar eða sjónlista.
Í dag eru t.d. starfandi yfir 30 grafískir hönnuðir, fatahönnuðir, ljósmyndarar og listamenn með grunn í graffiti og mun fleiri eru nú að mennta sig í þessum starfsgreinum. Þetta munstur er engan veginn bundið við Ísland því alls staðar í heimi lista og tísku eru áhrif og straumar frá graffiti-list að ná miklum vinsældum. Ástæðan fyrir því er sú að í graffiti eru litafræði, formfræði, leturfræði, myndbygging og stíll gríðarlega mikilvæg þótt fæstir átti sig almennilega á því. Listmálarar og hönnuðir af gamla skólanum standa grænir af öfund yfir þessari gríðarlegu innsýn sem virðist koma náttúrulega hjá þeim sem iðkað hafa úðabrúsalistina.
Hvað er hægt að gera?
Nú eru nokkrir mánuðir til vors, sem er mjög góður tími til að leggja grunninn að átaki fyrir næsta sumar. Hluti af því fjármagni sem búið er að gera ráð fyrir til þrifa, löggæslukostnaðar, málunar og annars vegna baráttu gegn graffiti gæti beinst inn á nýjar brautir til að nýta hæfileikana sem birtast á veggjum borgar og bæja.
Til að byrja með væri hægt að opna nýtt löglegt svæði fyrir graffiti sem gæti verið hálfgerður lystigarður fyrir almenning sem endurnýjar sig sjálkrafa, borgarbúum að kostnaðarlausu. Þar væri hægt að stofnsetja átak formlega og keyra í gang fræðslu auk þess að fjarlægja veggjakrot og spreyjuð uppköst á einkaeignum. Heimasíðan Hiphop.is myndi opna sérsíðu tileinkaða átakinu og væru fræðslufundir, viðburðir og annað kynnt þar. Listaverkauppboð á strigaverkum eftir graffiti-listamenn yrðu seld á uppboði til styrktar góðum málefnum.
Yfir sumartímann væri hópur starfræktur sem skipulegði og málaði veggskreytingar á löglega veggi með jákvæðum skilaboðum. Listasýningar yrðu einnig haldnar yfir sumartímann með formlegum hætti þar sem t.d. listaverk, fatnaður og ýmis hönnunarverk yrðu til sýnis.
Ekkert skortir nema viljann til að nýta þá miklu orku, innsýn og listsköpun sem birtist í graffiti-forminu og er núna sóað í kostnaðarsama eltingaleiki út um allan bæ. Graffiti verður ekki tamið að fullu frekar en ólgandi stórfljót, en orku hennar er sjálfsagt að reyna virkja til góðra verka.
birt með leyfi höfundar.
en eins og stendur í þessari grein þá mun aðferð borgarinar að hækka sektir og mála strax yfir alls ekki virka, það hefur sýnt sig í öllum löndum sem það hefur verið reynd.
Bætt við 13. febrúar 2007 - 22:24
sry kannski svoldið bögg að lesa þetta